Jón Þórisson, ritstjóri Fréttablaðsins fullyrðir að veturinn sem nú er kvaddur á brott hafi verið einn sá erfiðasti í manna minnum. Þetta kemur fram í leiðara Fréttablaðsins frá því í morgun. Hann segir að illviðri, hamfarir, mannskaði og ekki síst Kórónaveiran hafi sett stór strik í reikninginn.
Jón spekúlerar líka um forsetakosningarnar sem nú virðast vera fram undan, en eins og staðan er núna hafa tveir tilkynnt um framboð gegn Guðna, þó að hvorugur þyki líklegur til sigurs gegn honum.
„Allt stefnir nú í að efna verði til kosninga til embættis forseta lýðveldisins eftir að tveir karlar hafa tilkynnt um framboð, auk sitjandi forseta. Að óbreyttu gefst landsmönnum í sumar kostur á að mæta á kjörstað víða um land og greiða atkvæði. Að þessum framboðum fram komnum virðist tilefni til slíks umstangs ekki ærið.“
Þá fjallar Jón þá um meðmælin sem frambjóðendur þurfa að safna fyrir framboð sitt, sem eru 1500 talsins. Hann bendir á að krafan hafi verið sú sama síðan 1952, þegar að Íslendingar voru helmingi færri.
„Sú regla er í gildi að forsetaframbjóðendur þurfa að leggja fram lista með meðmælum minnst 1.500 kosningabærra manna, sem skiptist á alla landsfjórðunga. Þetta lágmark hefur verið óbreytt frá árinu 1952.
Tilgangur þessa miðar að því að tryggja að forsetaframbjóðandi hafi lágmarksstuðning í embættið og líkur á því að hljóta kosningu séu raunhæfar.
Þegar fjöldinn var ákveðinn voru Íslendingar rúmlega helmingi færri en þeir eru nú. Með réttu ætti krafan um lágmarksfjölda meðmælenda forsetaefna því að vera ekki lægri en þrjú þúsund.“
Jón segir að eðlilega fylgi ákveðinn kostnaður því að halda uppi lýðræði, en segir að fólk ætti ekki að bjóða sig fram nema það sæi raunhæfan möguleika á því að ná kjöri.
Hann telur að eðlilegt væri að hækka lágmarksfjölda meðmælanda, svo að kosningarnar verði ekki fyrirsjáanlegar og kostnaðarsamar tilgangslaust.
„Auðvitað fylgir lýðræðinu ýmis kostnaður. Í fjárlögum ársins eru 400 milljónir ætlaðar til að standa straum af kostnaði við forsetakosningar þetta árið. Það er mikilvægt að opinberu fé sé ekki ráðstafað að nauðsynjalausu jafnvel þó það sé í nafni lýðræðisins.
Í því sambandi verður að treysta því að menn bjóði sig ekki fram nema að þeir telji að þeir eigi raunhæfa möguleika á kosningu. Bresti frambjóðendum dómgreindin munu kjósendur eiga síðasta orðið og, eftir atvikum, koma í veg fyrir slys.
Til að minnka líkur á að á það þurfi að reyna ætti að laga kröfuna um lágmarksfjölda meðmælenda að mannfjöldaþróun hérlendis.
Það er ýmislegt sem hægt er að gera fyrir 400 milljónir, ekki síst þegar fé streymir úr ríkissjóði til að vernda störf og tryggja þjóðarhag.
Þeir sem stofna til slíks kostnaðar ættu að hugsa sinn gang.“