Björgunarsveitir á Vesturlandi og höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar úr á fjórða tímanum í dag vegna leitar að ungum dreng sem varð viðskila við fjölskyldu sína við Hreðavatn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbjörg.
Rúmlega 80 björgunarsveitarmenn leita nú á svæðinu í kringum Hreðavatn, fótgangandi og með drónum. Leitarhundar og sporhundar eru einnig notaðar við leitina.
Uppfært kl. 17:35
RÚV greinir frá því að þyrla Landhelgisgæslunnar hefur verið kölluð til aðstoðar við leitina. Hreðavatn er einn ferkílómetri að stærð og mesta dýpt í vatninu er 20 metrar.
Þyrlan ætti að koma á vettvang um sex-leytið. Davíð Már Bjarnason hjá Landsbjörgu gat í samtali við DV ekki staðfest aldur drengsins en hann er á grunnskólaaldri.
Uppfært kl. 18:24
Drengurinn fannst heill á húfi upp úr kl. 18. Þetta staðfesti Davíð Már í samtali við Fréttablaðið.