Biskupsstofa hefur sent öllum börnum fæddum árið 2007 hvítan bol með merki Þjóðkirkjunnar, bol sem kallaður er „skírnarkjólsbolur” á vef Þjóðkirkjunnar þar sem sagt er frá sendingunni.
„Þó svo veiruinnrás hafi sett fermingar vorsins í kransaköku sjáum við glitta í fermingarlandið. Þá er ekki seinna né vænna að hefja fermingarundurbúning ársins 2021, barna fædd 2007.
Það er sumsé ekki til fermingarundirbúningur. En, það er til fermingarundurbúningur.
Ok, boomer!,“
segir ennfremur á vef Þjóðkirkjunnar. Þar kemur fram að öll börn sem fædd eru árið 2007 – alls 4.100 börn – fái sendinguna jafnvel þó ekki ætli öll börn að fermast. Með bolnum fylgja síðan leiðbeiningar um að hægt sé að fá helstu upplýsingar um fermingu 2021 á vefnum ferming.is og má þar til að mynda sjá upptöku af sérstökum skilaboðum til fermingarbarna frá séra Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi.
Þjóðkirkjan bendir á að þau börn sem fædd eru árið 2007 og hafa ekki fengið skírnarkjólsbol geti haft samband við Biskupsstofu og fá þau bol sendan um hæl.