Sigríður Karlsdóttir, lífsleiknikennari og heilsuráðgjafi, virðist ekki sátt með hegðun margra Íslendinga um þessar mundir. Sigríður birti pistil á Vísi í dag. Þar talar hún um að margir taki ekki ástandinu nægilega alvarlega.
„Sorry ef ég er eitthvað að trufla partýið.
Héddna.. ég er að tala við þig sem fórst með 3 hjónum og maka þínum í bústað um helgina.
Og þig, ungi maður í ísbúðinni sem varst með 5 öðrum vinum þínum að knúsast og hafa það næs. Svona eins og maður gerir vanalega. Bara ekki núna.
Og svo þig líka, dömuna, sem hittir vinkonur þínar á kaffihúsinu í hverfinu. Mamma þarf að djamma og allt það.“
Sigríði finnst fáránlegt að fara út á lífið, hitta vini sína á kaffihúsi eða í ísbúð á meðan að heilbrigðisstarfsfólk hættir lífi sínu fyrir heilsu annara.
„Bara sorry með mig. En ég ætla vera ógeðslega leiðinleg og skemma stemmninguna.
Þarna úti er fólk sem vinnur af sér rassgatið inni á sjúkrahúsum, hættir lífi sínu til að vera til staðar fyrir deyjandi fólk.
Þarna úti er þríeykið að vinna á hverjum einasta degi, líka um helgar. Líka í páskafríinu, á meðan þú hittir nokkra félaga yfir öl.
Þarna úti eru ömmur og afar sem geta ekki farið út í búð vegna þess að þetta er leikur upp á líf og dauða.
Þarna úti eru kennarar að reyna halda rútínu hjá börnunum ykkar meðan þetta gengur yfir. Ef þið hysjið ekki upp um ykkur buxurnar, þá gengur þetta yfir á.. tja…. 18 mánuðum??
Sjáiði ekki virðingarleysið?“
Lok pistilsins eru ansi harðorðuð, en þar er fólk sem ekki getur haldið sér heima sagt að fara í naflaskoðun. Sigríður biðst afsökunar á því að vera leiðinleg, en segist ekki nenna að vera næs.
„Takið nú rakettuna úr rassinum á ykkur. Takið líka hausinn þaðan út til að þið getið áttað ykkur á heildarmyndinni.
Við lendum aftur á byrjunarreit af því ykkur langaði bara svo ofsalega að hitta einhvern. Og bara hafa gaman, skiluru.
Ef þið getið ekki chillað með ykkur sjálfum, þið vitið – verið sjálfum ykkur nóg – þá er kannski kominn tími til að skoða af hverju. Kannski þurfið þið bara að setjast aðeins niður og fara í naflaskoðun. Gætuð jafnvel fundið eitthvað naflakusk þar. Ef þið hafið tíma.
Afsakið hvað ég er óforskömmuð að ráðast svona á ykkur í gegnum tölvuna. Ég nenni bara ekki að vera næs núna.
Kannski er ég bara abbó af því mig langar að fara í bústað.
Kannski er ég bara eigingjörn af því ég nenni ekki að byrja alltaf upp á nýtt og leyfa þessu ástandi að malla heila meðgöngu i viðbót.
Kannski er ég svona hvöss af því ég hef hangið heima hjá mér í að verða mánuð,
Þetta er ekkert flókið. Inn í hellinn með ykkur.
Góðar stundir.“