Samkvæmt tillögum Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis til heilbrigðisráðherra um takmarkanir á ferðum til landsins munu allir sem hingað koma til lands þurfa að fara í sóttkví í tvær vikur. Einhverjir möguleikar verða þó á undatekningum. Nánar verður þetta útlistað þegar ráðherra greinir frá ákvörðun sinni í málinu í dag eða á morgun. Gert er ráð fyrir því að þetta gildi til 15. maí og verði endurskoðað eftir þann tíma.
Þórólfur greindi frá þessu á daglegum upplýsingafundi um COVID-19 sem hófst kl. 14 í dag.
Þórólfur hefur einnig sent frá sér minnisblað til ráðherra um útfærslur á ýmsu sem viðkemur fyrsta skrefi afléttingar á samkomubanni þann 4. maí. Gildir það aðallega um íþróttastarfsemi og skólastarf. Nánar verður greint frá því í tilkynningu frá ráðherra í dag eða á morgun.
Eins og áður hefur komið fram greindust aðeins tveir með COVID-19 á síðasta sólarhring og eru báðir frá Vestfjörðum. Tíu hafa látist af sjúkdómnum og nýjasta dauðsfallið varð síðasta sólarhring í Bolungarvík. Rétt er að geta þess að aðeins um 400 sýni voru tekin síðasta sólarhring.
Þórólfur segir ljóst að faraldurinn sé í mikilli niðursveiflu en erfitt sé að draga ályktanir af tölum dagsins einum og sér. Þróunin komi betur í ljós næstu daga.