„Ég óska stuðningsmönnum Ágústu gleðilegra páska. Ég bendi þeim líka á að þau sem brigsla mér um „óstjórn á mörgum sviðum“ sýndu hugrekki ef þau kæmu fram undir nafni og stæðu fyrir máli sínu,“ þetta segir Atli Harðarson, fyrrum skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands í færslu á Facebook þar sem hann svarar fyrir ítrekaðar yfirlýsingar Ágústu Elínar Ingþórsdóttur um þann ólestur sem var á rekstri skólans er hún tók við störfum.
Í færslu sinni viðurkennir Atli að skólinn hafi verið skuldugur þegar hann lét af störfum árið 2014. Fyrir því hafi þó verið gildar ástæður. Skólinn hafi innritað nemendur umfram þann fjölda sem gert hafði verið ráð fyrir á fjárlögum árið 2008, líkt og venja hafi verið fyrir. Hafi þá umframnemendur verið bættir árið á eftir. Hins vegar, líkt og flestir muna, skall á kreppa og ríkissjóður því ekki í stöðu til að bæta umframnemendur.
„Kostnaðurinn við að kenna of mörgum var því skrifaður sem skuld skólans við ríkissjóð.“
Í stjórnartíð Atla var launakostnaður líka meiri en gekk og gerðist í íslenskum framhaldsskólum. Fyrir því voru þó eðlilegar ástæður. Mikill fjöldi starfsmanna var kominn á sérkjör vegna aldurs, starfsmannavelta var lítil og mikið um hærri launaflokka sökum starfsaldurs.
„Í tíð Ágústu var starfsmannavelta mjög mikil svo það fækkaði ekki aðeins þeim sem voru komnir yfir sextugt heldur líka þeim sem röðuðust ofar í launatöflu vegna starfsaldurs (en þær hækkanir fá flestir löngu fyrir sextugt).“
Eftir að Ágústa tók við þá hækkuðu framlög ríkisins fyrir hvern nemanda. Þessi hækkun átti meðal annars að nýtast til þess að bæta kjör starfsmanna skólans. Það var hins vegar ekki gert og þegar Ágústa skildi við starfið þá var enn í gildi vinnustaðasamningur sem Atli hafði gert á krepputímanum og kjör starfsmanna voru orðin töluvert lægri en við aðra framhaldsskóla .
„Aðdróttanir þess efnis að núverandi skólameistari, sem tók við í byrjun þessa árs, sýni ábyrgðarleysi með því að undirrita venjulegan vinnustaðasamning, líkan þeim sem gilda í öðrum skólum þessi misseri, eru því skrýtnar.
Menn geta metið það fyrir sig hvort það var mikið afrek að borga niður skuld skólans að þessu gefnu.“
Eins og fram hefur komið hefur nýr skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands, Steinunn Inga Óttarsdóttir, náð samningum við kennara skólans sem hefur í för með sér verulegar kjarabætur fyrir kennarana. Mikil ólga og átök einkenndu stjórnartíð Ágústu við skólann og lýstu kennarar skólans meðal annars yfir vantrausti á hana og kröfðust þess að skipunartími hennar yrði ekki lengdur. Í vörnum sínum hefur Ágústa ítrekað vísað til bágrar stöðu rekstrar skólans þegar hún tók við og hvernig henni hafi tekist að snúa rekstrarhalla yfir í rekstrarafgang.
Stuðningsmenn Ágústu hafa gagnrýnt stofnanasamning sem nýr skólameistari hefur gert og segja hann óábyrgan á þeim tímum sem nú eru uppi í þjóðfélaginu.
Sjá einnig: Deilurnar um FVA:Stuðningsfólk Ágústu segir umfjöllunina einhliða