„Ágætu útgerðarmenn. Nú á íslenska þjóðin í miklum vanda.“ Svona hefst opið bréf til útgerðarinnar á Íslandi sem leikarinn Valdimar Örn Flygenring skrifar.
Valdimar bendir á að sökum heimsfaraldurs COVID-19 standi margir í ströngu. Ferðaþjónustan sé nánast horfin, margir hafa misst vinnuna og efnahagur landsins hefur orðið fyrir gríðarlegu áfalli.
Hins vegar finnst Valdimar það skjóta skökku við að mitt í þessum fordæmalausum tímum þyki útgerðinni sjálfsagt að krefjast þess að fá bætur vegna makrílskvóta.
„En á þessum fordæmalausu tímum finnst ykkur sjálfsagt að krefja ríkissjóð o.þ.a.l. íslensku þjóðina um bætur vegna makrílkvóta sem þið teljið ykkur hafa haft rétt á að fá úthlutaðan úr þjóðar auðnum án als endurgjalds.
Ég er ekki svo illa upp alinn að ég láti hafa eftir mér á prenti þau orð sem mér dettur helst í hug til að lýsa skoðun minni á þessari kröfu ykkar.“
Valdimar segir það ljóst að útgerðin hafi Sjálfstæðisflokkinn í vasanum og beiti öllum brögðum til að komast undan því að standa skil á lögbundnu endurgjaldi fyrir afnot af auðlindum landsins í ríkissjóð.
„Jafnframt því að hlunnfara starfsmenn ykkar um eðlilegan hlut af hagnaði, með allskonar bellibrögðum.
Ykkur mætti mjög vel kalla ríki í ríkinu eða það sem kallað er í suðlægari löndum mafíu.Þið gerið nákvæmlega það sem ykkur sýnist og hæðist að fulltrúum þjóðarinnar og hótið þeim jafnvel ofbeldi. Ykkar viðskiptasiðferði virðist vera algjörlega af síðustu sort og svo botnfallið að það er hreinlega orðið ósýnilegt og neðanjarðar einhvers staðar.“
Valdimar segir útgerðina hafa gífurleg ítök inni á Alþingi, og það sé með ólíkindum að hún komist upp með það.
Ítök ykkar á alþingi Íslendinga er með hvílíkum ólíkindum að allt sómakært fólk hlýtur að fyllast sorg yfir vesældómi þeirra kjörnu fulltrúa okkar sem leyfa ykkur að komast upp með ósómann. Hvers vegna þeir gera það, læt ég liggja milli hluta, en alls staðar annars staðar í heiminum gerist það ekki öðruvísi en með mútum. Ég hef enga ástæðu til að efast um að það sé ekki eins hér.
Valdimar biðlar því til útgerðarinnar að falla frá kröfum um bætur vegna makrílsins. Samfélagið okkar hafi hreinlega um nóg annað að gera og skuldi útgerðunum ekki neitt.
„Það sagði mér mikill heiðursmaður og skipstjóri til áratuga, í trúnaði, að allt talið um brottkastið, svindlið á kvótagreiðslum og yfirleitt allur skíturinn sem uppá ykkur hefur verið borinn varðandi spillingu og siðleysi væri dagsannur. Og eftir að hann lýsti þessari skoðun sinni er hann litinn hornauga af mafíunni. En finnst þeir hvort eð er ekki merkilegar manneskjur og því alveg sama…..enda hættur á sjó.
En togið nú hausinn útúr ykkar eigin rassi og verið manneskjur…..eins og langamma mín hefði orðað það svona um það bil.„