fbpx
Sunnudagur 16.maí 2021
Fréttir

Átök á Akranesi – Erfiðleikar og óánægja í Fjölbrautaskóla Vesturlands: „Hafi skólameistari skömm fyrir“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Laugardaginn 5. október 2019 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ágúst Elín Ingþórsdóttir, skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi (FVA), freistar þess nú að vera skipuð aftur í embætti skólameistara við FVA og hefur jafnframt kært þá ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra að auglýsa starfið.

Frá því að Ágústa tók við embættinu hefur hún mætt harðri gagnrýni fyrir stjórnunarhætti sína og framkomu við undirmenn. Meðal annars hefur ríkið þurft að greiða ríflega fimm milljónir króna í bætur og málskostnað til fyrrverandi aðstoðarskólameistara sem Ágústa vék úr starfi án þess að fylgja réttum verkferlum.

„Hafi skólameistari skömm fyrir“

Ágústa Elín var skipuð skólameistari frá og með 1. janúar 2015 til fimm ára. Fljótlega eftir að hún tók við embættinu sagði hún upp sjö ræstingakonum sem störfuðu við skólann. Skólinn hafði verið rekinn með töluverðum halla árin á undan og voru þessar uppsagnir liður í tilraun Ágústu Elínar til að rétta úr kútnum. Verkalýðsfélag Akraness gagnrýndi uppsagnirnar harðlega. Í yfirlýsingu vegna málsins á heimasíðu félagsins frá 13. maí 2015 segir að það sé „dapurlegt og nöturlegt til þess að vita að á sama tíma og kennarar fengu 30 prósent launahækkun sé krafist launalækkunar hjá ræstingarfólki skólans. Þær konur sem þarna um ræðir hafa starfað þarna í allt að 30 ár við góðan orðstír.“

Kennarar skólans mótmæltu einnig uppsögnunum og á fundi starfsmanna FVA var samþykkt ályktun þar sem starfsmenn mótmæltu uppsögnunum formlega og skoruðu jafnframt á Ágústu að draga þær tafarlaust til baka. Fráleitt væri  gera starfsfólk í ræstingu ábyrgt fyrir halla skólans.

Í samtali við Skessuhorn sögðu ræstingakonurnar uppsagnirnar vera nöturlega sumargjöf og Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness gerði uppsagnirnar að umfjöllunarefni á baráttufundi félagsins þann 1. maí 2015 þar sem hann sagði: „Hafi skólameistari skömm fyrir þessa framgöngu og skora ég á hann að draga þessar uppsagnir tafarlaust til baka og leita annarra leiða til að fara í vasa íslensks lágtekjufólks til hagræðingar.“

Kom fram við staðgengil sem aðstoðarmann

Í mars á þessu ári féll dómur Landsréttar í máli Hafliða Páls Guðjónssonar, fyrrverandi aðstoðarskólameistara FVA, gegn ríkinu. Kærði hann þar ákvörðun Ágústu Elínar að víkja honum fyrirvaralaust úr starfi aðstoðarskólameistara árið 2015, sem hann hafði aðeins nýlega tekið við, sem og úr kennarastarfi við skólann, en hann hafði unnið þar frá árinu 1998. Bæði héraðsdómur og Landsréttur komust að þeirri niðurstöðu að uppsögn Hafliða hefði verið ólögmæt, bæði hvað varðaði aðstoðarskólameistarastöðuna sem og kennarastöðuna.

Greindi Hafliða og Ágústu á um hvað fælist í því að vera aðstoðarskólameistari. Hafliði lagði hefðbundinn skilning í starfið, það er staðgengill skólameistara, en Ágústa Elín virtist fremur telja að Hafliði væri aðstoðarmaður hennar sem ætti að vera henni innan handar í hverju því verki sem henni dytti til hugar að fela honum.

Skólanefnd FVA efast um að rétt hafi verið staðið að ráðningu Ágústu

Í október 2015, skömmu eftir að Hafliða Páli var vikið úr starfi, ritaði Reynir Eyvindsson, formaður skólanefndar FVA, pistil þar sem hann rakti aðkomu skólanefndar að ráðningu Ágústu Elínar. Í pistlinum gagnrýndi hann að menntamálaráðuneyti hefði bannað skólanefnd að boða umsækjendur í viðtal heldur var þeim gert að byggja afstöðu sína alfarið á fyrirliggjandi gögnum. Nefndin mátti ekki einu sinni hafa samband við umsækjendur til að afla viðbótargagna eða upplýsinga. Á pappírum voru Ágústa Elín og einn annar umsækjandi talin hæfust. Í kjölfar þess að Ágústa var ráðin sendi skólanefnd kvörtun til ráðuneytisins yfir ráðningarferlinu. „Það einkenndist allt af seinagangi og skorti á upplýsingum. Þessa kvörtun sendum við aftur 23. maí. Hvorugu erindinu var svarað.“ Kennarafélagið hafi einnig kvartað yfir Ágústu án þess að ráðuneytið gripi til aðgerða. Félagið kvartaði svo aftur eftir að Hafliða var vikið úr starfi og þá loks hafi borist viðbrögð frá ráðuneytinu. Reynir kvaðst þó í pistlinum aðeins vera hóflega bjartsýnn á að tekið yrði á málinu af festu.

Umdeildur skólameistari. Skjáskot: RÚV

Svört skýrsla um faglega forystu 

Árið 2017 var gerð úttekt á starfsemi FVA fyrir menntamálaráðuneytið. Þar segir meðal annars í niðurstöðum: „Ágreiningur er innan FVA um faglega forystu skólameistara“, „Augljós núningur er á milli formanns nefndarinnar [skólanefndarinnar] og skólameistara.“

Í úttektinni kom einnig fram að menntamálaráðuneytið hefði brugðist við kvörtunum og stríðsástandinu í FVA með því að láta gera vinnusálfræðilega úttekt á ágreiningsmálum og með því að skipa svonefnda stjórnunarráðgjafa til að aðstoða Ágústu við að leysa samskiptavanda. Þrátt fyrir þessar aðgerðir segir í úttektinni: „Þrátt fyrir margvíslega ráðgjöf um aðgerðir og umbótaáætlun í mars 2016 tókst ekki að lægja öldur“ og „Átök síðustu ára hafa sett sinn svip á skólastarfið og ímynd skólans hefur skaðast til skemmri tíma litið“. Af skýrslunni er ljóst að þó svo að samskiptaerfiðleikar hafi dvínað, þá voru þeir enn til staðar þegar skýrslan var rituð. Hins vegar er tekið fram í skýrslunni að um leið og Ágústa tók við embætti hafi hún ráðist í hagræðingaraðgerðir sem voru ekki vinsælar meðal starfsmanna en báru þó þann árangur að skólinn var ekki lengur rekinn með halla strax eftir fyrsta ár hennar í starfi. Í skýrslunni kom einnig fram að FVA hefði einnig komið illa út í könnun SFR á Stofnun ársins, en FVA hafnaði þar í næstsíðasta sæti.

Ágústa sendi ráðuneytinu athugasemdir vegna skýrslunnar þar sem hún hafnaði mestallri þeirri gagnrýni sem sett var fram í henni. Nokkrir starfsmenn innan skólans hafi magnað upp ástand sem hafi þegar verið til staðar í skólanum, áður en hún tók við stöðunni. Andstaða við hana hafi verið skipulögð af nokkrum starfsmönnum strax eftir að Ágústa var ráðin. Einnig benti hún á að varðandi fullyrðingu um að átök hefðu sett svip á skólastarf og skaðað ímynd, að þarna væri um huglægt mat úttektaraðila að ræða og beinlínis rangt. Efaðist hún jafnframt um að hægt væri að mæla ímynd skóla.

Lilja Alfreðsdóttir.

Tengsl inn í ráðuneytið

Áður en Ágústa varð skólameistari FVA hafði hún starfað í ríflega áratug í Borgarholtsskóla. Ólafur Sigurðsson var þá skólameistari en hafði sagt starfi sínu lausu og tekið við stjórnunarstöðu hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti þegar Ágústa Elín var skipuð í starf, en það er menntamálaráðuneyti sem tekur endanlega ákvörðun um ráðningu skólameistara. Ólafur sá einnig um samskipti við lögmann áðurnefnds Hafliða Páls fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis í aðdraganda málsóknarinnar.

Tilkynning degi of seint 

Nú hefur Ágústa Elín kært ákvörðun menntamálaráðherra um að auglýsa stöðu skólameistara FVA. Hefði henni átt að berast tilkynning fyrir þann 30. júní á þessu ári um að slíkt yrði gert. Hins vegar hafi tilkynning ekki borist fyrr en 1. júlí. Reyndar hefði Lilja hringt í Ágústu þann 30. júní, sem var sunnudagur, en formlegt bréf ekki borist fyrr en 1. júlí í tölvupósti og svo 4. júlí í ábyrgðarpósti. Ágústa telur því að skipun hennar eigi sjálfkrafa að framlengjast í fimm ár til viðbótar, eða til 2025.  Lilja Alfreðsdóttir hefur vegna þessa ákveðið að taka ekki þátt í ráðningarferlinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum
Nammistríðið heldur áfram

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Fólk til vandræða og eldur í íbúðarhúsnæði

Fólk til vandræða og eldur í íbúðarhúsnæði
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lyfjastofnun gerir athugasemd við áróðursauglýsingu gegn bólusetningum

Lyfjastofnun gerir athugasemd við áróðursauglýsingu gegn bólusetningum
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Héraðssaksóknari ákveður á næstu dögum hvort hann ákærir barnsmóður Aziz – Hefur ekki fengið að sjá börnin sín í meira en tvö ár

Héraðssaksóknari ákveður á næstu dögum hvort hann ákærir barnsmóður Aziz – Hefur ekki fengið að sjá börnin sín í meira en tvö ár
Fréttir
Fyrir 3 dögum

BYKO dregur úr eigin losun um 19%

BYKO dregur úr eigin losun um 19%
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Tveir greinst með indverska afbrigðið

Tveir greinst með indverska afbrigðið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þrjú smit í gær

Þrjú smit í gær
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Hin ákærðu í Rauðagerðismálinu sökuð um samverknað um morð

Hin ákærðu í Rauðagerðismálinu sökuð um samverknað um morð
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Morðið í Rauðagerði: Kærasta Angjelin á meðal ákærðu

Morðið í Rauðagerði: Kærasta Angjelin á meðal ákærðu