Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Hefur blaðið eftir Páleyju Borgþórsdóttur, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum, að málið sé enn til rannsóknar. Vegna aldurs málsins sé rannsóknin tafsöm en unnið sé að gagnaöflun. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið.
Ábendingin, sem um ræðir, kom frá manni sem sagðist hafa séð þrjá menn koma til hafnar í Vestmannaeyjum á trillu daginn eftir að Geirfinnur hvarf í Keflavík. Tveir þeirra hafi leitt þann þriðja á milli sín og hafi hann verið máttfarinn og rænulítill. Mennirnir hafi komið inn í verbúð, þar sem sjónarvotturinn var staddur, og hafi verið dágóða stund inni í lokuðu herbergi og hafi haft leyfi kokksins á staðnum til þess. Síðan hafi þeir gengið sömu leið niður á höfn og um borð í trilluna og haldið úr höfn. Nokkru síðar hafi trillan lagst aftur að bryggju en þá hafi tveir menn komið frá borði, þann máttfarna sá sjónarvotturinn ekki aftur.