Eltihrellirinn Valbjörn Magni Björnsson eða Magni Línberg eins og hann kýs að kalla sig í dag, leitar nú húsnæðis á Akureyri. Íbúi á svæðinu hefur á samfélagmiðlum reynt að vara við honum og hvetur til sameiginlegs átaks Akureyringa að gera honum erfitt fyrir.
„Vil vekja athygli á að nú er þessi náungi að leita logandi ljósi að húsnæði til leigu hér í Innbænum þar sem hann verður húsnæðislaus um mánaðamótin maí/júní.
Gerum honum erfitt fyrir og vörum nýja nágranna við.“
Ofangreint skrifar Akureyringur í íbúahópa bæjarins þar sem hún hvetur til þess að Magna verði gert erfitt að koma sér fyrir í bænum þeirra. Magni var ítrekað til umfjöllunar í DV fyrir þremur árum en þar var greint frá því að þrjár konur hefðu sakað Magna um ofsóknir, kúgun og kynferðisbrot. Hann sat fyrir fyrrverandi ástkonum og ofsótti með sífelldum símhringingum, með því að elta þær á almannafæri og með því að áreita fjölskyldu, vini og kunningja.
Eftir að DV greindi frá ofsóknum Magna flúði hann land, en birtist svo aftur fyrir ári síðan þegar hann flutti í götuna þar sem eitt fórnarlamba hans bjó, en það var einmitt á Akureyri.
Konurnar sem sökuðu Magna um alvarleg brot eru Hrefna I. Jónsdóttir, Fanney Björk Ingólfsdóttir og fyrrverandi sambýliskona Magna, Svanhildur Sigurgeirsdóttir sem starfar á spítalanum á Akureyri
Í samtali við DV á síðasta ári sagði Svanhildur: „Hann fer í göngutúra framhjá húsinu mínu. Hann ekur framhjá og stöðvar bíl sinn en heldur svo áfram. Það er lítið hægt að gera við því skilst mér, hann útskýrir það með því að hann eigi heima í götunni. Hann flutti auðvitað hingað til að komast sem næst mér“
DV fékk aðgang að skilaboðum sem hann sendi Fanney þegar hún var aðeins 15 ára gömul, en þá var Magni sjálfur rétt tæplega fimmtugur.
„Ætlarðu að leyfa mér að ríða þér eins og þú lofaðir. […] „Ertu búin að ríða þessari stelpu sem þú sagðir mér frá?“ […] Bráðum rennur upp næst síðasti dagur.“ Um þessi síðustu skilaboð sagði Fanney: „… þarna hafði hann í marga daga „talið niður“ þar sem að eitthvað hræðilegt myndi koma fyrir mig þegar niðurtalningu myndi ljúka. Ég sat heima hjá mér í marga daga og bjóst við því versta.“