fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Magni reiður eftir umfjöllun DV: Hótar þolendum hefndarklámi – Vill stofna #Youtoo byltinguna

„“Fallegar“ myndir sem og „falleg“ myndbandabrot“

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 4. apríl 2018 09:40

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Valbjörn Magni Björnsson eða Magni Línberg eins og hann kallar sig í dag hefur haft uppi ótal hótanir eftir fjölmiðlaumfjöllun síðustu daga. DV hefur heimildir fyrir því að Magni hafi frá því að hann var um tvítugt hrellt konur með einum eða öðrum hætti. Hefur DV borist fjölda skilaboða frá konum eða ættingjum kvenna sem saka Magna um að hafa gert þeim lífið leitt. Svanhildur hefur óskað eftir nálgunarbanni en ekki fengið þrátt fyrir að setið hafi verið um hús hennar, síminn logað og blóm úr kirkjugarði birst á bíl hennar. Þá hefur Magni hótað ættingjum og börnum Svanhildar, og er knattspyrnukappinn Albert Guðmundsson barnabarn hennar einnig í þeim hópi en hann hefur eins og aðrir ekkert gert á hlut eltihrellisins.

Fyrir tveimur árum greindi DV frá því að eltihrellirinn hefði verið sakaður um að ofsækja og hóta minnst þremur konum. Í þeim hópi er Svanhildur Sigurgeirsdóttir. Svanhildur var í skamman tíma í sambúð með Magna en var fljót að átta sig á að ekki var allt með felldu. Eftir að hún sleit sambandinu hefur hún mátt þola skelfilegar ofsóknir, sem hafa verið allt frá því að Magni hafi hringt stöðugt í Svanhildi, setið um hús hennar, elt hana í búðum, áreitt fjölskyldu hennar, vini og kunningja og lagt fyrir utan hús hennar á hátíðardögum, líkt og um jól og áramót. DV hefur borist ábendingar um fjölda kvenna sem hefur orðið fyrir barðinu á Magna.

Eftir fyrri umfjöllun DV árið 2016 flúði Magni land en kom aftur síðasta haust og flutti í sömu götu nokkrum tugum metra frá konunni sem hann hafði ofsótt. Eftir umfjöllun DV sem birtist í síðasta helgarblaði hefur Magni farið hamförum og kveðst hann fagna athyglinni. Þess ber að geta að Svanhildur hefur óskað eftir nálgunarbanni og fær ekki. Svanhildur sagði meðal annars þetta í samtali við DV:

„Magni tók blóm af leiði föður míns og setti á húddið á bílnum mínum. Síðan hringdi hann í mig og tilkynnti mér að hann væri með skilaboð frá föður mínum sem var látinn. Hann lést áður en ég kynntist Magna. Hann segist geta haft samband við framliðna og sagðist vera með skilaboð frá pabba um hvað mér væri fyrir bestu.“

Magni er með tvær Facebook-síður þar sem hann deilir níði í gríð og erg um Svanhildi og fjölskyldu hennar. Önnur Facebook-síðan er með einkennismynd af Magna og Svanhildi en hún sleit sambandi við hann fyrir mörgum árum. Er það enn ein birtingarmynd ofbeldis sem Svanhildur verður fyrir af hálfu Magna.

Vill krossfesta óvini sína

Magni flúði frá Akureyri eftir umfjöllun 2016 en kom aftur síðasta haust. Svanhildur segir að hann haldi uppteknum hætti.

Magni segir að krossfesting þeirra sem „á mig réðust er að hefjast, en þau munu aldrei upplifa uppstigningadag sem er táknmynd upprisu, til þess mun ég sjá og tryggja.“

Þá hefur Magni beint þessum skilaboðum til fyrrverandi sambýlismanns Svanhildar sem hefur reynt að vera barnsmóður sinni innan handar:

„Ekki reyna að ögra afburða greind minni og þekkingu, ekki vanmeta þá staðreynd að ég hef engu að tapa lengur, það þrennt er og verður alltaf hættuleg og stundum banvæn blanda sem birtist í einum og sama manninum.“

Eftir að DV fjallaði um málið hafa hótanir Magna ágerst. Nýjasta útspilið er að hann vill byrja með Youtoo byltinguna þar sem hann telur sig vera þolanda en ekki geranda í málinu. Youtoo byltingin er samkvæmt Magna hugmynd Ásgeirs Runólfssonar frænda hans sem búsettur er í Keflavík. Stendur Ásgeir þétt við bakið á frænda sínum og hvetur hann óspart áfram.

Þá sakar Magni alla þá sem hafa vitnað um hegðun hans um að ljúga. Einnig hefur Magni nú viðurkennt að hafa tekið kynlíf sitt og kvenna upp á myndband.

„Það er orðið nokkuð ljóst að það þarf að stofna félagsskap sem myndi bera nafnið YouToo, með vísan í þá staðreynd að kvenfólk er alls ekki síðri í ofbeldi sínu en karlmenn, sjálfur hef ég búið við andlegt ofbeldi tveggja kvenna, mín fyrrverandi í Canada svívirti mig nánast á hverjum degi og að auki þá bjó ég við andlegt ofbeldi í sambúð með Svanhildi … “

Magni segir einnig:

„Einn af óumdeilanlegum kostum þess að fá þessa gífurlegu en um leið óvæntu kynningu á sögu minni og skrifum og það á landsvísu, þökk sé þessum bjánum og DV þá er ég að fá fleiri sögur um þetta lið sem réðst á mig en nokkru sinni fyrr.“

Eftir umfjöllun DV hefur Magni hótað þolendum sínum á ýmsan hátt en hann segir:

„ … ég hef í minni vörslu, þessi umræddu gögn eru í ýmsu formi, opinber sem og óopinber gögn, einnig eru þar „fallegar“ myndir sem og „falleg“ myndbandabrot, mislöng að vísu […] Ég sé til í kvöld hversu djúpt ég fer í umræðunni um þessar myndir og mynbandabrotin

Magni hefur einnig lýst því yfir að það angri hann ekkert þó að þolendur hans blokki hann á Facebook. Kveðst hann búa yfir slíkri tölvuþekkingu að hann geti hakkað sig inn í nær allar tölvur

„ … enda er áhugi minn á þessum bjánum fyrir neðan mínusmörk […] Skilaboð mín til þessa liðs eru þessi, ekki ögra þekkingu minni, greind og getu.“

Magni ætlar að kæra allt og alla og hefur birt lista á heimasíðu sinni. Hefur hann lýst því yfir að ætla að kæra barnabarn Svanhildar, knattspyrnukappann Albert Guðmundsson. Hann tiltekur þó ekki hvað hann á að hafa gert.

En þrátt fyrir að lýsa yfir að hafa ekki áhuga á hvað eigi sér stað á síðu Svanhildar hefur Magni engu að síður nú áreitt konu sem hefur sýnt Svanhildi stuðning.

Magni hefur einnig viðurkennt eins og áður segir að hafa tekið upp kynlíf en neitar að hafa gert slíkt til að kúga þolanda sinn. „Kynlíf okkar tók ég upp sem öryggisráðstöfun og sem tryggingu, ég tók kynlíf okkar upp til þess að koma í veg fyrir að hún myndi kæra mig fyrir nauðgun, eða eitthvað annað slíkt og verra

Magni lýsir sig saklausan af öllu áreiti, ofbeldi og hótunum og lýsir sjálfum sér sem fórnarlambi á sama tíma og hann drusluskammar þolendur sína.

Þá segir Magni:

„ … ég á myndir og video af fjöldanum af öðrum konum, það er ekkert óeðlilegt við það, konur hafa gaman að láta taka myndir og video af sér, sumar birta þær sjálfviljugar og segja síðan að þeim hafi verið stolið, yeah right, my ass, þar á meðal er ég með “viðkvæmt video”

Þá viðurkennir Magni að hafa stolið kynlífsmyndbandi af þolanda sínum, tölvu sem hann hafði boðist til að laga. Uppgötvaði hann myndskeið sem var búið að eyða og í stað þess að eyða því tók hann af því afrit.

Þá gengst Magni við því að hafa greitt unglingsstúlku fyrir vændi

„þá borgaði ég henni ávallt í gegnum heimabankann, fyrir utan fyrsta skiptið sem við vorum saman, það var þegar ég heimsótti hana í Keflavík þar sem hún bjó á þeim tíma, hvernig veit ég og man hvenær ég borgaði henni fyrir kynlíf, það er vegna þess að ég eyrnamerkti þær greiðslur í heimabankanum alltaf sem “meðlag”, kannski blundaði í mér ótti við að gera hana ófríska eða að ég vissi að til þess kæmi að ég þyrfti að mæta henni síðar og það opinberlega

Þá kveðst Magni hafa tekið myndir og myndbönd upp af fleiri konum.

„Nú þegar ég hef fengið athygli allra landsmanna varðandi mín skrif og mína sögu, þá mun ég halda áfram þeim skrifum og nú með enn meiri þunga en nokkurn tímann áður.“

Fagnar umfjöllun

Magni kveðst fagna umfjöllun DV og að umfjöllunin sé markaðsstarf fyrir hann. „ … Þetta eru hálfgerð “Kardashian effect”, ég hef sagt það áður að ætla sér sem einn einstaklingur að skrifa eitthvað um einhvern og einhverja, þá þarf að skapa réttar forsendur fyrir því, fyrir mig að „bara“ að skrifa um þessa einstaklinga sem á mig réðust virkar engan veginn, bara alls ekki, vegna þess að ég var að skrifa út í bláinn og engin tók eftir því eða tók mark á þvi, en nú þegar þessir einstaklingar eru búnir að opinbera sögu mína og skapa réttar forsendur fyrir mig til að halda áfram að skrifa og birta allan sannleikann um þetta fólk, þá eru þessi “Kardashian effect” komin á fullt og munu eiginlega skrifa mína sögu og það algjörlega sjálfkrafa.“

Þá sagði Magni eftir umfjöllunina:

„Margir myndu halda að ég væri niðurbrotinn maður og að allt væri í tómu tjóni hjá mér varðandi greinina sem birtist í DV en það fáránlega er það að þetta er allt eins og ég hef verið að leggja upp með, ég er mjög ánægður með hvernig þetta er að spilast uppí hendurnar á mér, þetta fólk sem á mig hefur ráðist og er að ráðast á mig núna skilur ekki þá herkænsku sem ég er að stilla upp, ég hef marg sagt að þessar árásir, ummæli fólks og greinin í DV hefur engin áhrif á mig, alls ekki, fólk skilur ekki þá sáraeinföldu herkænsku sem felst í því að fá andstæðinginn til að atast eins og naut í flagi og að leggja til atlögu með tilfinningarnar einar að vopni.“

Áreitir vini Svanhildar

Magni kvaðst eins og áður segir ekki hafa áhuga á því sem fram fer á Facebook-síðu Svanhildar. Hann hefur engu að síður sent minnst einni manneskju sem efaðist um geðheilu hans skilaboð. Sagði konan að það væri sorglegt að Magni fengi ekki læknishjálp.

„Ég hef farið til sálfræðinga sem og eins geðlæknis sem var sett sem skilyrði þegar ég var í skilnaði sem og forsjárdeilu hér forðum daga, þess utan þá fór ég í geðmat í Canada vegna kröfu fyrirtækis sem ég vann hjá og einnig að kröfu innflytjendaeftirlits, öll próf sem og geðmat stóðst ég með miklum sóma og ekkert fannst að eða þótti óvenjulegt fyrir utan háa greindarvísitölu, enda er ekkert að mér fyrir utan landlæga fyrirlitningu á ákveðnu fólki og hegðan þeirra, en það telst ekki vera geðveila sem slík, einungis skilyrt staðreynd, með þessum skilaboðum til þín þá ætla ég að skora á þig að mæta með mér í geðmat sem og greindarvísitölumat, þar sem þú fullyrðir að ég þurfi læknishjálp, þá ætti það ekki að vera neitt tiltökumál fyrir þig að koma með mér og fá úr því skorið hvort og þá hversu mikið annað hvort okkar er skaddað á geði eða vitsmunum, ég mun birta þessa áskorun á síðum mínum innan tveggja sólarhringa, hvort sem þú samþykkir þessa áskorun eða ekki, en þess utan þá skaltu lesa um þær staðreyndir sem ég hef og er að birta málum mínum til stuðnings og sönnunar, ef ég er þetta veikur á geði eins og þú heldur fram, þá þarftu ekkert að óttast í væntanlegu geðmati sem og greindarvísitöluprófi, þitt er valið en skömmin verður þín ef þú þorir ekki að mæta.“

Hótanir Magna

Magni hefur á þeim tíma sem greinin birtist sakað alla þá sem telja hann hafa brotið á sér ljúga.

Hann hefur viðurkennt að hafa keypt vændi af unglinsstúlku.

Hann heldur áfram að hóta Svanhildi og fólki sem hefur stutt hana.

Hann hefur viðurkennt að hafa vistað kynlífsmyndband úr tölvu sem hann var að lagfæra.

Hann lítur á sjálfan sig sem þolanda.

Hann hefur viðurkennt að hafa tekið upp nektarmyndbönd af konum.

DV hefur heimildir fyrir því að Magni hafi frá því að hann var um tvítugt hrellt konur með einum eða öðrum hætti. Hefur DV borist fjölda skilaboða frá konum eða ættingjum kvenna sem saka Magna um að hafa gert þeim lífið leitt. Svanhildur hefur óskað eftir nálgunarbanni en ekki fengið þrátt fyrir að setið hafi verið um hús hennar, síminn logað og blóm úr kirkjugarði birst á bíl hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“