fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fréttir

Martröðin snýr aftur: Magni flutti í götu Svanhildar

Ritstjórn DV
Miðvikudaginn 28. mars 2018 10:30

Valbjörn Magni Björnsson eða Magni Línberg eins og hann kýs að kalla sig í dag flutti í götuna hjá konunni sem hafði kært hann fyrir ofsóknir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ekki reyna að ögra afburða greind minni og þekkingu, ekki vanmeta þá staðreynd að ég hef engu að tapa lengur, það þrennt er og verður alltaf hættuleg og stundum banvæn blanda sem birtist í einum og sama manninum.“

Þetta segir eltihrellirinn Valbjörn Magni Björnsson eða Magni Línberg eins og hann kýs að kalla sig í dag. Magni var ítrekað til umfjöllunar í DV fyrir tveimur árum en þar var greint frá því að þrjár konur hefðu sakað Magna um ofsóknir, kúgun og kynferðisbrot. Konurnar sem sökuðu Magna um alvarleg brot eru Hrefna I. Jónsdóttir, Fanney Björk Ingólfsdóttir og fyrrverandi sambýliskona Magna, Svanhildur Sigurgeirsdóttir sem starfar á spítalanum á Akureyri. Svanhildur var í skamman tíma í sambúð með Magna en var fljót að átta sig á að ekki var allt með felldu. Eftir að hún sleit sambandinu hefur hún mátt þola skelfilegar ofsóknir, sem hafa verið allt frá því að Magni hafi hringt stöðugt í Svanhildi, setið um hús hennar, elt hana í búðum, áreitt fjölskyldu hennar, vini og kunningja og lagt fyrir utan hús hennar á hátíðardögum, líkt og um jól og áramót.

„Magni tók blóm af leiði föður míns og setti á húddið á bílnum mínum. Síðan hringdi hann í mig og tilkynnti mér að hann væri með skilaboð frá föður mínum sem var látinn. Hann lést áður en ég kynntist Magna. Hann segist geta haft samband við framliðna og sagðist vera með skilaboð frá pabba um hvað mér væri fyrir bestu,“ segir Svanhildur.

Í umfjöllun DV sem fer hér á eftir er aðeins stiklað á stóru um hvað Svanhildur hefur mátt þola hin síðustu ár. Svanhildur hefur óskað eftir nálgunarbanni en því hefur verið hafnað. Magni er með tvær Facebook-síður þar sem hann deilir níði í gríð og erg um Svanhildi og fjölskyldu hennar. Önnur Facebook-síðan er með einkennismynd af Magna og Svanhildi en hún sleit sambandi við hann fyrir mörgum árum. Er það enn ein birtingarmynd ofbeldis sem Svanhildur verður fyrir af hálfu Magna.

Magni opnaði nýverið heimasíðu. Þar birti hann nöfn þeirra sem hann ætlar að kæra.

Í frétt DV var greint frá því að Magni væri sakaður um alvarlegar ofsóknir á hendur Svanhildi sem og að hafa áreitt unga konu í rúman áratug. Þá steig þriðja konan fram skömmu síðar og sagði Magna hafa kúgað hana með hrelliklámi. Fyrrverandi eiginmaður Svanhildar, Benedikt Guðmundsson, greindi upphafleg frá því á Facebook að Magni hefði „… terroriserað Svanhildi með þúsundum SMS skilaboðum, hringt í heimasímann dag og nótt auk þess að hanga fyrir utan húsið þar sem hún býr eða þar sem hún vinnur í tíma og ótíma. Þá virðist hann hafa einstakan hæfileika til að dúkka upp hvar sem hún fer eða er og eltir hana þá keyrandi eða labbandi eftir því sem við á. Hann hefur notast við sex óskráð GSM númer til að hylja slóð sína …“

Eftir að málið rataði í fjölmiðla hvarf Magni á braut, frá Akureyri, flutti til útlanda og í kjölfarið dró úr ofsóknum. Í haust birtist Magni óvænt á Akureyri. Það sem meira er, hann er nú búsettur í sömu götu og fyrrverandi sambýliskona hans. Segir Svanhildur að hún verði hans vör á hverjum degi. Hann birtist jafnvel í þeim verslunum sem hún á erindi í og fylgi henni um búðina. Samkvæmt heimildum DV gætir Magni sín nú á að hvorki hringja né tala við Svanhildi. Lýsir Svanhildur einu atvikinu á þessa leið:

„Ég var í Nettó um daginn. Þá birtist hann allt í einu. Ég var að versla og sneri ég mér við. Þá stóð hann einum metra fyrir aftan mig með augnaráð sem hefði getað drepið ef slíkt væri mögulegt.“

Nýverið opnaði Magni heimasíðu þar sem hann lýsir sig saklausan af þeim alvarlegu ásökunum sem konurnar þrjár hafa borið á hann. Þar sakar hann konurnar um að vera veikar á geði. Einnig skrifar hann opið bréf til fyrrverandi eiginmanns Svanhildar, Benedikts Guðmundssonar, og það er einmitt í því bréfi sem upphafsorð þessarar umfjöllunar eru látin falla.

Forsaga málsins

Hrefna var aðeins 14, 15 ára þegar hún kynntist Magna. Hún segir að hann hafi síðar reynt að kúga hana til að selja sig á Einkamál.

Magni og Svanhildur slitu eins og áður segir sambúð fyrir nokkrum árum síðan. Eftir það tóku ofsóknir af hálfu Magna við. Fleiri konur stigu svo fram opinberlega með svipaða reynslu. Fanney Björk Ingólfsdóttir, sem er frá Akureyri, var 26 ára þegar hún árið 2016 lýsti reynslu sinni af Magna. Sagði hún Magna hafa svipt hana geðheilsunni.

„… þessi maður hefur kynferðislega áreitt mig í hátt í tólf ár […] Þessi maður er hættulegur. Hann reyndi að ráðast á mig og draga mig inn í hús þegar ég var 15 ára gömul (þar sem hann ætlaði að „gera mér það sem ég ætti skilið“ að eigin sögn) en fólk sem stóð hjá bjargaði mér frá honum. Síðan þá hef ég í lifað í felum og ótta við þennan mann.“

DV er með undir höndum skilaboð sem Magni sendi á Fanneyju þegar hún var 15 ára og hann tæplega fimmtugur. Skilaboðin hljóðuðu svo: „Ætlarðu að leyfa mér að ríða þér eins og þú lofaðir. […] „Ertu búin að ríða þessari stelpu sem þú sagðir mér frá?“ […] Bráðum rennur upp næst síðasti dagur.“ Um þessi síðustu skilaboð sagði Fanney: „… þarna hafði hann í marga daga „talið niður“ þar sem að eitthvað hræðilegt myndi koma fyrir mig þegar niðurtalningu myndi ljúka. Ég sat heima hjá mér í marga daga og bjóst við því versta.“

Hrelliklám

Jóhannes Kr. aðstoðaði Hrefnu við að sleppa undan Magna.

Þá steig Hrefna I. Jónsdóttir fram og sagði frá sinni reynslu af Magna. Hrefna sagði í samtali við DV að Magni hefði kúgað hana til þess að stunda kynlíf með honum gegn því að kynlífsmyndband sem hann tók upp af henni í leyfisleysi færi ekki í birtingu. Segir Hrefna að Magni hafi villt á sér heimildir og haft samband fyrst úr leyninúmeri og þóst vera ungur maður sem gaf henni undir fótinn. Hún kveðst hafa látist blekkjast.

„Hann sagði réttu hlutina. Ég var ung og vitlaus og hann náði mér bara,“ útskýrði Hrefna í samtali við DV. Seinna tók hún afdrifaríka ákvörðun um að hitta Magna. „Þarna var hann orðinn klettur í lífi mínu, trúnaðarvinur og aðstoðaði mig stundum fjárhagslega, en ég hafði ekki auðvelt aðgengi að fjárhagsaðstoð á þeim tíma,“ útskýrir Hrefna og segir að svo hafi farið að hún hafi sofið tvívegis hjá honum. „Það var með samþykki beggja aðila.“ Hún ákvað þó í kjölfarið að slíta sambandinu við Magna, þar sem henni þótti aldursmunurinn óþægilegur og vildi ekki eiga í ástarsambandi við hann. „Það er þá sem hann sendir skjáskot á mig þar sem við sjáumst sofa saman. Hann hafði falið myndavél í stofunni og tekið allt upp.“ Hrefna sagði að Magni hefði hótað að senda myndskeiðið á fjölskyldu hennar og jafnvel gera það opinbert ef hún svæfi ekki aftur hjá honum. „Og þannig varð ég fangi hans, sautján, átján ára gömul. […] Hann hótaði að eyðileggja líf mitt með þessu myndbandi.“ Þá greindi Hrefna frá því að Magni hefði reynt að þvinga hana út í vændi og hefði auglýst hana til sölu á Einkamál.

Hrefna fékk svo þá hugmynd að hafa samband við rannsóknarblaðamanninn Jóhannes Kr. Kristjánsson. Í samtali við DV staðfesti Jóhannes aðkomu sína að máli Hrefnu og að hann hefði aðstoða hana við að losna við Magna úr lífi hennar. Hún lét fjölskyldu sína vita um allt sem hafði gengið á og tekin var skýrsla hjá lögreglu. Hrefna sagði einnig:

„Ef ég hefði verið með meira brotna sjálfsmynd, þá hefði ég getað endað í vændi út af þessum manni. Og þá fer maður að hugsa; ætli honum hafi tekist ætlunarverk sitt gagnvart annarri stelpu?“

Svanhildur stígur fram

Magni flúði frá Akureyri eftir umfjöllun 2016 en kom aftur síðasta haust. Svanhildur segir að hann haldi uppteknum hætti.

Í eldri umfjöllun DV árið 2016 greindi Benedikt Guðmundsson, fyrrverandi eiginmaður Svanhildar, frá því að Magni, sem er eins og áður segir fyrrverandi sambýlismaður Svanhildar, að hann hefði byrjað að ofsækja hana í janúar 2015. Í umfjöllun DV var ekki greint frá nafni Svanhildar en hún ákvað nú að stíga fram og segja aðeins frá reynslu sinni af Magna. Í eldri umfjöllun DV greindi Benedikt frá því að Magni hefði setið í bíl sínum fyrir utan heimili Svanhildar á gamlárskvöldi. Þá voru fjölskylda Svanhildar og Benedikt að fagna nýju ári. Þá mun Magni hafa leikið sama leik á aðfangadagskvöldi það ár.

Á heimasíðu sinni hefur Magni lýst yfir sakleysi með nokkuð undarlegum hætti. Telur hann sig vera fórnarlamb.

Magni hefur nú eins og áður segir stofnað netsíðu þar sem hann hefur skrifað hundruð blaðsíðna af efni þar sem hann lýsir yfir sakleysi sínu en sakar konurnar um geðveiki og hefur uppi hótanir. Hlekk á heimasíðuna hefur hann svo sent á fjölmarga vini Svanhildar á Facebook. Þá er hann iðinn við að birta hinar ýmsu yfirlýsingar á Facebook þar sem hann kveðst ætla að opinbera hina og þessa sem honum finnst vera óvildarvinir sínir.

Svanhildur taldi að hún væri laus við Magna eftir að umfjöllun birtist í fjölmiðlum árið 2016. En Magni kom aftur til Akureyrar á haustmánuðum. Hann lét sér ekki nægja að flytja í bæinn, heldur kom sér fyrir við sömu götu og Svanhildur er búsett við.

„Hann fer í göngutúra framhjá húsinu mínu. Hann ekur framhjá og stöðvar bíl sinn en heldur svo áfram. Það er lítið hægt að gera við því skilst mér, hann útskýrir það með því að hann eigi heima í götunni. Hann flutti auðvitað hingað til að komast sem næst mér,“ segir Svanhildur og bætir við: „Hann stendur oft úti þegar ég er að fara í vinnuna en það fer dálítið eftir veðrinu hvort hann sé í götunni.“

Svanhildur segir að eftir umfjöllun fjölmiðla sé Magni varari um sig og gæti sín sérstaklega á að ofsækja hana án þess að lögregla geti gripið í taumana. Þegar hann birtist í verslunum eða elti hana gæti hann sín á að segja ekkert við hana. Það er þó ljóst á heimildarmönnum DV að þeim þykir þráhyggjan mikil og alvarleg.

„Hann hefur sent hlekk á síðuna á alla vini mína. Þetta er maður sem er ekki alveg í lagi,“ segir Svanhildur og bætir við: „Þetta hefur tekið á. Ég átti aldrei von að hann kæmi aftur til Akureyrar.“

Magni ætlar að kæra allt og alla og hefur birt lista á heimasíðu sinni. Hefur hann lýst því yfir að hann ætli að kæra barnabarn Svanhildar, knattspyrnukappann Albert Guðmundsson. Hann tiltekur þó ekki hvað hann á að hafa gert.

Svanhildur og Benedikt eiga þrjú börn saman. Íþróttafréttamanninn Guðmund, fjölmiðlakonuna Evu Björk og Einar Loga. Tvö síðarnefndu hafa dregist inn í einkennilegan hugarheim Magna sem hefur lýst því yfir að hann ætli að kæra Evu og barnabarn Svanhildar, knattspyrnukappann Albert Guðmundsson. Hann tiltekur þó ekki á þessari einkennilegu síðu í hverju þær kærur eiga að felast. Eva Björk benti Magna vinsamlega á að leita sér sálrænnar aðstoðar og tók hann það óstinnt upp.

Hafa ofsóknirnar haft áhrif á þig?

„Þetta hefur tekið mikið toll, það segir sig sjálft. Ég er alltaf vör um mig. Hann kemur alla daga fyrir utan hjá mér. Hann útskýrir það þannig að hann búi í götunni og þess vegna sé það eðlilegt. Þetta hefur verið stöðugt,“ segir Svanhildur. Hún starfar á sjúkrahúsinu á Akureyri og fær góðan stuðning frá vinnufélögum. „Ég verð að líta á þetta á sem visst tímabil sem gengur yfir. Hann er búinn að elta mig í Bónus og Nettó. Fólk sem þekkir mig persónulega en er ekki endilega nánir vinir hefur verið að láta mig vita þegar það hefur tekið eftir því að hann sé að fylgja mér í þeim verslunum sem ég er stödd í það og það skiptið. Hann fær aldrei nein viðbrögð frá mér. Ég horfi á hann eins og hann sé ekki til.“

Óttast þú að vera ein á ferli?

„Ég fer ekki ein út að ganga á kvöldin.“

Þetta hljómar eins og fangelsi. Þú átt að geta farið í göngutúr.

Skilaboð til Benedikts. Auðvelt er að álykta að um hótun sé að ræða.

„Já, þetta hljómar eins og fangelsi. Ég á góða fjölskyldu og vini. Það hjálpar mjög mikið. Það sem er verst eru áhrifin á mitt nánasta fólk og að það hafi dregist inn í þessar ofsóknir. Honum er ekkert heilagt og hann birtist jafnvel þar sem háöldruð móðir mín býr. Þegar ég mæti honum, segir hann ekki neitt en framkoman er ógnandi.“

Oft er það hundurinn sem geltir ekki sem er hættulegastur, skýtur blaðamaður inn í. Svanhildur samsinnir því og segir: „Fyrrverandi eiginmaður minn er mest hræddur um að hann fari algjörlega yfir um einn daginn.“

Á næstu síðu er að finna ítarlegt viðtal við Margréti Valdimarsdóttur, forstöðukonu rannsóknarseturs í afbrotafræðum um eltihrella. Aðspurð hversu algengt það sé að áreiti og ofsóknir fari út í líkamlegt ofbeldi svarar hún:

„Það hafa ekki verið gerðar neinar viðamiklar rannsóknir á þessu á Íslandi. Erlendar rannsóknir sýna hins vegar að hegðun sem byrjar sem svona áreiti leiði oft til alvarlegra ofbeldis. Þetta virðist eiga við um allar tegundir af eltihrelli.“

Magni við DV: Þessu er lokið

Magni er eins og áður segir með tvær Facebook-síður þar sem hann deilir efni í gríð og erg. Önnur þeirra er með mynd af Magna og Svanhildi sem einkennismynd þrátt fyrir að hún hafi slitið sambandinu fyrir margt löngu. Er það enn ein birtingarmynd ofbeldis sem Svanhildur verður fyrir. Ekki bólar samt sem áður á nálgunarbanni.

DV hafði samband við Magna til að gefa honum færi á að svara fyrir hinar alvarlegu ásakanir. Magni svaraði fyrirspurn DV á þessa leið og lagði svo á:

„Nú ætla ég að stoppa þig af strax. Hvernig dettur þér í hug að hringja í þetta númer? Þú hefur ekki leyfi til að hringja í mig. Nú hættir þú því strax. Þessu er lokið og þú skalt ekki voga þér að hringja í þetta númer aftur. Er það skilið?“

Vildi nálgunarbann – AUKABOX

Þrátt fyrir endurteknar ofsóknir og að hafa óskað eftir nálgunarbanni á Magna hafa yfirvöld ekki orðið við slíku. Svanhildur segir lögreglu hafa gert sitt besta í málinu og hafa mælt með því að hún myndi hafa dyr sínar kirfilega lokaðar með slagbröndum. Þrátt fyrir tilmæli um slíkt hefur yfirvöldum þó ekki þótt ástæða til úrskurða Magna í nálgunarbann. Minnir mál Svanhildar um margt á mál Hildar Þorsteinsdóttur sem fékk neyðarhnapp frá lögreglu vegna ótta við Magnús Jónsson. fyrrverandi sambýlismann til margra ára, en ekki nálgunarbann.

Magni gefur þá skýringu að hann eigi heima í götunni og því sé eðlilegt að hann sé þar á ferð eða stoppi fyrir utan hús hennar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð

Ástþór hvetur fólk til að passa sig á þessu: Ævintýrið getur fljótt breyst í martröð
Fréttir
Í gær

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra

Lögregla fann 29 dauða nautgripi á bæ á Norðurlandi Vestra
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“

Guðlaugur Þór leiðréttir útbreiddan misskilning: „Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“

Bubbi mærir Katrínu í Mogganum: „Við skulum tala íslensku“