fbpx
Mánudagur 21.október 2019  |

DV - Frjáls og óháður miðill

Orðið á götunni

Eplin falla við eikurnar

Fréttir

Hnífstungur og frelsissvipting á Akureyri

Efasemdir um bókhald Danna danska – Illa farið með Bigga bangsa

Björn Þorfinnsson
Föstudaginn 16. febrúar 2018 14:17

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjórir ungir menn sitja í gæsluvarðhaldi á Akureyri grunaðir um aðild að alvarlegri líkamsárás og frelsissviptingu í síðustu viku. Samkvæmt heimildum DV var fórnarlambið meðal annars lamið með hamri í andlitið auk þess sem viðkomandi var með slæma áverka á fingrum eftir ótilgreint áhald. Alls voru sex einstaklingar handteknir og yfirheyrðir vegna málsins en aðeins fjórir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald samkvæmt heimildum DV. Lögreglan á Akureyri verst frétta af málinu en svaraði fyrirspurn blaðsins á þá leið að yfirheyrslur og gagnaöflun stæði yfir.

Málið er einkennilegt fyrir þær sakir að þeir sem eru grunaðir um aðild að því hafa einnig tekist á innbyrðis með blóðugum hætti. Þannig bíður meðferðar óhugnanleg hnífstunga í Kjarnaskógi í fyrra þar sem einn þeirra sem situr í gæsluvarðhaldi er grunaður um að hafa stungið annan, sem var einnig handtekinn, í lærið með „rambóhníf“.

Tveir nítján ára piltar í haldi

DV hefur aðeins upplýsingar um þrjá af þeim fjórum sem sitja í gæsluvarðhaldi. Það eru þeir Daníel Christensen, Ísak Logi Bjarnason og Sindri Snær Stefánsson. Daníel, sem gengur undir nafninu Danni danski, er á fertugsaldri en Ísak Logi og Sindri Snær eru á nítjánda aldursári. Þrátt fyrir ungan aldur hafa þeir gert þónokkurn usla í undirheimum Akureyrar undanfarið ár. Meðal annars tengist Ísak Logi tveimur hættulegum hnífaárásum á síðasta ári en Sindri Snær að minnsta kosti einni.

Eins og áður segir var líkamsárásin í síðustu viku sérstaklega hrottaleg. Fórnarlambið var svipt frelsi sínu og hlaut alvarlega áverka á meðan það var fast í prísundinni. Lögreglan réðst inn í hús við Strandgötu 17 en það er heimili Marvins Haukdals Einarssonar sem var handtekinn á vettvangi en sleppt sólarhring síðar. Þar býr Marvin ásamt kærustu sinni, Móniku Atladóttur, en hún var nýlega í viðtali við DV vegna fangelsisdóms sem hún hlaut fyrir að stela nærbuxum úr Lindex.

Marvin var í viðtali hjá DV í ágúst 2011, þá 27 ára gamall. Þar talaði hann á opinskáan hátt um fíknina sem hann hafði barist við frá unga aldri. Þegar viðtalið var tekið hafði hann verið edrú í þrjú ár en sagði drauga fortíðar reglulega minna á sig í formi innbrota, hótana og árása. Þeir draugar virðast nú hafa náð yfirhöndinni að nýju.

Daníel gengur undir nafninu Danni danski í undirheimum Akureyrar. Samkvæmt heimildum DV tengist frelsissviptingarmálið meintri skuld fórnarlambsins við Danna. Fórnarlambið hefur áður lent í hremmingum í tengslum við téða skuld en telur sig hafa greitt hana fyrir löngu. Efasemdir eru því uppi um bókhald Danna danska.
Daníel Christensen Daníel gengur undir nafninu Danni danski í undirheimum Akureyrar. Samkvæmt heimildum DV tengist frelsissviptingarmálið meintri skuld fórnarlambsins við Danna. Fórnarlambið hefur áður lent í hremmingum í tengslum við téða skuld en telur sig hafa greitt hana fyrir löngu. Efasemdir eru því uppi um bókhald Danna danska.

Vafasamt bókhald Danna danska

Samkvæmt heimildum DV er ástæða frelsissviptingarinnar og líkamsmeiðinganna sögð vera skuld fórnarlambsins við áðurnefndan Danna danska. Hefur fórnarlambið áður lent í hremmingum vegna téðrar skuldar sem er einkennilegt í ljósi þess að það telur sig hafa greitt skuldina fyrir lifandis löngu. Bókhald Danans virðist því, ef tekið er mið af orðrómi úr undirheimum Akureyrar, ekki upp á marga fiska.

Athygli vekur ungur aldur tveggja piltanna sem nú sitja í gæsluvarðhaldi. Ísak Logi og Sindri Snær eru báðir fæddir árið 1999 en hafa gert talsverðan usla norðan heiða undanfarna mánuði. Þetta er þriðja alvarlega árásin á innan við ári sem þeir tengjast með einhverjum hætti.

Var fórnarlamb hnífstunguárásar í Kjarnaskógi í fyrra sem Ísak Logi er talinn tengjast. Þeir sitja engu að síður saman í gæsluvarðahaldi vegna frelsissviptingarmálsins.
Marvin Haukdal Var fórnarlamb hnífstunguárásar í Kjarnaskógi í fyrra sem Ísak Logi er talinn tengjast. Þeir sitja engu að síður saman í gæsluvarðahaldi vegna frelsissviptingarmálsins.

Marvin stunginn í Kjarnaskógi

Þannig greindu fjölmiðlar frá alvarlegri hnífstunguárás í Kjarnaskógi þann 14. apríl í fyrra. Þar var Ísak Logi handtekinn sem meintur árásarmaður ásamt pari, tvítugri konu og 27 ára karlmanni. Síðar voru tveir aðrir menn handteknir og yfirheyrðir vegna málsins. Fórnarlamb þeirrar árásar var Marvin Haukdal, sem eins og áður segir var handtekinn ásamt Ísaki Loga í frelsissviptingarmálinu nú. Andrúmsloftið í fangelsinu á Akureyri hlýtur að hafa verið nokkuð þrúgandi en þó aðeins í tæpan sólarhring því Marvin var fljótlega látinn laus.

Vitni lýstu árásinni í Kjarnaskógi þannig að tveimur mönnum hafi orðið sundurorða. Eftir langt rifrildi var Marvin stunginn tvívegis í lærið með „rambóhníf“. Slagæð rofnaði við árásina og því blæddi gríðarlega mikið úr honum. Þurfti Marvin að undirgangast sex klukkustunda langa aðgerð á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Haft var eftir rannsóknarlögreglumanni að Marvini hefði að öllum líkindum blætt út ef hann hefði ekki komist undir læknishendur með hraði.

DV óskaði eftir upplýsingum frá lögreglu um hvar þetta mál væri statt í réttarkerfinu. Bergur Jónsson lögreglufulltrúi sagði í skriflegu svari að lögreglan myndi ekki tjá sig frekar um málið að sinni.

Ekki stunginn í fyrsta sinn

Þessi lífshættulega árás var ekki sú fyrsta sem Marvin verður fyrir. Hann hefur talsverða reynslu af ýmiss konar hremmingum. Visir.is greindi frá því í apríl 2016 að Marvin hefði orðið fyrir alvarlegri líkamsárás á laugardagsmorgni við heimahús í Akureyri.

„Ég var bara í heitum potti á sólpalli á Akureyri þegar ég er laminn í hnakkann og svo er ég stunginn í tvígang og höndin á mér brotin,“ sagði Marvin í samtali við blaðamann Vísis. Hann rankaði við sér á leiðinni upp í Fálkafell, ofan við Akureyri, en þar fannst hann síðar rænulítill með mikla áverka, meðal annars hafði hann misst á annan lítra af blóði. Ekki hefði þurft að spyrja að leikslokum ef göngumenn hefðu ekki komið auga á hann. Rétt er að geta þess að þeir sem voru grunaðir um þá árás tengjast ekki frelsissviptingarmálinu nú.

Illa farið með Bigga bangsa

En Marvin er ekki bara fórnarlamb. Þann 10. mars 2017 var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás. Fórnarlamb hans er maður á þrítugsaldri sem gengur undir nafninu Biggi bangsi í undirheimum Akureyrar. Var Marvin dæmdur fyrir að skvetta hættulegum vökva, sem reyndist vera sterkur basi, í andlit Bigga. Hluti af vökvanum lenti í vinstra auga hans með þeim afleiðingum að hann hlaut „fleiður á glæru, sár á sjónhimnu og sjón hans var móðukennd um tíma“, eins og segir í dómsorði. Þá var Marvin einnig dæmdur fyrir vopnalagabrot vegna vasahnífs sem hann var tekinn með á almannafæri nokkru síðar.

Undirheimar Akureyrar eru ekki stórir þótt þeir geti verið hrottalegir. Þann 31. október átti sér stað alvarleg árás við Glerárkirkju sem ekki var fjallað um í fjölmiðlum. Enn einu sinni kom hnífur við sögu. Atburðarásin er nokkuð á reiki samkvæmt heimildarmönnum DV en leikar fóru þannig að Biggi bangsi var stunginn en tókst að forða sér af vettvangi. Í tengslum við rannsókn málsins voru títtnefndir Ísak Logi og Sindri Snær handteknir. DV óskaði eftir frekari upplýsingum frá lögreglu á Akureyri um rannsókn málsins og hvort ákærur hefðu verið gefnar út en fékk sama svarið. Lögreglan ætlar ekki að tjá sig um málið að sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Alræmdur eltihrellir gengur laus á Akranesi: „Ég tók eftir því að nærfötin mín hurfu hægt og rólega úr nærfataskúffunni“

Alræmdur eltihrellir gengur laus á Akranesi: „Ég tók eftir því að nærfötin mín hurfu hægt og rólega úr nærfataskúffunni“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Maður sem grunaður er um kynferðisbrot er laus úr haldi

Maður sem grunaður er um kynferðisbrot er laus úr haldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Guðrún segir málið grafalvarlegt – „Eftir sitja ríflega 800 manns sem fá enga endurhæfingu“

Guðrún segir málið grafalvarlegt – „Eftir sitja ríflega 800 manns sem fá enga endurhæfingu“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Barnaverndanefnd brást börnum Sigurlaugar: „Samkvæmt þessari konu máttu sem sagt ráðast á börnin þín“

Barnaverndanefnd brást börnum Sigurlaugar: „Samkvæmt þessari konu máttu sem sagt ráðast á börnin þín“