fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fréttir

Yfir 20 konur saka Jóhannes um kynferðisbrot – Vinsæll hjá fræga fólkinu og neitar sök

Ari Brynjólfsson
Laugardaginn 27. október 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jóhannes Tryggvi Sveinbjörnsson hefur verið kærður til lögreglu fyrir kynferðisbrot af minnst þremur konum. Þá hafa yfir tuttugu konur leitað til Sigrúnar Jóhannsdóttur lögmanns og saka Jóhannes um kynferðisbrot. Jóhannes rekur fyrirtækið Postura sem sérhæfir sig í meðhöndlun á slæmri líkamsstöðu og lagfæringar á verkjum í stoðkerfi. Í umfjöllun Fréttablaðsins hefur hann verið kallaður meðhöndlari. Jóhannes er afar vinsæll, bæði hjá almenningi og eins fræga fólkinu. Samkvæmt heimildum DV hefur Jóhannes í þrígang verið kærður áður og sakaður um kynferðisbrot enn öll þau mál voru látin niður falla. Aldrei hefur eins stórt mál sem inniheldur jafn alvarlegar ásakanir komið upp í þessum geira fyrr. Nýju kærurnar og meint brot eiga hafa verið framin þegar konurnar voru í meðferð hjá Jóhannesi.

DV kannaði málið

Fyrir rúmu ári ræddu blaðamenn DV við þrjár konur sem sökuðu Jóhannes um kynferðisbrot. Án þess að farið verður í saumana á því hér taldi ritstjórn rétt að bíða með þá frétt og fylgjast með framvindu málsins. Fréttablaðið hóf svo að fjallaum Jóhannes í síðustu viku án þess að greina frá nafni hans. Þar kom fram að eftir fyrstu frétt Fréttablaðsins stigu sjö konur til viðbótar fram og sökuðu hinn fræga meðhöndlara um kynferðisofbeldi. Þá var rætt við Björn Leifsson eiganda World Class sem lét Jóhanes fara eftir aðeins um viku í starfi við að hnykkja og meðhöndla viðskiptavini. Konráð Valur Gíslason, einkaþjálfari hjá World Class, sagði:

„Þetta kom upp þegar ung stúlka, um 16-17 ára, var í meðferð hjá honum þegar hann starfaði hjá World Class. Eftir meðferðina sagði hún kærasta sínum frá sem hringdi hingað inn og kvartaði yfir manninum,“ segir Konráð. „Ég vissi af þremur konum í þjálfun hjá mér sem höfðu farið til hans og lent í einhverju misjöfnu.“

Jóhannes Tryggvi Snæbjörnsson

Sigrún Jóhannsdóttir réttargæslumaður kvennanna sagði í samtali við Fréttablaðið: „Til mín hafa nú leitað alls sautján konur. Sjö þeirra hafa nú þegar mætt í skýrslutöku hjá lögreglunni og þrjár hafa beðið þess að gefa skýrslu síðan í apríl. Nokkrar eru að meta stöðu sína,“ sagði Sigrún Jóhannsdóttir, lögmaður og réttargæslumaður kvennanna, í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku.

Sigrún segir í samtali við DV nú hafi yfir 20 konur leitað til hennar. Kærurnar eru minnst þrjár en samkvæmt heimildum DV eru fjórar kærur á borði lögreglu. Þá hefur Jóhannes verið kærður áður en þau mál fóru ekki fyrir dóm. Sigrún segir í samtali við DV:
„Þær eru fleiri, ég er að tala við fleiri konur á hverjum degi sem lýsa því hvernig hann braut á þeim. Ég er ekki búin að taka það saman hvað þær eru margar, þær eru orðnar fleiri en tuttugu, en ég hef síðan heyrt um fleiri konur.“

Hvað eru margar búnar að kæra til lögreglu?
„Það er svo stutt síðan þetta fór af stað, þetta tekur allt sinn tíma, það eru nokkrar sem eru búnar að fá tíma í skýrslutöku.“

Í Fréttablaðinu segir orðrétt: Konurnar segja manninn hafa meðhöndlað sig í gegnum leggöng og endaþarm.

Jóhannes steinhissa á konunum

Steinbergur Finnbogason, lögmaður Jóhannesar, segir í samtali við DV að skjólstæðingur sinn hafi komið af fjöllum þegar hann heyrði af þessu. „Þetta er um margt sérstakt mál og auðvitað ber þar hæst að bakgrunnur þess virðist í raun auglýsing að undirlagi lögmanns kvennanna eftir hugsanlegum skjólstæðingum og um leið viðskiptavinum. Það er sem sagt verið að safna liði til höfuðs einum tilteknum einstaklingi. Í öðru lagi eru engar staðfestingar komnar fyrir því að 17 konur hafi svarað auglýsingu lögmannsins enda þótt hann hafi kosið að upplýsa um þann fjölda í fjölmiðlum. Sjálfum er mér kunnugt um þrjár konur sem telja að á sér hafi verið brotið eða að minnsta kosti upplifað óþægt andrúmsloft og um leið tilfinningu í meðhöndluninni.“

Sigrúnu var orða vant þegar blaðamaður spurði hana hvort það gæti verið að hún sé að safna liði gegn Jóhannesi.

„Ég hafna því alfarið. Mikill er máttur lögmanns að geta safnað saman hópi kvenna til að koma fram með svona ásakanir. Það er fráleitt. Svona orð dæma sig sjálf.“

Allir í bransanum heyrt um Jóhannes

Jóhannes er ekki meðlimur í osteópatafélagi Íslands, Sjúkranuddarafélagi Íslands eða Kírópraktorafélagi Íslands. Öll þessi félög sverja hann af sér. Egill Þorsteinsson, formaður Kírópraktorafélags Íslands, vildi ekki ræða málið við blaðamann DV og vísaði í ummæli sín í Fréttablaðinu: „Stétt kíróprakt¬ora er slegin yfir þessum fréttum. Maður sá sem kærður er, hefur ekki menntun kírópraktors, er ekki meðlimur í Kírópraktorafélagi Íslands og tengist ekki stétt kírópraktora á nokkurn hátt,“ sagði Egill.

Osteópatafélagið og Sjúkranuddarafélagið sendu frá sér sameiginlega yfirlýsingu: .„Þessi félög finna sig knúin til að tjá sig um málið og verja sína félagsmeðlimi. Meðlimir innan allra félaganna hafa heyrt fjöldann allan af sögum frá skjólstæðingum sínum um óeðlilega starfshætti frá þessum manni. Við höfum fengið til okkar fólk sem hafa leitað álits um það hvort aðferðir sem hann beitir þyki eðlilegar. Við fordæmum svona starfsaðferðir.“

Haraldur Magnússon, formaður Ostreópatafélags Íslands, sagði í samtali við DV að allir í bransanum hefðu heyrt um hann. „Ég held að hver einasti meðhöndlari hafi heyrt sögur af honum,“ segir Haraldur. „Þar sem hann er ekki okkar félagsmeðlimur þá er þetta ekkert á okkar borði.“

Aðspurður um aðgerðir vegna málsins segir Haraldur að í umsóknarferlinu til að gerast meðlimur í félaginu verði beðið um sakavottorð. „Okkur hafði ekki dottið það í hug en greinilega fínt að hafa. Það hefði ekki stoppað Jóhannes því hann hefur aldrei verið dæmdur.“

Haraldur segir málið slæmt fyrir alla meðhöndlara á landinu. „En í rauninni er þetta kostur fyrir okkur þannig séð, þó það sé kalt að segja það, því það sýnir mikilvægi þess að velja fagmenn. Þarna er maður sem heyrir ekki undir neitt og er ennþá bara starfandi. Segjum sem svo að ég hafi gert þetta, þá væri búið að stoppa mig. Ostreopatar eru löggild heilbrigðisstétt, heyra undir Landlækni og ég yrði stoppaður eins og skot.“

Afstaða byggð á öfund

Steinbergur gefur í skyn að afstaða félaganna þriggja megi rekja til vinsælda Jóhannesar sem meðhöndlara. „Í ljósi þessa er auðvitað líka sérstakt að fagfélög á borð við félag sjúkranuddara og fleiri félög sem væntanlega vilja láta taka sig alvarlega skuli álykta um málið án þess að hafa á því nokkra þekkingu utan umfjöllunar fjölmiðla. Sú staðreynd að skjólstæðingur minn hefur tekið á móti yfir fimmtíu þúsund heimsóknum ánægðra viðskiptavina af báðum kynjum og á öllum aldri án þess að tilheyra neinum einum hópi fagfólks hér á landi kann að hafa þar einhver áhrif.“

Kallaður „galdrakallinn“

Jóhannes Tryggvi er vel þekktur innan íslenska mótorkrossheimsins. Hann hefur gefið sér gott orð sem meðhöndlari og hefur unnið með íþróttamönnum á borð við Gunnar Nelson og Aron Jóhannsson. Fjallað var um Jóhannes í Bændablaðinu árið 2014, þar kom fram að frægð hans væri orðin svo mikil að hann væri orðinn „nuddari og galdralæknir keppnisliðs Honda í Dakar-keppninni“. Í færslu á Instagram ári síðar þakkaði Hafþór Júlíus Björnsson, kraftajötunn, Jóhannesi opinberlega fyrir að halda sér frá meiðslum fyrir keppnina Sterkasti maður í heimi.


Knattspyrnumaðurinn Aron Jóhannsson ræddi um Jóhannes í viðtali við Vísi árið 2016. „Eftir tvær vikur hjá honum var hann búinn að hjálpa mér meira en allir aðrir í fimm mánuði. Ég kalla hann alltaf galdrakarlinn, en ég á honum mikið að þakka,“ sagði Aron.

Á heimasíður Postura má finna fjölda jákvæðra umsagna um starfið frá þekktum afreksíþróttamönnum. Meðal þeirra sem gefa umsögn eru Aron Jóhannsson atvinnumaður í knattspyrnu, Pétur Gunnarsson heimsmeistari í samkvæmisdönsum og Eyþór Örn Baldursson Íslandsmeistari í áhaldafimleikum undir 18 ára. Einnig breski mótorhjólakappinn Johnny Campbell.

Aron Jóhannsson er einn af þeim sem hafa nýtt sér þjónustu Postura í gegnum tíðina.

Aron segir: „Var búinn að glíma við erfið meiðsli í nára í langan tíma og búinn að flakka á milli virtra sérfræðinga víðs vegar um Evrópu. Það var ekki fyrr en ég komst til Jóa þegar mér for að liða betur. Kippti mér í lag á nokkrum tímum þessi meistari.“

Aftaka almennings

Steinbergur segir að um sé að ræða dæmigert mál sem snýst um að skjóta fyrst og spyrja svo. „Það er líka auðvelt í andrúmslofti undanfarinna missera að vekja upp spurningar um hugsanlegt kynferðislegt áreiti og jafnvel misnotkun af einhverju tagi. Ég hef sagt að e.t.v. sé það einmitt tilgangurinn að framkvæma aftökuna hjá almenningsálitinu en láta það svo ráðast á seinni stigum hvort ástæða þyki til ákæru og ennþá síðar hvort dómstólar úrskurði um sekt eða sýknu. Rétturinn til þess að teljast saklaus þar til sekt er sönnuð er einfaldlega orðinn að engu í samfélagi netvæddra samskipta þar sem einstaklingurinn er í raun sjálfstæður fjölmiðill og hefð hefur myndast fyrir því að í lagi sé að láta nánast hvað sem er flakka,“ segir Steinbergur.

Eins og áður segir hefur Jóhannes samkvæmt heimildum DV í þrígang verið kærður fyrir kynferðisbrot. Hann hefur aldrei verið dæmdur og öll hans mál verið felld niður. Jóhannes var kærður árið 2005 grunaður um brot gegn 14 ára stúlku. Hann hefur tvisvar áður verið kærður fyrir meint kynferðisbrot í starfi, annað málið var látið niður falla síðastliðin jól, hitt málið var fellt niður í september síðastliðnum.

Nú hafa eins og áður segir yfir tuttugu konur leitað til sama lögfræðingsins. Nokkrar þeirra hafa nú þegar lagt fram kæru. Jóhannes hefur í gegnum lögfræðing sinn lýst sig saklausan af meintum brotum.

DV hefur ítrekað reynt að ná tali af Jóhannesi en án árangurs. Samkvæmt heimildum hefur hann tekið þá ákvörðun að láta lögfræðing sinn um að tala fyrir sig í málinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið
Fréttir
Í gær

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga

Úkraínumenn skutu rússneska sprengjuflugvél niður – Getur þvingað Rússa til breytinga