fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fréttir

Martröð hjóna á Akureyri: Heimilislaus og múlbundin eftir uppsögn

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 19. október 2018 07:00

Tiddy Gray

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bresk hjón, sem komu til Akureyrar vorið 2017 til að vinna hjá ferðaþjónustufyrirtæki segja farir sínar ekki sléttar. Hafi þau unnið myrkranna á milli, þurft að sofa á dýnu á gólfi á nuddstofu fyrirtækisins og ekki fengið rétt greitt fyrr en verkalýðsfélagið var komið í málið. Eftir að þau kvörtuðu til eigandans var þeim sagt upp og urðu þá húsnæðislaus. Um sumarið voru þeim settir afarkostir á skrifstofu verkalýðsfélags, fá greitt og þegja yfir málinu.

 

Tiddy Gray „Við erum enn þá að greiða skuldir út af þessu og þetta er búið að eyðileggja líf mitt.“

84 stunda vinnuvika

Tiddy Gray og eiginmaður hennar, Maxim Koba, komu hingað til lands frá Bretlandi í marsmánuði árið 2017. Þau eru á fertugsaldri, hún skosk og hann enskur. Þau höfðu hlakkað til að setjast að á landinu og voru ráðin til vinnu hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Inspiration Iceland á Akureyri sem hinn svissneski Andreas Baumgartner rekur. Fyrirækið býður meðal annars upp á hundasleðaferðir, nudd, jóga og útleigu íbúða.

Tiddy segir að þeim hafi verið lofaður fimm ára samningur með aðstöðu til að búa og hjálp við að setjast að. Fyrst um sinn hafi þau verið á reynslu og þurft að greiða allan mat og uppihald sjálf. Störfuðu þau við bókanir og leiðsögn ferðamanna.

Vinnan var mun meiri en þau höfðu gert sér grein fyrir og vel út fyrir venjulegan dagvinnutíma. Störf hófust klukkan sjö á morgnana og stóðu oft fram til tíu á kvöldin, sjö daga vikunnar. Stundum unnu þau til miðnættis. Um helgar unnu þau aðeins hluta dags en þurftu að vera viðbúin. Tiddy segir að þau hafi unnið að meðaltali 84 klukkutíma á viku og hélt hún dagbók um vinnutímana.

Tiddy segir að þeim hafi verið gert að keyra sextán sæta hópferðabíl en þau hafi aðeins haft venjulegt bílpróf. Auk þess þurftu þau að sofa á dýnu á gólfinu í einu nuddherberginu og borga félaginu fyrir það 50 þúsund krónur á mánuði.

Tiddy og Maxim kröfðust þess á fundi með Andreas í maí 2017 að fá alla vinnuna greidda og var þeim þá sagt upp. Í samtali við DV segir Tiddy:

„Við báðum um að fá það greitt sem við áttum inni. Andreas þóttist ætla að hugsa um þetta þegar við töluðum við hann eitt kvöldið. Þegar við snerum aftur til vinnu morguninn eftir var búið að fela lyklana og loka okkur úti. Svo sagði hann okkur að þetta gengi ekki upp.“

 

Múlbinding

Allt í einu voru Tiddy og Maxim orðin heimilislaus og höfðu ekki fengið greitt. Þau leituðu að húsnæði og annarri vinnu en fundu ekkert. Þau voru með köttinn sinn með sér og það gerði húsleit mjög erfiða. Á meðan þurftu þau að leigja tímabundið á Airbnb á sama verði og ferðamenn, um 20 þúsund krónur á dag. Þau eyddu hundruðum þúsunda af sparifé sínu til að búa og halda sér uppi.

„Við leituðum að húsnæði og atvinnu um allt Norður- og Austurland. En peningurinn okkar kláraðist áður en við fengum nokkur svör.“

Verkalýðsfélagið Eining-Iðja vann í þeirra máli fyrir þau og þann 2. júní voru þau kölluð til að undirrita samkomulag um launagreiðslur og endalok málsins.

„Verkalýðsfélagið neyddi okkur til að skrifa undir samkomulagið. Okkur var sagt við fengjum engar greiðslur ef við myndum ekki skrifa undir þetta og að verkalýðsfélagið myndi ekki fara með málið fyrir dómstóla. Við höfðum enga aðra möguleika og fengum engar þagnargreiðslur,“ segir Tiddy.

Í samkomulaginu kom fram að uppgjöri væri að fullu lokið og hvorugur aðilinn gæti gert frekari kröfur á hendur hinum. Yrði því ekki beint til stéttarfélaga, fjölmiðla, annarra. Ekki einu sinni lögreglu.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju, neitaði að tala um einstök mál en sagði að starfsfólk reyndi alltaf að aðstoða fólk, hvort sem það væri félagsmenn eða ekki. Hafnaði hann því að þetta væru óeðlileg vinnubrögð og sagði það oft geta verið erfitt að sanna yfirvinnu til dæmis.

 

Sleðahundur hlekkjaður
Félagið undir eftirliti MAST.

Hundabú undir eftirliti

Eftir þetta yfirgáfu Tiddy og Maxim landið, reið og leið yfir því hvernig farið var með þau. Tiddy segir að þeirra mál sé ekki einsdæmi.

„Við urðum að fara. Við vorum heimilislaus og höfðum eytt þúsundum punda. Við erum enn þá að greiða skuldir út af þessu og þetta er búið að eyðileggja líf mitt. Ég var búin að vinna að því í mörg ár að flytja til Íslands og klára doktorsritgerð. Ég vildi setjast að og vinna á Íslandi.“

Þá hafi sleðahundarnir hjá Inspiration Iceland ekki fengið viðunandi meðferð.

„Þrír hundarnir voru sjaldan notaðir í ferðir og voru þeir geymdir í búri vikum saman án hreyfingar. Einn átti við hegðunarvandamál að stríða og var bundinn fyrir utan þvottahúsið dag og nótt.“

Hjalti Andrason, fræðslustjóri hjá Matvælastofnun, staðfestir að Inspiration Iceland hafi verið til skoðunar hjá stofnuninni. Tvær ábendingar hafi borist og sú nýrri síðastliðið vor. Hann segir:

„Þetta hundabú er undir eftirliti Matvælastofnunar. Við gerðum kröfur um úrbætur og brugðist var við þeim.“

 

Segir hjónin hafa skaðað fyrirtækið á samfélagsmiðlum

Í samtali við DV segir Andreas Baumgartner að málið sé að fullu lokið frá báðum hliðum.

„Þetta var unnið með stéttarfélaginu og við komum til móts við þeirra kröfur. Það var gengið frá þessu. Formaður stéttarfélagsins lagði þetta fram og það var samþykkt.“

Var öll yfirvinna og allt greitt?

„Já.“

Var það ykkar krafa að þau mættu ekki tala við fjölmiðla, lögreglu og fleiri?

„Nei, en þau voru að nota samfélagsmiðla til að sverta okkur sem er brot á réttindum okkar. Það var þess vegna. Þau voru að nota samfélagsmiðla og slíkt. Þess vegna kom þetta fram.“

Af hverju var þeim bannað að fara til lögreglu, er það ekki réttur allra að leita til lögreglu ef á þeim er brotið?

„Þau voru að skaða okkur á öðruvísi hátt.“

Andreas vildi ekki svara því af hverju Tiddy og Maxim var sagt upp, af hverju þau þurftu að sofa á dýnu á gólfi og svo framvegis. Sleit hann þá samtalinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 

Einingaverksmiðjan og Rafmennt unnu til verðlauna á Verk og vit 
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“

Harmleikurinn á Akureyri – Nágranni ber fólkinu vel söguna – „Það fer rosalega lítið fyrir þeim“