fbpx
Föstudagur 26.apríl 2024
Fréttir

Erlendur fréttaannáll 2017: Árið þegar konurnar sögðu frá

Kristján Guðjónsson
Föstudaginn 29. desember 2017 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið 2017 var árið þegar þúsundir kvenna risu upp gegn áreitni og ofbeldi og sögðu sögur sínar undir myllumerkinu #Metoo, menningarbylting sem mun hafa mikil áhrif til framtíðar. Árið var einnig ár breytinga í hinu heimspólitíska landslagi, Donald Trump tók við embætti forseta Bandaríkjanna, útgönguferli Bretlands úr Evrópusambandinu hófst, nýr krónprins lét til sín taka í Sádí-Arabíu og einum allra þaulsetnasta þjóðarleiðtoga heims, Robert Mugabe, var steypt af stóli. Sjálfstæðiskröfur Katalóníumanna og Kúrda voru barðar niður en munu vafalaust vera settar aftur fram á nýju ári. 2017 var árið sem Íslamska ríkið glataði höfuðvígi sínu og var allt að því sigrað. Á árinu vorum við einnig minnt á vandamálin sem munu blasa við komandi kynslóðum. Veðuröfgar, fellibylir og þurrkar voru áberandi og munu eflaust ekki minnka á næstu árum ef hlýnun jarðar eykst. Byltingarkennd ný tækni á sviði gervigreindar og erfðabreytinga boðar okkur þá spennandi en ógnvænlega framtíð. DV skoðar hér það helsta sem gerðist á árinu á erlendum vettvangi.


Janúar

18. janúar

Heimurinn hlýnar

Um miðjan janúar komu út tvær skýrslur frá NASA og bandarísku hafrannsóknastofnuninni sem sýndu svart á hvítu að árið 2016 var hlýjasta ár frá því að mælingar hófust fyrir 140 árum. Árið 2017 náði ekki alveg sömu hitahæðum, en var þó eitt allra hlýjasta ár frá upphafi mælinga.

20. janúar

Trump verður forseti

Donald Trump tók við embætti sem 45. forseti Bandaríkjanna þann 20. janúar. Það var enginn sáttatónn í innsetningarræðu þar sem Trump vísaði í gamalt slagorð þjóðernissinna: „America First.“ Fljótlega var umræðan farin að snúast um fjölda þeirra sem fylgdust með athöfninni. Fjölmiðlar sýndu fram á að fjölmiðlafulltrúi Trumps hafði rangt fyrir sér um fjöldann, og í kjölfarið sagði talskona Trumps að fjölmiðlafulltrúinn hefði bara notast við „annars konar staðreyndir.

29. janúar

Múslimar bannaðir

Eitt fyrsta embættisverk Donalds Trump í embætti forseta var að skrifa undir forsetatilskipun þess efnis að öllum ríkisborgurum sjö ríkja í Afríku og Mið-Austurlöndum þar sem múslimar eru í meirihluta skyldi tímabundið meinað að koma til Bandaríkjanna. Í kjölfarið var ringulreið á flugvöllum og fjölmenn mótmæli, tilskipunin var kærð og gildi hennar frestað. Að lokum var hún dæmd ólögleg. Síðan þá hefur Trump lagt fram tvær nýjar forsetatilskapanir um sama mál.


Febrúar

13. febrúar

Ævintýralegt bróðurmorð

Kim Jong-Nam, hálfbróðir Kim Jong-Un einræðisherra Norður-Kóreu, var myrtur þann 13. febrúar þegar tvær konur nudduðu taugaeitri í andlit hans á flugvelli í Malasíu. Konurnar töldu sig vera að taka þátt í grínsjónvarpsþætti með falinni myndavél, en ráðabruggið var að öllum líkindum skipulagt af norður-kóreskum stjórnvöldum. Nam var elsti sonur, og um tíma talinn líklegasti arftaki, Kim Jong-il, fyrrverandi leiðtoga alræðisríkisins.

20. febrúar

Hungursneyð í Suður-Súdan

Eftir áralanga borgarastyrjöld og tvö ár án rigningar lýstu Sameinuðu þjóðirnar yfir hungursneyð í Unity-fylki í Suður-Súdan í febrúar – en það eru sex ár frá því að stofnunin lýsti síðast yfir hungursneyð í heiminum. Borgarastríð hefur ríkt um árabil á svæðinu og hefur það ekki minnkað eftir að Suður-Súdan hlaut sjálfstæði árið 2011.

22. febrúar

Lífvænlegar reikistjörnur

Í febrúar tilkynntu stjörnufræðingar að þeir hefðu fundið sjö reikistjörnur á stærð við jörðina í kringum rauðu dvergstjörnuna TRAPPIST-1 sem er í 40 ljósára fjarlægð frá jörðinni. Þrjár þessara bergreikistjarna voru taldar geta haft fljótandi vatn á yfirborði sínu – og þar með getað verið lífvænlegar. Í ágúst fundu stjörnufræðingar með hjálp Hubble-sjónaukans svo fyrstu vísbendingar um vatn við reikistjörnurnar, þótt ekki sé enn hægt að segja hvort um fljótandi vatn sé að ræða.

26. febrúar

Vitlaus óskarsverðlaunahafi

Kvikmyndin Moonlight hlaut Óskarsverðlaunin sem besta kvikmyndin í febrúar, en myndin er þroskasaga svarts samkynhneigðs manns í fátækrahverfi í Bandaríkjunum. Rangt umslag hafði hins vegar ratað í hendur leikarans Warren Beatty sem tilkynnti að sigurvegarinn væri kvikmyndin La La Land. Mistökin voru leiðrétt skömmu síðar en þóttu einstaklega vandræðaleg fyrir óskarsakademíuna og PricewaterhouseCoopers sem sá um þennan hluta verðlaunanna.


Mars

15. mars

Rasistar tapa í Hollandi

Hollenski frjálslyndi flokkurinn undir stjórn Mark Rutte forsætisráðherra hélt velli í hollensku þingkosningunum í mars. Þrátt fyrir að bæta við sig fimm þingmönnum og verða næststærsti flokkurinn á þinginu tókst hinum þjóðernissinnaða Frelsisflokki, með Geert Wilders í broddi fylkingar, ekki ætlunarverk sitt: að verða stærsta stjórnmálaaflið í Hollandi. Kosningin þótti til marks um að uppgangur þjóðernishyggju og einangrunarhyggju á Vesturlöndum væri í rénun.

29. mars

Brexit hefst

Eftir miklar deilur hóf Theresa May forsætisráðherra opinberlega útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu þann 29. mars með því að virkja 50. grein Lissabon-sáttmálans. Þar með hófst opinberlega ferli sem á að ljúka með útgöngu Bretlands í síðasta lagi tveimur árum síðar.


Apríl

16. apríl

Erdogan fær einræðisvöld

Víðtækar stjórnarskrárbreytingar voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu í Tyrklandi. Breytingarnar sem lagðar voru fram af forseta landsins, Recep Tayyip Erdoğan, breyttu landinu úr þingræðislandi í forsetaræði. Erdoğan hélt því fram að breytingarnar myndu gera stjórn landsins skilvirkari en fáum dylst að breytingarnar fara langleiðina með að gera landið að einræðisríki.

18. apríl

May boðar til kosninga

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, boðaði óvænt, og þvert á fyrri loforð, til snemmbúinna kosninga í apríl. Vinsældir Verkamannaflokksins með hinn róttæka Jeremy Corbyn í broddi fylkingar voru í sögulegu lágmarki og var hugmyndin því að tryggja Íhaldsflokknum enn sterkari meirihluta til að geta tekið harðari afstöðu í Brexit-viðræðunum.

Þyrilsnælduæði

Fidget Spinner-æði grípur heiminn. Þyrilsnældan er upphaflega hönnuð fyrir þá sem eru handóðir eða ofvirkir til að fikta í og halda einbeitingu, en í apríl verður sprenging í vinsældum hennar sem leikfangs. Öll börn og ömmur þeirra eignast snældu.


Maí

7. maí

Macron verður forseti

Hinn 39 ára gamli Emanuel Macron varð yngsti forseti franska lýðveldisins, eftir að hann sigraði þjóðernissinnann Marine Le Pen í úrslitaeinvígi frönsku forsetakosninganna með 66,1% atkvæðanna. Macron, sem er Evrópusinnaður frjálshyggjumaður, fyrrum bankamaður og fjármálaráðherra, þótti ekki líklegur sigurvegari í upphafi baráttunnar, en vegna óvinsælda sósíalistaflokksins og spillingarmála hjá frambjóðanda Íhaldsflokksins náði Macron, með hinn nýstofnaða flokk En Marche! á bakvið sig, að bera sigur úr býtum.

12. maí

Stærsta gagnatökuárás sögunnar

Stærsta gagnatökuárás internet-sögunnar hófst með Wannacry-tölvuvírusnum svokallaða. Árásin var gríðarlega umfangsmikil, hundruð þúsunda tölva um allan heim voru sýktar á einum sólarhring, meðal annars tölvukerfi stofnana á borð við breska heilbrigðis- og sjúkratryggingarkerfisins (NHS). Öll gögn í viðkomandi tölvu voru dulkóðuð og hótað að þeim yrði eytt ef eigandinn greiddi ekki ákveðna upphæð í Bitcoin-gjaldmiðlunum. Fljótlega tókst að hemja útbreiðslu veirunnar og fáir greiddu lausnargjaldið. Ekki er enn ljóst hver stóð fyrir árásinni.

13. maí

Einlægnin sigraði í Eurovision

Hjartveiki hjartaknúsarinn Salvador Sobral frá Portúgal söng sig inn í hjörtu Evrópubúa í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva í maí. Hann sigraði keppnina með hjartnæmum flutningi á lagi sínu, Amar pelos dois, sem hann samdi með systur sinni.

17. maí

Rannsaka tengsl Trump og Rússa

Dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna réð Robert Mueller, fyrrverandi yfirmann FBI, til að fara fyrir rannsókn á mögulegum tengslum rússneskra yfirvalda og einstaklinga sem komu að kosningabaráttu Donalds Trump. Rannsókninni var hrint af stað eftir að Trump hafði rekið yfirmann bandarísku leyniþjónustunnar, James Comey, vegna rannsóknar stofnunarinnar á tengslum og áhrifum rússneskra yfirvalda á kosningarnar.

22. maí

Hryðjuverk í Manchester

Sprengja sprakk skömmu eftir að tónleikum bandarísku tónlistarkonunnar Ariana Grande lauk í Manchester Arena í Manchester. Ódæðismaðurinn Salman Abedi og 22 aðrir létust og yfir 500 slösuðust. Þó að árásarmaðurinn hafi verið einn að verki hafði hann tengsl við hryðjuverkasamtökin sem kalla sig Íslamska ríkið. Þetta var önnur hryðjuverkaárásin á þessu ári í Bretlandi, en í heildina áttu þær eftir að verða fjórar.


Júní

1. júní

Parísarsáttmálinn í uppnámi

Donald Trump tilkynnti að hann hygðist draga Bandaríkin úr Parísarsáttmálanum um aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum, sem var samþykktur árið 2015. Rökin voru að samningurinn kæmi sér illa fyrir bandarísk fyrirtæki og þar með vinnandi fólk í landinu: „Ég var kjörinn fulltrúi íbúa í Pittsburgh, ekki París.“ Fjöldi þjóðarleiðtoga fordæmdi ákvörðunina og hefur biðlað til Trump að endurskoða afstöðuna sem þeir telja að muni gera þverþjóðlegar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum allt að því ómögulegar.

5. júní

Stjórnmálakrísa á Arabíuskaga

Í byrjun júní skáru Sádi-Arabar og nokkrar vinaþjóðir þeirra, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland, öll stjórnmálaleg tengsl við grannríkið Katar. Meginástæðan var sögð vera stuðningur katarskra stjórnvalda við hryðjuverkahópa, en einnig eru samskipti landsins við Íran og rekstur fréttastöðvarinnar Al-Jazeera þyrnir í augum Sáda. Sádar settu fram 13 kröfur sem Katarbúar telja sig ekki geta uppfyllt.

8. júní

May bíður afhroð

Kosið var til breska þingsins í júní. Kosningabaráttan gekk hörmulega hjá Íhaldsflokki Theresu May forsætisráðherra. Hún var gagnrýnd fyrir að setja aukinn skatt á eldri borgara, fyrir viðbrögð við hryðjuverkuárásinni í Manchester og fyrir að mæta ekki meginandstæðingi sínum, Jeremy Corbyn, formanni Verkamannaflokksins, í kappræðum. Vinsældir Corbyns jukust hratt og örugglega, og þegar talið var upp úr kössunum að kvöldi 8. júní hafði Íhaldsflokkurinn þvert á allar spár misst meirihluta sinni og neyddist til að bæta við hinum ofur-íhaldssama norður-írska sambandsflokki í ríkisstjórnina.

14. júní

Grenfell-turninn brennur

Mannskæðasti bruni Bretlands í áraraðir átti sér stað þegar 24 hæða fjölbýlishús í Kensington-hverfinu í London brann til kaldra kola. 70 manns og eitt ófætt barn lést í eldsvoðanum sem var talinn hafa breiðst svo hratt út vegna ytri klæðningar sem hafði verið sett á bygginguna skömmu áður. Húsið var í eigu borgarinnar og flestir íbúarnir úr verkamannastétt og dökkir á hörund. Borgaryfirvöld voru gagnrýnd fyrir að hafa ekki brugðist við viðvörunum íbúa og forsætisráðherrann gagnrýnd fyrir sein viðbrögð og sækja ekki fórnarlömbin heim til að votta þeim samúð sína.

24. júní

Seld fyrir 5000 evrur og sendibíl

Sú erlenda frétt sem var mest lesin á DV.is á árinu sagði frá því að búið væri að finna 14 ára rúmenska stúlku, búsetta í Pedrera á Spáni, sem foreldrar höfðu tilkynnt horfna í apríl. Stúlkan fannst í austurhluta Slóveníu í fylgd með eldri manni, þar sem þau voru á leið til Rúmeníu. Foreldrarnir voru handteknir fyrir mansal eftir að ljóst varð að það voru þeir sem höfðu selt dóttur sína fyrir 5000 evrur og sendibíl.


Júlí

30. júlí

Kosið í skugga óeirða

Kosningar til nýs stjórnlagaþings fóru fram í Venesúela en með stofnsetningu þess jukust völd forsetans Nicolas Maduro til muna á kostnað stjórnarandstöðunnar sem er með meirihluta á þinginu. Stjórnarandstaðan sniðgekk kosningar til stjórnlagaþingsins og hélt því fram að tölur um kjörsókn hefðu verið falsaðar. Mikil og mannskæð mótmæli hafa verið í landinu frá upphafi árs þar sem þess er krafist að Maduro fari frá völdum, en hann er sagður bera ábyrgð á því að efnahagur landsins er í rúst og mikill skortur er á nær öllum nauðsynjavörum.

Gleymda stríðið í Jemen

Blóðug átökin í Jemen virtust engan enda ætla að taka á árinu, þúsundir hafa látist og milljónir búa við stöðugt stríðsástand í einu fátækasta landi heims. Deiluaðilar eru studdir af stórveldum múslimaheimsins, Uppreisnarmenn Húta eru studdir af Írönum en Abed Rab­bo Man­sour Hadi forseti og liðsmenn hans eru studdir af Sádí-Aröbum.


Ágúst

2. ágúst

Byltingarkennd erfðatækni

Í byrjun ágúst var greint frá því að vísindamönnum hafi í fyrsta skipti tekist að fjarlægja gallað erfðaefni úr fósturvísi með erfðabreytingatækninni Crispr. Erfðagallinn sem um ræðir veldur hjartasjúkdómi sem getur leitt til skyndilegs hjartastopps. Tilraunin hefur aukið vonir um að í náinni framtíð verði hægt að koma í veg fyrir ýmsa arfgenga sjúkdóma. Á sama tíma er bent á hinar ýmsu siðferðilegu spurningar sem kvikna þegar hægt verður að „hanna“ börn með breytingum á erfðaefni fósturvísa.

12. ágúst

Handtekinn fyrir morðið á Kim Wall

Danski uppfinningamaðurinn og auðkýfingurinn Peter Madsen var handtekinn í tengslum við hvarf sænsku blaðakonunnar Kim Wall. Degi áður hafði heimasmíðaður kafbátur hans, Nautilius, sokkið við Eyrarsund, að því var talið með Wall innanborðs. Aflimaður búkur blaðakonunnar fannst hins vegar tíu dögum síðar.

12. ágúst

Rasistar í kröfugöngu í Charlotteville

Stærsta samkoma bandarískra þjóðernissinna og kynþáttahatara í áraraðir fór fram í Charlottesville í Virginíuríki undir slagorðinu: „Hægrið sameinast.“ Hópurinn fór í kröfugöngu gegn því að minnismerki um Suðurríkjasambandið væru tekin niður, en margir álíta merkin hampa sögu þrælahalds og kynþáttamismununar. Fjöldi fólks mótmælti kröfugöngunni og lenti fylkingunum tveimur saman. Ung kona var myrt og fjöldi slasaðist þegar yfirlýstur kynþáttahatari keyrði inn í hóp mótmælenda.

25. ágúst

Þjóðarmorð á Róhingjum

Stjórnarherinn í Mjanmar og stjórnlaus múgur almennra borgara ræðst á Róhingja-múslima í Rakhine-héraði eftir að hryðjuverkamenn myrða 12 lögreglumenn. Þar með hefst nýjasta og versta aldan í þjóðernishreinsunum á hópnum sem hefur verið kúgaður um árabil, en meirihluti landsmanna eru búddistar. Hundruð Róhingja hafa verið drepnir og hundruð þúsunda þurft að flýja heimili sín og yfir landamærin til Bangladess. Friðarverðlaunahafi Nóbels og leiðtogi landsins, Aung San Suu Kyi, hefur verið gagnrýnd fyrir að taka ekki upp hanskann fyrir Róhingja.


September

20. september.

Eyðileging á Púertó Ríkó

Fellibylurinn Maria lendir á Karíbahafseyjuna Púertó Ríkó. Meira en 500 manns látast þar og á nærliggjandi eyjum. Þetta var sá stærsti og mannskæðasti af fjölmörgum stórum fellibyljum á Karíbahafinu árið 2017, en sjaldan hafa jafn margir stórir fellibylir myndast á einu ári á svæðinu og haft jafn mikil áhrif.

24. september

Þjóðernissinnar á þýska þinginu

Kosningar fóru fram í Þýskalandi í september. Kristilegir demókratar (CDU), flokkur Angelu Merkel kanslara, tapaði þingmönnum en var þó enn langstærsti þingflokkurinn. Það sem var þó fréttnæmast var að flokkur þjóðernissinna, Annar valkostur fyrir Þýskaland (AfD), náði 94 mönnum inn á þing og er það í fyrsta skipti frá sjöunda áratugnum sem yfirlýstir þjóðernissinnar ná inn á þýska þingið.

25. september

Kúrdar krefjast sjálfstæðis

Ríkisstjórn sjálfsstjórnarsvæðis Kúrda í Írak stóð fyrir atkvæðagreiðslu um sjálfstæði héraðsins. Sjálfstæðið var samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta kjósenda en stjórnvöld í Írak viðurkenna ekki niðurstöðuna og hafa beitt Kúrda ýmiss konar þrýstingi til að þeir falli frá


Október

1. október

Katalónar kjósa

Í byrjun október fóru fram kosningar um sjálfstæði Katalóníu frá Spáni. Kosningarnar voru umdeildar meðal Katalóníumanna sjálfra og hafði spænskur dómstóll þegar dæmt kosningarnar ólöglegar. Hundruð slösuðust þegar lögregla reyndi að koma í veg fyrir að borgarar kysu og vakti lögregluofbeldið hörð viðbrögð um alla Evrópu. Alls 92% þeirra sem kusu studdu sjálfstæði. Í lok mánaðarins samþykkti katalónska þingið að lýsa yfir sjálfstæði, en í kjölfarið leysti forseti Spánar upp þingið og skipaði fyrir um handtöku stjórnar héraðsins.

Fjöldamorð í Vegas

Klukkan fimm mínútur yfir tíu að staðartíma hóf hinn 64 ára gamli Stephan Paddock að skjóta úr sjálfvirkum byssum á gesti á útitónlistarhátíðinni Route 91 Harvest úr herbergi sínu á 32. hæð Mandalay Bay-hótelsins í Las Vegas. Alls 58 létust og á sjötta hundrað slasaðist áður en lögregla fann lík Paddocks í herberginu. Ástæða árásarinnar er enn ókunn.

14. október

Mannskæðasta hryðjuverkið

Mannskæðasta hryðjverkaárás ársins átti sér stað í Mogadishu, höfuðborg Sómalíu. Stór vöruflutningabíll með um 350 kíló af sprengiefnum í farangursgeymslunni sprakk með þeim afleiðingum að byggingar hrundu og yfir 500 manns létu lífið. Talið er að árásarmennirnir tengist hryðjuverkasamtökunum Al-Shabab og markmiðið hafi verið að ráðast á byggingar tengdar ríkisstjórninni og alþjóðlegum stofnunum.

17. október

Höfuðvígi ISIS fellur

Eftir fjögurra mánaða blóðuga bardaga tók Sýrlenski lýðræðisherinn, undir stjórn Kúrda og með stuðningi Bandaríkjamanna, yfir sýrlensku borgina Raqqa, sem hafði verið höfuðvígi Íslamska ríkisins (ISIS) frá því í janúar 2014. Meirhluti borgarinnar var eyðilagður í átökunum og stór hluti íbúanna lést eða flúði heimili sín. Draumur ISIS-liða um íslamskt kalífadæmi var því orðinn mun fjarlægari en áður.

21. oktbóber

Weinstein og Metoo-bylgjan

Fyrstu ásakanirnar um kynferðislega áreitni og ofbeldi á hendur bandaríska kvikmyndaframleiðandanum Harvey Weinstein koma fram. Á næstu mánuðum koma tugir eða hundruð kvenna fram og saka Weinstein um áreitni. Í kjölfarið byrja konur um allan heim að segja frá áreitni og ofbeldi sem þær þurfa að lifa við dags daglega og deila sögum undir myllumerkinu Me Too. Fjöldi valdamikilla manna í ýmsum starfsgreinum neyðast til að segja af sér í kjölfar ásakana og enn sér ekki fyrir endann á áhrifum þessarar feminísku byltingar.

24. október

Xi Jiaping styrkir völd sín

Nítjánda aðalþing Kínverska kommúnistaflokksins fór fram í Peking. Þar styrkti aðalritarinn Xi Jiaping stöðu sína sem einn allra valdamesti maður heims. Hann valdi enga unga menn sem gætu mögulega tekið við af honum í aðalráð flokksins, og kom hugmyndafræði sinni – sem nefnd hefur verið „Xi Jiaping-hugsun“ – nn í námskrá allra kínverskra skólabarna. Í stefnuræðu sinni á þinginu talaði hann um hvernig Kína ætti að taka við leiðtogahlutverki í heiminum.


Nóvember

5. nóvember

Paradísarskjöl opinbera elítuna

Fréttir birtust samtímis í 96 fjölmiðlum um allan heim sem unnar voru upp úr 13,4 milljónum skjala sem lekið hafði verið frá panömsku lögfræðistofunni Appleby, sem hafði aðstoðað við að koma upp fyrirtækjum í skattaparadísum. Meðal þess sem skjölin sýndu voru hvernig Apple komst hjá því að greiða skatta, hvernig Englandsdrottning og krónprinsinn, formúlukappinn Lewis Hamilton og poppsöngvarinn Bono hafa öll átt fyrirtæki í skattaskjólum. Þá komu í ljós náin tengsl viðskiptaráðherra Bandaríkjanna við tengdasyni Vladimirs Pútíns.

7. nóvember

Hreinsanir í Sádi-Arabíu

Tíu prinsar, fjórir ráðherrar og tugir fyrrverandi ráðherrar voru handteknir í Sádí-Arabíu. Það var hinn ungi krónprins Mohammed bin Salman sem fyrirskipaði handtökurnar og sagði þær vera vegna spillingar. Þar með styrkti hann stöðu sína sem valdamesti maður landsins, en margir þeirra sem voru handteknir voru ósáttir við stefnu hans, meðal annars hvað varðar samskipti við Katar, um einkavæðingu ríkisfyrirtækja og loforð um að opna landið og gera það frjálslyndara – meðal annars leyfa konum að keyra bíla og íbúum að fara í kvikmyndahús.

15. nóvember

Langdýrasta málverk sögunnar

Málverkið Salvator Mundi, sem er eignað listamanninum Leonardo Da Vinci, varð lang-lang-langdýrasta listaverk allra tíma þegar það var selt fyrir 450 milljónir dollara – tæplega 50 milljarða króna – á uppboði í New York. Fljótlega kom í ljós að kaupandinn var sádí-arabískur prins og verður verkið sýnt í nýju útibúi Louvre-safnsins sem verður opnað í Abu Dhabi.

21. nóvember

Mugabe missir völdin

Hinn 93 ára gamli forseti Simbabve Robert Mugabe, elsti og einn þaulsetnasti þjóðarleiðtogi heims, var hrakinn úr embætti með valdaráni hersins í landinu í nóvember. Fyrr í mánuðinum hafði Mugabe rekið varaforsetann Emmerson Mnangagwa úr embætti og þess í stað ráðið eiginkonu sína, Grace, að því er virtist til að koma á fjölskylduveldi í landinu. Her landsins tók þá til sinna ráða og kom Mnangagwa á forsetastól. Þar með lauk 40 ára valdatíð Mugabe í landinu.

28. nóvember

„Rocket man“ fiktar með sprengjur

Langdrægri eldflaug af gerðinni Hwasong-15 var skotið á loft frá Norður-Kóreu og segja þarlend stjórnvöld að eldflaugin geti borið kjarnaodd og hæft skotmörk hvar sem er á meginlandi Bandaríkjanna. Tilraunaskotið jók enn á spennuna milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna sem hefur farið stigvaxandi allt árið vegna kjarnorku- og eldflaugatilrauna. Donald Trump hefur farið mikinn í twitter-færslum um leiðtoga Norður-Kóreu og uppnefndi hann meðal annars eftir slagara Elton John: „Rocket man.“


Desember

5. desember

Rússar bannaðir á Ólympíuleikum

Alþjóðaólympíunefndin bannaði rússneska íþróttasambandinu að taka þátt í vetrarólympíuleikunum árið 2018 vegna skipulags og víðtæks lyfjasvindls. Rússneskir íþróttamenn mega þó keppa undir fána ólympíusambandsins.

6. desember

Tölva kennir sjálfri sér skák

Tölvuforritið AlphaGo Zero tókst að kenna sjálfu sér skák og aðeins fjórum klukkustundum síðar gat það sigrað færustu skáktölvur heims í leiknum. Fyrri útgáfa forritsins, sem er hannað af gervingreindarfyrritækinu DeepMind sem er í eigu Alphabet Inc. (móðurfyrirtækis Google), hafði áður komist í fréttirnar á árinu þegar því tókst að sigra alla bestu spilara heims í kínverska borðspilinu Go, sem þykir flóknari og erfiðari en skák.

7. desember

Jerúsalem verði höfuðborgin

Donald Trump Bandaríkjaforseti viðurkenndi Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels og tilkynnti að Bandaríkin muni flytja sendiráð sitt þangað. Hann nefndi ekki kröfu Palestínumanna til borgarinnar og var ákvörðunin olía á eldinn í friðarviðræðunum. Stærstur hluti alþjóðasamfélagsins fordæmdi ákvörðunina á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna síðar í mánuðinum.

18. desember

Bitcoin-bóla

Verðmæti rafmyntarinnar Bitcoin margfaldaðist á seinni hluta ársins og vakti mikið umtal. Margir hagfræðingar spá því að bólan sé að springa en aðrir vinna í því að gera hana að raunhæfum valkosti við opinbera gjaldmiðla. Stórt skref var tekið í þá átt þegar sala á framvirkum samningum með rafmyntina hófst hjá CME Group, einu stærsta og öflugasta fyrirtækinu á mörkuðum fyrir ýmiss konar fjármálaviðskipti og afleiðusamninga.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum

Uppnám á Íslandsmótinu í skák – Stórmeistari hættir þátttöku út af hávaða í kylfingum
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla

Össur segir Jóni Gnarr að hætta að væla
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“

Sigmar harðorður um stöðuna hér á landi – „Þetta er hálf­gerð sturlun“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki

dk hugbúnaður flytur í nýjar höfuðstöðvar og kynnir nýtt vörumerki