fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Rut ósátt: Ætla að taka Týru af henni og segja hana óhæfa til að halda hund

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 10. desember 2017 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rut Másdóttir, íbúi í blokk á Hjallabraut í Hafnarfirði og eigandi tíkurinnar Týru, segir farir sínar ekki sléttar af samskiptum sínum við Matvælastofnun og Félagsþjónustuna í Hafnarfirði en þessa aðila segir húb vilja taka hundinn af heimili Rutar og koma honum í fóstur. Að sögn Rutar hafa nágrannar kvartað undan hundinum en ekki með málefnalegum hætti.

Rut er öryrki, fertug að aldri, en hún á sjálf íbúðina sem hún býr í. Árið 2011 var lögum um dýrahald í fjölbýlishúsum breytt og réttur dýraeigenda rýmkaður. Í lögunum segir meðal annars::

Í fyrsta lagi þarf ekki samþykki sameigenda þegar íbúð hefur hvorki sameiginlegan inngang eða stigagang. Gildir það þótt lóðin sé sameiginleg og um sé að ræða annars konar sameiginlegt rými.
Í öðru lagi þarf samþykki 2/3 hluta eigenda fyrir hunda og kattahaldi þegar inngangur eða stigagangur er sameiginlegur. Áður þurfti samþykki allra í slíkum tilvikum.
Í þriðja lagi eru svo sérreglur um leiðsögu og hjáparhunda og er réttur til að halda slíkan hund aldrei háður samþykki meðeigenda. Sérþjálfaðir leiðsögu og hjáparhundar eru eins konar hefðarhundar. Takmarkanir í lögunum gilda ekki um þá. Þeir eru miklu fremur hjápartæki en dýr. Í lögunum er vörðuð leið ef hundur(hjálparhundur eða annar hundur) veldur íbúa hússins óbærilegu ofnæmi. Rekist slíkir hagsmunir á kemur til kasta kærunefndar húsamála og sérfræðinga.

Í umræddu húsi er sameiginlegur inngangur en íbúð Rutar er á jarðhæð og hundurinn gengur nokkur skref inn í hana frá aðalinnganginum.

Rut Másdóttir
Rut Másdóttir

Rut segir að þegar hún flutti inn í húsið fyrir sjö árum hafi verið þar fyrir íbúar með hunda og allar götur síðan hafi hundar verið í húsinu. Hundaeign hafi aldrei verið rædd á húsfundum:
„Svo gerist það að fjölskylda sem var með hund hérna flytur út um verslunarmannahelgina og þá byrja nágrannarnir að hamast í mér.”

Segir að Rut að það séu aðallega tvær konur sem hafi amast við hundinum hennar en aðrir íbúar í húsinu hafi ekkert sagt:
„Þær segja að Týra gelti mikið þegar hún er ein heima en hún er mjög sjaldan ein heima. Hún geltir ekki mikið, kannski smá þegar hún heyrir í dyrabjöllunni. Hún hefur aldrei bitið neinn og aldrei ógnað neinum.”

Dýravernd heyrir undir verksvið Matvælastofnunar – MAST – en um daginn heimsóttu fulltrúar frá MAST Rut og með í för var fulltrúi frá Félagsþjónustunni í Hafnarfirði. Fólkið sagði Rut að hún væri ekki fær um að sjá um hundinn og að best væri fyrir dýrið að því yrði komið fyrir fóstur. Að sögn Rut voru engar málefnalegar ástæður gefnar fyrir ákvörðuninni og þegar hún spurði hvers vegna var henni svarað að hún vissi greinilega ekki hvað henni væri fyrir bestu.

Umræddur hundur er 19 mánaða gömul tík, Border Collie Husky blendingur. Að sögn Rutar er hundurinn í fínu ástandi:
„Henni líður vel, hún er hrein og hún er mjög vel nærð.”

Rut segir að fólkið hafi spurt hana hve oft hún færi út að ganga með hundinn og einnig hafi þau ómaklega ályktað að hundurinn væri lokaður inni í búri allan daginn. Ástæðan fyrir því var sú að þarna í íbúðinni er opið búr og inni í því er vatnsdallur og matardallur.

„Þau sögðu líka að ég væri að fóðra hana rangt og það er bara alls ekki rétt hjá þeim.”

Rut segir að undarlegar fullyrðingar hafi komið frá fulltrúa Félagsþjónustunnar: „Hún sagði að það yrði að senda fólk til að þrífa hjá mér eins og hjá gamla fólkinu og svo spurði hún hvað væri langt síðan ég hefði farið í sturtu. Algjörlega óviðeigandi ummæli, finnst mér.”

Rut segir að fulltrúinn frá MAST hafi tilkynnt henni að hundurinn yrði tekinn eftir helgi. Fulltrúi Félagsþjónustunnar hafi síðan látið ummæli falla sem Rut hafi þótt sérkennileg: „Hún sagði: „Jæja, þú fékkst það sem þú vildir.” – Ég spurði þá dálítið hvöss hvað hún ætti eiginlega við. Þá sagði hún: „Róleg Rut, hugsaðu í lausnum!“

Rut segist hafa haft samband við Öryrkjabandalag Íslands vegna málsins og hefur henni nú verið ráðinn réttargæslumaður. Hún segist ekki hafa fengið nein skrifleg erindi um yfirvofandi brottnám hundsins.

Rut birti mynd af Týru á Facebook-síðu sinni og skrifaði með eftirfarandi stöðufærslu:
Þetta er litla sæta Týra mín. Þökk sé nágrönnum mínum, féló í hafnarfirði og MAST var ákveðið núna á föstudaginn eftir að féló kom með MAST hingað að þá ákvað MAST að ég sé óhæf að ala upp Týru og þar að leiðandi koma þau eftir helgi og taka hana af mér, þrátt fyrir að hún er vel á sig komin, hlíðin og fjörug. Svar við MAST þegar ég spurði þau hver væri ástæðan var UUUU það er greinilegt að þú hefur ekki vit á því að vita hvað henni er fyrir bestu. Nú segi ég Takk nágrannar. Takk MAST. Takk Féló í hafnarfirði. Þessa ömurlegu jólagjöf og megi jólin ykkar vera jafn ömurleg og mín.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Sigurður Orri nýr framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins

Sigurður Orri nýr framkvæmdastjóri Húseigendafélagsins
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina

Landlæknir í stríð við Persónuvernd og gerir alvarlegar athugasemdir við starfshættina
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Mölbrotnaði eftir að hafa hrasað um köttinn sem slapp ómeiddur

Mölbrotnaði eftir að hafa hrasað um köttinn sem slapp ómeiddur
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir Katrínu verða fyrir hatursfullum árásum – „Ein besta og heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst“

Segir Katrínu verða fyrir hatursfullum árásum – „Ein besta og heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst“