fbpx
Þriðjudagur 30.apríl 2024
Fréttir

Svona gæti Kalifornía öðlast sjálfstæði frá Bandaríkjunum

Sífellt fleiri kalla eftir sjálfstæði en framundan er grýtt og nánast ófær leið

Einar Þór Sigurðsson
Laugardaginn 11. febrúar 2017 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sífellt fleiri íbúar Kaliforníu, fjölmennasta ríkis Bandaríkjanna, kalla eftir því að ríkið öðlist sjálfstæði frá Bandaríkjunum. Þennan vaxandi stuðning má að mestu rekja til kjörs Donalds Trump í embætti Bandaríkjaforseta, en Kalifornía hefur verið eitt helsta vígi demókrata í áraraðir.

Kalifornía er langstærsta hagkerfi Bandaríkjanna og raunar eitt stærsta hagkerfi heims. Þannig var verg landsframleiðsla í Kaliforníu árið 2015 meiri en í ríkjum á borð við Frakkland, Indland, Ítalíu, Kanada, Brasilíu og Rússland. Það er því ljóst að mikið er undir.

Byrjaði með litlu tísti

Ákall um sjálfstæði Kaliforníu er í sjálfu sér ekki nýtt af nálinni, en eftir að Donald Trump var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember síðastliðnum urðu raddirnar háværari. Voru það einna helst stefnumál Trumps, til dæmis í innflytjendamálum, sem fóru fyrir brjóstið á íbúum ríkisins, en talið er að fjórðungur íbúa sé innflytjendur.

Auðjöfurinn og fjárfestirinn Shervin Pishevar, sem meðal annars á hlut í Airbnb og Uber í gegnum fjárfestingarfélag sitt, var í raun upphafsmaður þessarar hreyfingar sem vaxið hefur fiskur um hrygg að undanförnu. Hann sagði á Twitter-síðu sinni í aðdraganda forsetakosninganna að ef Donald Trump yrði kjörinn forseti myndi hann sjálfur fjármagna hreyfingu sem myndi berjast fyrir sjálfstæði Kaliforníu. Fleiri nafntogaðir einstaklingar og áhrifamenn úr tæknigeiranum stukku á vagninn og sýndu hugmyndinni áhuga.

Kalifornía yrði eins og Skotland

Örfáum dögum eftir að Pishevar setti færsluna á Twitter hafði henni verið deilt mörg þúsund sinnum; helstu fjölmiðlar Bandaríkjanna greindu frá málinu og í kjölfarið varð myllumerkið #Calexit eitt það vinsælasta á Twitter – endurómur af Brexit-hugtakinu sem tók til útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.

Að undanförnu hefur hreyfing um sjálfstæði Kaliforníu, Yes California Independence, orðið mjög virk og er baráttumál hennar að Kalifornía verði orðið sjálfstætt ríki innan fárra ára. Louis Marinelli, forseti Yes California, sagði í viðtali fyrir skemmstu að hann sæi Kaliforníu fyrir sér sem fullvalda ríki innan Bandaríkjanna. Það þýddi að Kalifornía yrði fyrir Bandaríkin eins og Skotland er fyrir Bretland. Samtökin safna nú undirskriftum vegna hugsanlegrar útgöngu Kaliforníu og stefna að því að íbúar Kaliforníu kjósi um sjálfstæðið árið 2019. Fyrst þyrfti þó að kjósa um breytingar á stjórnarskrá Kaliforníu sem kveður á um að ríkið sé „órjúfanlegur“ hluti Bandaríkjanna. Ef nógu margar undirskriftir safnast gætu þær kosningar farið fram á næsta ári.

Þriðjungur vill sjálfstæði

Að svo stöddu er þó óvíst með stuðning, en nýleg könnun Reuters/Ipsos leiddi í ljós að þriðjungur íbúa Kaliforníu vilji sjálfstæði. Þetta eru niðurstöður könnunar sem framkvæmd var í desember og janúar síðastliðinn en í sambærilegri könnun árið 2014 studdu 20 prósent svarenda sjálfstæði Kaliforníu.

Erfið barátta framundan

Þó að þær raddir sem kalla eftir sjálfstæði hafi orðið háværari á undanförnum mánuðum er ljóst að sjálfstæðisbarátta Kaliforníu gæti reynst erfið, jafnvel ómöguleg. Á sjöunda áratug 19. aldar lýstu ellefu af Suðurríkjum Bandaríkjanna yfir sjálfstæði og mynduðu hið svokallaða Suðurríkjasamband. Var eitt helsta baráttumál þeirra að viðhalda þrælahaldi í Bandaríkjunum. Norðurríkin, með Abraham Lincoln í broddi fylkingar, vildu afnema þrælahald og höfnuðu þau rétti Suðurríkjanna til aðskilnaðar. Í kjölfarið braust út stríð, Þrælastríðið svokallaða, sem endaði með sigri Norðurríkjanna. Síðan þá hefur umræða í þessa veru einna helst skotið upp kollinum í Texas-ríki þar sem repúblikanar hafa kallað eftir klofningi frá Bandaríkjunum þegar demókratar hafa verið við völd.

Safna undirskriftum

Marinelli sagði í samtali við CNBC á dögunum að sjö þúsund sjálfboðaliðar safni nú undirskriftum, en til að hægt verði að ganga til kosninga í Kaliforníu um málið þarf undirskriftir 585.407 manns. „Við teljum að það verkefni verði auðvelt. Kalifornía er sérstakur staður með sinn eigin kúltúr, eigin sögu, eigin einkenni og eigin hugmyndafræði,“ segir hann og bætir við að þess vegna eigi Kalifornía að öðlast sjálfstæði.

Þetta þyrfti að gerast

Sem fyrr segir eru þó mörg ljón í veginum áður en Kalifornía getur öðlast sjálfstæði. Í bandarísku stjórnarskránni er skýrt kveðið á um hvernig ríki geta orðið hluti af Bandaríkjunum, en ekki er kveðið á um útgöngu einstakra ríkja úr sambandslýðveldinu.

Cynthia Nicoletti, lagaprófessor við Virginia School of Law, segir við Business Insider að tvær leiðir séu færar fyrir Kaliforníu. „Það þarf stjórnarskrárbreytingar eða byltingu.“

Ef minnst helmingur kosningabærra manna gengur til kosninga árið 2019 og 55 prósent þeirra kjósa með útgöngu yrði litið á það sem skýran sjálfstæðisvilja af hálfu íbúa Kaliforníu. Ef niðurstaðan yrði þessi væri tvennt í stöðunni: Í fyrsta lagi gætu fulltrúar Kaliforníuríkis farið til Washington þar sem breytingar á stjórnarskránni væru lagðar til sem myndu heimila ríkinu að kljúfa sig frá Bandaríkjunum. Í öðru lagi væri hægt að kalla fulltrúa allra ríkja Bandaríkjanna saman þar sem kosið yrði um beiðnina. Í báðum tilfellum þyrfti Bandaríkjaþing þó að ganga til atkvæðagreiðslu um samþykkt eða synjun. Nicoletti segir að af öllu þessu virtu séu líkurnar á sjálfstæði Kaliforníu svo gott sem engar. „Síðast þegar ríki reyndu að kljúfa sig frá Bandaríkjunum urðu afleiðingarnar stríð,“ segir Nicoletti og vísar til Þrælastríðsins. Hún kveðst þó hafa litla trú á að afleiðingarnar nú verði jafn umfangsmiklar og þá – hugmyndin sé enda enn aðeins á byrjunarstigi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“

Inga Sæland ekki sátt: „Efri árin eiga að vera gæðaár en ekki tími kvíða og óörygg­is“
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“

Sigríður Dögg segir að RÚV þurfi að gera betur: „Lítilsvirðing gagnvart konum á ekki að líðast“
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið

Er þetta versta stefnumót sögunnar? Frábært kvöld þar til hún þurfti að fara á klósettið
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi

Mörg þúsund flugvélar hafa orðið fyrir alvarlegri truflun – Böndin beinast að Rússlandi
Fréttir
Í gær

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun

Jón Steinar studdi Arnar Þór en er búinn að skipta um skoðun
Fréttir
Í gær

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda

Að öllu óbreyttu verður þetta endanlegur fjöldi forsetaframbjóðenda