Finnbogi Vikar kom að nýjum starfsmanni stórslösuðum
„Ég sýndi honum fiskvinnsluna og svefnplássið. Ég skildi hann eftir í hálftíma og þegar ég kom til baka fann ég hann nánast örkumla á gólfinu. Hann var meðvitundarlaus, lærbrotinn og með sprungu í höfuðkúpu. Enginn veit hvað gerðist. Ég, maðurinn og læknir sem annaðist hann teljum að hann hafi orðið fyrir líkamsárás. Líkamsárás sem átti að beinast gegn mér.“
Þetta segir Finnbogi Vikar Guðmundsson um dularfullt mál sem átti sér stað aðfaranótt 24. mars síðastliðinn. Finnbogi hefur rekið fiskvinnslu á Vopnafirði frá árinu 2014. Þessa nótt var Finnbogi að sýna nýjum starfsmanni vinnsluna og verbúðina. Hann skildi starfsmanninn eftir einan í skamma stund. Þegar hann sneri til baka kom hann að manninum stórslösuðum á gólfi fiskvinnslunnar. Finnbogi segir lækni hafa tjáð honum að starfsmaðurinn hefði þurft að falla tvisvar úr mikilli hæð til að hljóta áverkana.
Við komu á sjúkrahús kom í ljós að auk sprungu í höfuðkúpu og lærbrots var blæðing hjá mænu og gagnauga. Röntgen sýndi brot á lærlegg nálægt mjaðmarlið. Finnbogi segir yfirvöld hafa varað hann við að fara með málið í fjölmiðla. Grunur gæti beinst að honum vegna málsins. Finnbogi gagnrýnir fálæti yfirvalda vegna þessa alvarlega máls og segir það samfélagslega skyldu sína að stíga fram. Hann sé óttasleginn fyrir sína hönd og annarra í bænum. Lögreglan verst frétta vegna málsins og segist ekki getað sagt til um hvort maðurinn hafi orðið fyrir líkamsárás eða dottið úr mikilli hæð. „Það er engin hæð til að detta úr í fiskvinnslunni,“ segir Finnbogi sem kveðst skelkaður vegna málsins.
Finnbogi, sem er frá Hveragerði, hóf rekstur á Vopnafirði árið 2014 til að vinna afla úr byggðakvótanum. Áður hafði hann verið á Bakkafirði. Flutti hann sig um set þegar hann uppgötvaði að mikill byggðakvóti væri á Vopnafirði en engin fiskvinnsla. Þar væri óplægður akur. Segir hann flesta heimamenn hafa tekið sér vel en efnaðir og sterkir heimamenn sem störfuðu í útgerð hefðu ekki verið hrifnir af uppátæki hans.
„Ég var handtekinn af lögreglunni á Vopnafirði fyrir húsbrot í eigið húsnæði þegar ég hélt fund með útgerðarmönnum. Ég fékk það á tilfinninguna að ég væri ekki velkominn en það eru líka margir á Vopnafirði sem hafa reynst mér vel og Vopnafjörður er ekki slæmur staður til að búa á, hér er einstaklega fallegt.“
Fiskvinnslan hefur aldrei verið stór í sniðum. Ástæðan, segir Finnbogi, er sú að þegar hann varð þess áskynja að útgerðarmenn vildu ekki selja honum afla úr byggðakvótanum hefði hann haldið að sér höndum og ekki ráðið fólk.
„Það er svo dýrt og vont að ráða fólk ef það er síðan ekkert að gera. Það væri slæmt fyrir alla og myndi bitna fyrst og fremst á starfsfólkinu. Það er engin skylda að vinna afla á staðnum og útgerðarmenn hér vildu óbreytt kerfi og ég kom og ruglaði það fyrir þeim. Það er erfitt að vera utanbæjarmaður í 500 manna samfélagi, sem er þó gott að mörgu leyti.“
Við komu á sjúkrahús kom í ljós að auk sprungu í höfuðkúpu og lærbrots var blæðing hjá mænu og gagnauga. Röntgen sýndi brot á lærlegg nálægt mjaðmarlið.
Finnbogi er umdeildur nokkuð. Hann hefur starfað í pólitík, verið í Frjálslynda flokknum og Borgarahreyfingunni. Þá hefur hann margoft tjáð sig um þá skoðun sína að nauðsynlegt sé að breyta fiskveiðikerfinu. Í samtali við DV segir hann ýmislegt hafa komið upp á eftir að hann hóf rekstur á Vopnafirði. Hann hafi verið kærður að ósekju fyrir mengun, dýraníð, morðhótanir og að brjóta lög um lögskráningu og tekinn fyrir húsbrot í eigið húsnæði af lögreglunni. Ýmislegt annað hafi gengið á á þessum tveimur árum fyrir austan. Segir Finnbogi öll málin hafa verið felld niður og sýnir blaðamanni skýrslu frá MAST því til staðfestingar að hundurinn hans hafi ekki verið á svæðinu þegar meint dýraníð hafi átt að eiga sér stað.
„Öll mál hafa verið felld niður, nema meint morðhótun er í farvegi hjá dómstól og mengunin er ennþá í rannsókn en það eru hafnaryfirvöld á Vopnafirði og lögreglan á Vopnafirði sem þrjóskast við að reyna að finna einhvern flöt á kæru í því máli. Áður en ég kom hingað á Vopnafjörð hafði ég ekki komist í snertingu við lögin nema fyrir hraðakstur og stöðumælasektir.“
Finnbogi bætir við að reynt hafi verið að brjótast inn í fiskvinnsluna að næturlagi. Hann hafi tilkynnt það til lögreglu en ekki lagt fram kæru. „Ég vildi bara starfa í friði.“ Þá kveðst Finnbogi hafa fengið morðhótun sem hann hafi á þeim tímapunkti ekki tekið alvarlega. Segist hann sjá eftir því nú að hafa ekki lagt fram kæru. Finnbogi bætir við að hann vilji ekki dvelja við átök við heimamenn. Hið dularfulla mál verði að leysast. Kveðst Finnbogi þess fullviss að ráðist hafi verið á starfsmanninn. DV hefur heimildir fyrir því að það komi fram í skýrslu læknis að líklegt sé að maðurinn hafi orðið fyrir líkamsárás.
Finnbogi segir að hann hafi skotist frá til að skutla föður sínum sem hugðist gista úti í sveit. Í leiðinni hafi hann ætlað að ná í rúmföt fyrir nýja starfsmanninn.
„Hann bað mig að skilja eftir ólæst svo hann gæti farið út að reykja og myndi ekki læsast úti. Það er ekki mögulegt að hann hafi dottið inni og fyrir utan var bátur. Hann hefði þurft að klifra upp í hann og henda sér helst tvisvar niður á sitthvora hliðina til að slasast með þessum hætti.“
Finnbogi hringdi í Neyðarlínuna og var maðurinn fluttur á spítala á Akureyri. Eftir skoðun komu meiðsli mannsins í ljós sem voru eins og fyrr segir, brotinn lærleggur og sprunga í höfuðkúpu. Maðurinn var með fulla meðvitund þegar hann var fluttur á spítalann. Samkvæmt heimildum DV man maðurinn þó ekkert eftir því sem gerðist. Eru næstu fimm dagar eftir þetta dularfulla atvik í móðu sem orsakaðist vegna blæðingar í heila.
„Það hringdi í mig læknir frá Akureyri daginn eftir sem spurði hvað hann hefði dottið úr mikilli hæð. Það var ekki hægt að detta úr neinni hæð. Miðað við hvernig hlutirnir hafa þróast hér á Vopnafirði þá tel ég að það hafi verið ráðist á hann. Þetta er afar einkennilegt. Var þetta tilviljanakennt eða ætlað mér? Ég tel að þetta hafi verið ætlað mér. Ég er viss um það. Því miður.“
Finnbogi segir að honum hafi verið bent á að hann gæti sjálfur legið undir grun ef hann væri að gera veður úr þessu máli. „Ég hugsaði fyrst að best væri fyrir mig að vera ekki að ýta við neinum steinum. Svo leið tíminn. Ég hef verið hræddur eftir þetta og fannst skylda mín gagnvart samfélaginu hér fyrir austan að vekja athygli á málinu.“
Hjá lögreglunni á Austurlandi fengust þær upplýsingar að málið hefði ratað inn á borð hjá embættinu og hefði verið til skoðunar. Ekki væri hægt að staðfesta að um slys væri að ræða eða útiloka líkamsárás.
Aðspurður hvort hann beri ábyrgð á því sem kom fyrir manninn, hvort hann hafi veitt honum þessa alvarlegu áverka svarar Finnbogi að maðurinn hafi ætlað að fara með honum á grásleppu. „Ég hef lítið verið að gera út eða vinna síðan þetta kom fyrir. Þetta hafði þau áhrif að ég dró mig inn í skel. Mér finnst skylda mín að vekja athygli á málinu. Kannski sá einhver hvað gerðist. Ég get fengið yfir mig alls konar skít út af þessu en ef ég þarf að liggja undir grun fyrir það hjá örfáum manneskjum verður bara að hafa það.“