Unnið á sólarhringsvöktum eftir að framkvæmdir hefjast
Stefnt er að því að framkvæmdir á vegum Costco vegna opnunar við Kauptún í Garðabæ geti hafist í byrjun júnímánaðar. Ef allt gengur eftir mun verslunarrisinn stefna á það að opna verslunina í lok nóvember næstkomandi.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir að Skipulagsstofnun hafi samþykkt á dögunum nýtt deiliskipulag fyrir svæðið, en það gerir meðal annars ráð fyrir bensínstöð við verslunina.
Ráðast þarf í miklar framkvæmdir vegna komu verslunarinnar hingað til lands og samkvæmt frétt Morgunblaðsins má vænta þess að unnið verði á sólarhringsvöktum eftir að framkvæmdir hefjast.
Framkvæmdastjóri Costco í Bretlandi hefur látið hafa eftir sér að 160 manns verði ráðnir til starfa þegar verslunin opnar, en þeir verði um 250 talsins eftir þrjú ár.