

Það er vandasamt að vera hipster, því það sem nýtur velþóknunar hipstera er afskaplega breytilegt. Það sem er hip í dag gæti orðið útbreitt i Garðabæ í næstu viku, svo ljóst er að hér er vandi á höndum.

Fáðu þér kaffið úr glæru glasi AÐ LÁGMARKI. Viljir þú fara alla leið skaltu hiklaust drekka það úr krukku.

Ef þig vantar eitthvað í eldhúsið, farðu þá fyrir alla muni EKKI í IKEA heldur Góða hirðinn.

Gerðu þér grein fyrir því að grænkál og rauðrófur er komið í meginstrauminn. Til að vera hip er fólk núna að hugsa aftur í tímann og vinna með gömlu góðu rófuna.

Allir, já ALLIR, eru fluttir til Berlínar. Það er allt of venjulegt. Ef þú vilt halda hipsterastatus í lagi er vissara að flytja bara til Tene – á kaldhæðinn hátt sko.

Farðu út að borða í úthverfi. Mest badass er að velja Breiðholtið. Taktu strætó eða farðu á fixie-hjólinu þínu.

Ef þú hefur áhuga á pólitík er eina vitið að ganga í Alþýðufylkinguna. Þar fær ljós þitt að skína – ólíkt því sem þú hefur upplifað á Pírataspjallinu.

Sannur hipster syndir á móti straumnum. Nú er rétti tíminn til að plana ferðalag til Bandaríkjanna – OG EKKI TIL PORTLAND!

ÚR LOPAPEYSUNNI – hún er ekki vegan! Capisce?

Ok ætlarðu út að skemmta þér? Miðbærinn er ALLT of pakkaður af Goretex-liðinu svo þú skalt bara fara á Hvíta riddarann í Mosó – það væri metnaður.