Hin hreinskilna Sharon Osbourne stendur með manni sínum
„Við höfum lifað allt af, drykkju, dóp og núna kvennafar hans. Næst á hann eftir að vilja verða kona, hver veit?“ sagði Sharon Osbourne nýlega í viðtali við Sunday Times og var þar að ræða hjónaband sitt. Eiginmaður hennar, Ozzy, hefur reglulega verið til vandræða og fór nýlega í meðferð vegna kynlífsfíknar eftir að upp komst um viðamikið framhjáhald hans. Hjónin hafa verið gift síðan 1992 og Sharon hefur sagt að skilnaður sé útilokaður. Þeir sem til þekkja segja að Ozzy sé mjög háður konu sinni og nánast ósjálfbjarga án hennar. „Hann vill vinna í vandamálum sínum, við sjáum til,“ segir Sharon heimspekilega
Sharon, sem er 63 ára, glímir við fleiri vandamál en ótrúan eiginmann, en hún hefur barist við þunglyndi síðustu tvo áratugi og gengur til sálfræðings. „Ég hugsa til þunglyndis míns og innri baráttu og hugsa með mér: „Í guðanna bænum, hvenær lýkur þessu? Hvenær verða hlutirnir venjulegir?“ Sennilega verða þeir það aldrei,“ segir hún.
Sharon er meðal dómara í The X Factor í Bretlandi og meðal þáttastjórnenda í spjallþætti á CBS, The Talk. Spurð um samskiptin við meðdómara sinn í The X Factor, Simon Cowell, sem stundum hafa verið átakamikil, segir hún: „Á þeim þrettán árum sem við höfum unnið saman höfum við bæði breyst mjög mikið, að því er mér finnst á jákvæðan hátt. Ego okkar er ekki jafn mikið og áður.“
Osbourne-hjónin eru vellauðug og Sharon segist eyða peningum sínum í skartgripi og 18. aldar málverk. Dágóðar summur fara svo í lýtaaðgerðir, en Sharon hefur aldrei farið í felur með þær.
Hún er þekkt fyrir hreinskilni sína og vandar Donald Trump ekki kveðjurnar. Hún er hins vegar hrifin af eiginkonu hans, Melaniu, sem hún segir stórglæsilega konu. „Ég vorkenni henni, sérstaklega vegna þess að hún þarf að hafa „þetta“ ofan á sér á hverju kvöldi. Trump er viðbjóðslegur,“ segir Sharon.