fbpx
Mánudagur 05.maí 2025
Fókus

Sigruðust á krabbameini

Átta leikarar sem greindust með krabbamein en læknuðustu – Sáu lífið í nýju ljósi

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 15. september 2016 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mark Ruffalo

Tegund: Heilaæxli
Árið 2001 dreymdi leikarann að hann væri með æxli í höfðinu. Hann fékk málið á heilann, ef svo má segja, og leitaði til læknis. Draumurinn reyndist sannur. Hann hélt fréttunum fyrir sjálfan sig í fáeinar vikur og gaf ekki út yfirlýsingu fyrr en konan hafði fætt honum barnið sem hún gekk með undir belti. Hann fór svo í aðgerð, sem heppnaðist fullkomlega. „Þetta breytti viðhorfi mínu til lífsins,“ sagði hann við Guardian, þegar hann hafði náð sér.


Hugh Jackman

Tegund: Húðkrabbamein
Árið 2013 varð Jackman var við sérkennilegan blett á nefinu. Bletturinn reyndist vera húðkrabbamein, eða flöguþekjukrabbamein, en það var eiginkona hans, Deborra-Lee Furness, sem neyddi hann til þess að fara í skoðun hjá lækni. Hann hefur síðan reynt að stuðla að vitundarvakningu um húðkrabbamein. „Í guðanna bænum notið sólarvörn,“ skrifaði hann á Instagram.


Christina Applegate

Tegund: Brjóstakrabbamein
Móðir leikkonunnar greindist með brjóstakrabbamein og sigraðist á því. Þess vegna fór Christina í árlegar skoðanir þar að lútandi. Árið 2008 fór hún í segulómun og greindist í kjölfarið með krabbamein í brjósti. Hún lét í kjölfarið fjarlægja bæði brjóstin og hefur síðan vakið máls á því að konur fari reglulega í skoðanir. Hún stofnaði samtökin Right Action for Women, sem bjóða konum í áhættuhópi upp á ókeypis skoðanir. „Ég fékk óseðjandi þörf fyrir að koma öðrum í sömu stöðu til hjálpar,“ sagði hún við WebMD.


Edie Falco

Tegund: Brjóstakrabbamein
Hún var greind þegar hún fór með hlutverk Carmelu í The Sopranos. Hún hélt ástandinu leyndu, jafnvel á meðan hún undirgekkst lyfjameðferð. „Þegar ég sá fram á að lifa þetta af fann ég þörf til að endurhugsa líf mitt. Ég var fertug og einhleyp en langaði að stofna fjölskyldu. Þess vegna hóf ég ferli til að ættleiða barn.“


Mynd: Mynd Reuters.

Michael C. Hall

Tegund: Eitilfrumuæxli
Hall var 38 ára gamall, árið 2010, þegar hann greindi frá því að hann væri með það sem kallast Hodgkin’s lymphoma, eða eitilfrumuæxli. Á þeim tímapunkti hafði hann nánast lokið meðferð á meininu. Hann sneri skjótt aftur og hélt áfram að leika raðmorðingjann Dexter í samnefndum þáttum. Hann var djúpt snortinn af þeim stuðningi sem hann fékk frá áhangendum. „Þetta kennir mér að vera þakklátur fyrir það sem ég hef,“ sagði hann við ABC News.


Tom Green

Tegund: Krabbamein í eista
Í maí árið 2000 birti MTV „The Tom Green Cancer Special“. Um var að ræða stuttmynd um baráttu leikarans við krabbamein í eista. Þar mátti meðal annars sjá nærgöngult myndefni af skurðaðgerðinni sem hann undirgekkst. „Það undarlega er hvað þetta gekk allt hratt fyrir sig. Á þremur mánuðum greindist ég með krabbamein, losnaði við krabbamein og náði ég mér af krabbameini,“ sagði hann við US magazine. „Og sannleikurinn er sá að ég hef ekki krabbamein í dag.“


Wanda Sykes

Tegund: Brjóstakrabbamein
Wanda greindist með frumubreytingar í brjósti eftir reglubundna skoðun 2011. Hún varð mjög skelkuð enda er saga um krabbamein í móðurættinni. Hún fór því í tvöfalt brjóstnám. „Ég vildi bara hámarka líkurnar á að lifa,“ sagði hún við tímaritið People. „Ég tók þessa ákvörðun því ég elska lífið.“


Mr. T

Tegund: T-cell veirusýking
Árið 1995 var þessi litríki leikari og fyrrverandi bardagamaður að fjarlægja hring úr eyra. Þá fann hann hnúð. „Trúið þið þessu?“ spurði hann í viðtali við Coping magazine, „Krabbamein sem heitir það sama og ég.“ Hann greindist í nokkur skipti með æxli áður en hann læknaðist. „Ég kenni í brjósti um þá sem gefast upp,“ sagði hann síðar um krabbameinið. „Við deyjum öll á endanum en ekki vera aumingi. Maður á að berjast.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

United horfir til Mbeumo