Cameron Douglas, sonur bandaríska leikarans Michael Douglas, er laus eftir að hafa setið í fangelsi í tæp sjö ár. Cameron átti raunar ekki að losna úr fangelsi fyrr en árið 2018.
Óhætt er að segja að líf Camerons, sem er 37 ára, hafi ekki verið dans á rósum undanfarinn áratug eða svo. Árið 2010 var hann dæmdur í fimm ára fangelsi fyrir fíkniefnasölu en hann hlaut svo annan dóm þegar hann hugðist smygla heróíni og lyfseðilsskyldum lyfjum inn í fangelsið þar sem hann afplánaði. Dómari skellti fjögurra og hálfs árs dómi ofan á fimm ára dóminn sem hann hafði fengið.
Í umfjöllun New York Post sem fjallar um málið kemur fram að Cameron hafi dvalið um tíma í einangrun eftir að þvagsýni leiddi í ljós að hann hafði neytt fíkniefna í fangelsinu. Þá lærleggsbrotnaði hann í fangelsinu, en grunur leikur á að hann hafi orðið fyrir líkamsárás.
Samkvæmt heimildarmanni New York Post dvelur Cameron nú í New York og segir heimildarmaður blaðsins að hann hafi í hyggju að skrifa bók um reynslu sína. Cameron er eini sonur Douglas sem hann eignaðist með Diandrö Douglas, en þau voru gift í 22 ár. Í dag er Michael kvæntur leikkonunni Catherine Zeta-Jones.