Mátti ekki fara neikvæðum orðum um Trump
Söngvaranum Justin Bieber var á dögunum boðnar tæpar 600 milljónir króna fyrir að halda tónleika í tengslum við landsfund Repúblikana í Bandaríkjunum. Að sögn TMZ hafnaði Bieber tilboðinu en umboðsmaður söngvarans er sagður dyggur stuðningsmaður Hillary Clinton.
Bieber var boðið að halda 45 mínútna langa tónleika, sagt að þátttaka hans yrði ópólitísk og að hann þyrfti ekki að lýsa yfir stuðningi við Repúblikana, en mætti hins vegar ekki fara neikvæðum orðum um forsetaframbjóðandann Donald Trump. Þetta hefði verið stærsta greiðsla sem Bieber hefði nokkur tíma þegið fyrir staka tónleika.
Þar sem Justin Bieber hafnaði tilboðinu var vinsælasta tónlistaratriðið á landsfundinum hljómsveitin Third Eye Blind – sem notaði tækifærið til að gagnrýna stefnu Repúblikana við dræmar undirtektir viðstaddra.
Landsfundur Demókrata skartaði hins vegar fjölda stjarna, þar á meðal Katy Perry, Alicia Keys, Lenny Kravitz, Demi Lovato og Paul Simon.