Zara Holland sængaði hjá þátttakenda í Love Island
Zara Holland, sem kjörin var Ungfrú Bretland síðastliðið haust ,hefur verið svipt titlinum. Ástæðan er sú að Zara stundaði kynlíf í vinsælum raunveruleikaþætti á ITV2-sjónvarpsstöðinni.
Þessi tvítuga stúlka er meðal þátttakenda í raunveruleikaþættinum Love Island, en önnur þáttaröð þeirra fór í loftið fyrir skemmstu. Í þættinum sem sýndur var í vikunni sást myndbrot af því er Zara stundaði kynlíf með öðrum þátttakenda, hinum 24 ára Alex Bowen, og það var eitthvað sem aðstandendur Miss Great Britain-keppninnar gátu ekki sætt sig við.
Í yfirlýsingu sem aðstandendur keppninnar sendu frá sér kemur fram að það sé ætlast til þess að þeir sem taka þátt í keppnum á vegum Miss Great Britain – og einna helst þeir sem sigra keppnina – eigi að vera góðar fyrirmyndir. Mun Deone Robertson, sem lenti í 2. sæti í keppninni, taka við skyldum Zöru þar til í haust.
Í þættinum var sýnt viðtal við Zöru sem tekið var daginn eftir nóttina örlagaríku. Þar sagðist Zara hafa valdið sjálfri sér vonbrigðum með hegðun sinni. „Þetta bara gerðist. Þetta er ekki líkt mér. Af hverju gátum við ekki bara farið að sofa?,“ sagði hún.