Stórstjarna á samfélagsmiðlum – Milljónir fylgjenda
Hún er 88 ára gömul, átta barna amma og þriggja barna langamma, en gefur skít í staðalmyndir um ömmur og aldurhnignar konur. Helen Ruth Elam Van Winkle fæddist þann 18. júlí árið 1928 en hún er yfirleitt kölluð Baddiewinkle og er rísandi stjarna í heimi samfélagsmiðla.
Í stað þess að steikja kleinur og prjóna sokka hefur þessi aldraða amma og langamma ákveðið að helga tíma sinn tísku og almennu flippi á samfélagsmiðlum síðustu fjögur árin. Kjörorð hennar eru „Stealing your man since 1928“, en það sem helst einkennir myndir hennar og framgöngu er klæðnaður sem er langt yfir meðallagi litríkur og yfirlýsingagleði varðandi lögleiðingu kannabisefna í lækningaskyni. Hún á heima í Knoxville, Tenessee, en ævintýrið byrjaði þegar Baddie prófaði að klæða sig upp í föt eins langömmubarnsins og fékk svo hjálp við að setja mynd af sér á Twitter.
Þegar stórstjarnan Rihanna byrjaði að fylgja Baddiewinkle fóru hjólin að snúast og fljótlega náði fjöldi fylgjenda fyrstu milljóninni. Nú er hægt að finna Baddie á Twitter, Instagram og Snapchat undir heitinu @baddiewinkle.
Baddie er með meira en tvær milljónir fylgjenda á Instagram, þar sem hún birtir reglulega myndir og myndbönd af sér. Hún er tíður gestur á verðlaunahátíðum og í spjallþáttum af ýmsu tagi og varla þarf að minnast á að það þykir mjög smart að láta sjá sig með henni á mannamótum.