Hjartnæmt myndband sem sýnir dauðvona konu kveðja hundinn sinn í hinsta sinn hefur farið eins og eldur í sinu um samfélagsmiðla síðustu daga. Þar sést hin 49 ára Rebane Chili, sem er með krabbamein á lokastigi, kveðja besta vin sinn, sem heitir Ritchie, til margra ára.
Sonur Rebane, sem er brasilísk, kom með hundinn á sjúkrahúsið þar sem móðir hans dvelur. Hennar hinsta ósk var að fá að hitta hann og kveðja almennilega en hún á skammt eftir ólifað.
Rebane hefur barist við krabbamein lengi en hún tók ákvörðun um að hætta allri meðferð fyrr í sumar. Rebane dvelur á sjúkrahúsi í borginni Porto Alegre og á ekki von á því að útskrifast þaðan aftur. Það var henni því mikið hjartans mál að fá að kveðja hundinn. Líkt og sjá má í myndbandinu voru endurfundirnir yndisleg stund og vöktu mikla athygli starfsfólks sjúkrahússins sem fylgdist með því þegar Ritchie stökk í fang eiganda síns.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=chGDSc5i-h0&w=640&h=360]