fbpx
Þriðjudagur 29.nóvember 2022
Fókus

Maður átti að fá sér „alvöru“ vinnu

Ragnar Bragason leikstjóri í viðtali um feðraveldið, Fanga, úrelt kerfi og bjarta framtíð komandi kynslóða.

Margrét Gústavsdóttir
Þriðjudaginn 27. febrúar 2018 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Næturvaktin, Dagvaktin, Fangavaktin, Gullregn, Risaeðlurnar, Óskasteinar, Bjarnfreðarson, Fíaskó, Fangar. Sem betur fer fann Ragnar Bragason sína fjöl í lífinu þrátt fyrir að hafa aldrei kunnað við sig í skóla enda hefur þessi afkastamikli leikstjóri glatt Íslendinga með sögum sínum og verkum í tæp tuttugu ár.

Margrét H. Gústavsdóttir hitti Ragnar í kaffi á Kjarvalsstöðum á heldur regnvotum degi í vikunni sem leið. Þrátt fyrir þungbúinn himin var leikstjórinn kampakátur enda ferillinn í miklum blóma. Fangar fengu fjórtán tilnefningar til Eddu sem er einsdæmi fyrir sjónvarpsseríu, Risaeðlurnar ganga enn fyrir fullu húsi í Þjóðleikhúsinu og um morguninn bárust honum fréttir þess efnis að kvikmyndasjóður ætli að styrkja kvikmynd byggða á leikriti hans Gullregni, allt í toppstandi!

Heillaðist af Wild at Heart og Sódómu Reykjavík

Fyrsta reynsla Ragnars af kvikmyndagerð var hálf tilviljanakennd. Hann var tvítugur og býsnaðist við að klára stúdentspróf frá Fjölbrautaskólanum í Ármúla sem gekk ekki sérlega vel. Þar mætti til leiks Anna nokkur Magnúsdóttir en sú starfar í dag sem kvikmyndaframleiðandi í Svíþjóð. Anna kenndi stuttan valáfanga við kvikmyndagerð í skólanum og þar fann Ragnar köllun sína þar sem hann leikstýrði og skrifaði handritið að sinni fyrstu stuttmynd.

„Ég hafði ekkert vit á kvikmyndagerð þegar ég skráði mig í þennan áfanga hjá Önnu. Jú, ég horfði á bíómyndir eins og aðrir, en fram að þessu hafði ég ekki ímyndað mér að kvikmyndagerð væri eitthvað sem maður gæti raunverulega starfað við,“ rifjar hann upp og bætir við að um svipað leyti hafi myndirnar Sódóma Reykjavík og Wild at Heart haft mikil áhrif á þá ákvörðun hans að vilja starfa á þessum vettvangi. Þær voru báðar gerðar af Íslendingum, – Sódómu Reykjavík var leikstýrt af Óskari Jónassyni, sem þá hafði nýlokið kvikmyndagerðarnámi í Englandi, og Sigurjón Sighvatsson framleiddi Wild at Heart hvar hinn eftirminnilegi ofurtöffari Nicolas Cage fór með hlutverk Sailors Ripley í snákaskinnsjakkanum fræga.

Wild at Heart og Sódóma Reykjavík höfðu mikil áhrif á Ragnar sem ákvað að gerast leikstjóri eftir að hafa hrifist af þessum myndum.
Fór fimm sinnum á Wild at Heart Wild at Heart og Sódóma Reykjavík höfðu mikil áhrif á Ragnar sem ákvað að gerast leikstjóri eftir að hafa hrifist af þessum myndum.

„Ég fór fimm sinnum í bíó til að sjá hana enda breytti hún einhverju hjá mér og það sama gilti um Sódómu. Með þessum myndum fannst mér íslensk kvikmyndagerð taka stefnubreytingu enda höfðuðu þær báðar til yngri kynslóða og áttu þannig erindi við mig. Ég tengdi við þær og Óskar og Sigurjón urðu að einhvers konar fyrirmyndum sem gáfu mér von um að kvikmyndaleikstjórn væri eitthvað sem maður gæti raunverulega lagt fyrir sig.“

Fjölbreyttar fyrirmyndir og kerfin sem henta ekki öllum

Ragnar leit dagsins ljós þann 15. september árið 1971. Hann sleit barnsskónum vestur á Súðavík og er elstur þriggja bræðra. Fjölskyldan flutti í Mosó þegar Ragnar var ellefu ára og þar kláraði hann grunnskóla. Eftir það lá leiðin í Verslunarskólann í tvö ár en Ragnar fann sig ekki í því námi og skráði sig í Fjölbrautaskólann í Ármúla þaðan sem hann lauk stúdentsprófi. Hann þakkar það góðvild kennara sinna að hann fékk að ljúka stúdentsprófinu því öflugur námsmaður hafi hann aldrei verið.

„Mér leið aldrei vel í skóla og það er í raun ástæða þess að ég fór ekki í framhaldsnám við kvikmyndagerð. Ég átti alltaf mjög erfitt með að sitja og gera eitthvað sem ég hafði engan áhuga á. Bókfærsla, danska og stærðfræði … og eitthvað þess háttar. Mér fannst þetta algjör tímasóun. Ég beit það hins vegar í mig að ég þyrfti að klára stúdentsprófið og þakka það góðmennsku kennara minna að það tókst því ég náði ekki öllum prófunum. Oft átta kennarar sig vel á því hvað hentar krökkum en fá ekki endilega að gera eitthvað í því þar sem kennarar þurfa að starfa samkvæmt ríkjandi hefðum í menntakerfi sem hentar alls ekki öllum. Fæst börn sækja í það að sitja kyrr í fimmtíu mínútur og læra stærðfræði. Það eru frekar undantekningar.“

Fjölbreyttar fyrirmyndir eru visst hugðarefni leikstjórans en sjálfur ólst hann upp á hefðbundnu íslensku sjómannsheimili og átti enga ættingja sem störfuðu við listsköpun. Umhverfið í Súðavík var einnig fremur menningarsnautt og ekki mikil hvatning þar. Tíu ára gamlar bíómyndir voru sýndar í Félagsheimilinu tvisvar í viku en tónleikar, leiksýningar og þess háttar uppákomur voru öllu sjaldgæfari.

„Það voru engir listamenn í minni fjölskyldu þegar ég var að alast upp og þannig átti ég engar slíkar fyrirmyndir. Afi minn Ragnar var reyndar mjög listhneigður en hann lést þegar ég var um átta ára. Sá fæddist upp úr þar síðustu aldamótum. Átti fjölda barna og starfaði sem útvegsbóndi en var öflugur í leikfélaginu á öllum þorrablótum þar sem hann bæði leikstýrði og lék. Svo gaf hann út tvær eða þrjár ljóðabækur en auðvitað var þetta alltaf bara hobbí hjá honum. Ef þessi maður hefði fæðst sjötíu árum síðar er ekki ólíklegt að hann hefði bara orðið leikari eða rithöfundur en gamla Ísland var ekki mjög opið fyrir slíku. Listamenn? Það var bara mjög skrítið fólk, Kjarval og einhverjir sérvitringar sem ráfuðu um með penslana sína. „Bókvitið verður ekki í askana látið.“ Það var alltaf viðhorfið. Maður átti að fá sér „alvöru“ vinnu.“

Beinir kastaranum að misbrestum í samfélaginu

Í dag eru eflaust mjög margir sem fagna því að Ragnar fékk sér aldrei „alvöru“ vinnu heldur lagði leikstjórnina fyrir sig. Vaktaserían og myndirnar Börn og Foreldrar slógu rækilega í gegn á sínum tíma og það sama gildir um Fanga sem hefur slegið öll met með fjórtán tilnefningum til Edduverðlaunanna eins og áður kom fram.

Með verkum sínum hefur Ragnar gjarna leitast við að segja sögur nútíma Íslendinga sem eru svolítið utangarðs enda þykir honum mikilvægt að fjölbreyttar raddir fái að heyrast. Þannig gefist fleira fólki jafnframt tækifæri til að endurspegla sjálft sig í listinni og það sé helsti tilgangur hennar. Hvort fólk nær að upplifa þessa tengingu í gegnum tónlist, bókmenntir eða kvikmyndir gildi einu. Aðal tilgangurinn sé þessi tilfinningalega huggun, skilningur og jafnvel gleði sem felst í því að mynda sterka tengingu við listir og sjá sjálfa/n sig endurspeglast í þeim.

Fangar hafa nú hlotið fjórtán tilnefningar til Edduverðlauna sem er einsdæmi í sögu hátíðarinnar. Það kom Ragnari á óvart hversu auðvelt reyndist að fjármagna gerð þáttanna en hann segir mikla alþjóðlega eftirspurn eftir sögum sem byggja á reynsluheimi kvenna á Norðurlöndum.
Fjórtán tilnefningar til Edduverðlauna Fangar hafa nú hlotið fjórtán tilnefningar til Edduverðlauna sem er einsdæmi í sögu hátíðarinnar. Það kom Ragnari á óvart hversu auðvelt reyndist að fjármagna gerð þáttanna en hann segir mikla alþjóðlega eftirspurn eftir sögum sem byggja á reynsluheimi kvenna á Norðurlöndum.

„Hvað er list? Í flestum tilvikum endurspeglar hún samfélagið og listamaðurinn hefur þann tilgang að beina kastaranum að misbrestum eða því sem er í ólagi í kerfinu hjá okkur. Gagnrýna og hrista upp í hlutunum. Með Fanga … af hverju endar fólk í fangelsi? Hvar eru brestirnir í samfélaginu? Hvar byrjar þetta? Jú, auðvitað í uppeldinu og æskunni. Ef þér líður eins og þú sért ein og utangátta að burðast með einhverja sektarkennd til dæmis, en nærð svo að spegla þig í sjónvarpsþáttum, kvikmynd, tónlist eða bara ljósmyndun þá er tilgangi listarinnar náð. Þetta með að bókvitið verði ekki í askana látið og af hverju færðu þér ekki alvöru vinnu … allt þetta rugl og þessi árlega gagnrýni á listamannalaunin, þetta lið … og eitthvað svona. Ég verð svo sorgmæddur yfir þessu. Það er eins og allt of margir átti sig ekki á því að ef við nærumst ekki andlega í gegnum okkar eigin menningu þá sækjum við bara í eitthvað annað. Það er eins og allt of margir sjái ekki ennþá tenginguna á milli lista og eigin lífs,“ segir hann og bætir við að þau sem stóðu að Föngum hafi fengið mögnuð viðbrögð frá alls konar fólki sem hefur séð þættina og upplifað sterkar tilfinningar við það:

„Bara síðast í gær fékk ég tölvupóst frá konu sem hafði horft á þættina með ættingja sínum og eitthvað óþægilegt, sem hafði verið þaggað niður í áratugi flaut upp á yfirborðið með tilheyrandi hreinsun. Þetta er það sem skiptir listamenn máli. Að tíminn, ástin og alúðin sem maður leggur í verkin skili sér í svona áhrifum og viðbrögðum. Að það sem maður gerir hafi góð og uppbyggileg áhrif á líf annarra.“

Kom á óvart hversu auðvelt reyndist að fjármagna gerð Fanga

Þegar Ragnar lítur um öxl og rifjar upp fyrstu ár sín í bransanum segir hann þau hafa verið óttalegt basl. Frá 1992 til 1999 gerði hann aðallega tónlistarmyndbönd og auglýsingar og gaf stundum vinnuna sína enda leit hann svo á að hann þyrfti að ná sér í reynslu. Þegar skuldirnar urðu of háar skellti hann sér í einn eða tvo túra á frystitogara og hélt svo áfram að gera bíó. Árið 1999 frumsýndi hann sína fyrstu kvikmynd í fullri lengd en hann skrifaði bæði handritið og leikstýrði. Myndin, sem heitir Fíaskó, fjallar um ástalíf þriggja kynslóða eina vetrarnótt í Reykjavík og Ragnar segist hafa verið í sjö ár að gera þennan draum að veruleika enda ekkert grín fyrir ungan, ómenntaðan leikstjóra að ráðast í að gera mynd í fullri lengd. Uppgangur í íslenskri kvikmyndagerð var rétt að byrja en þrátt fyrir það var lítið um nauðsynlegan stuðning enda framkvæmdin kostnaðarsöm og þá sérstaklega fyrir tíma stafrænu tækninnar.
„Einu sinni á ári var úthlutað úr Kvikmyndasjóði í eitt eða tvö verkefni en í dag er þetta allt annað líf og unga fólkið þarf ekki að basla eins mikið í þessu og fyrri kynslóðir. Það er mikið framleitt af innlendu efni og sífellt fleiri sem starfa í greininni, bæði konur og karlar, sem gerir fyrirmyndirnar fleiri og öflugri. Íslensk kvikmyndagerð er ekki lengur eitthvert sumarhobbí fyrir grunnskólakennara heldur öflug atvinnugrein sem hægt er að hafa lifibrauð sitt af.“
Ragnar segist finna mikið fyrir aukinni eftirspurn eftir sjónvarpsefni og kvikmyndum frá Norðurlöndum. Þegar þau fóru af stað með Fanga hafi þau verið svolítið efins um að dæmið myndi ganga upp enda var þetta ekki glæpasería í hinum geysivinsæla „nordic noir“ stíl heldur drama um konur í fangelsi á Íslandi.

„Kynbundið ofbeldi og þess háttar. Maður reiknaði ekki með að það yrði auðvelt að fjármagna þetta en svo kom á daginn að það var gríðarlegur áhugi fyrir þessu. Í fyrsta lagi var gerð krafa um hið kvenlæga, að segja sögur kvenna, og svo hefur norrænt sjónvarpsefni átt gríðarlegum vinsældum að fagna upp á síðkastið. Það er eftirspurn eftir þessu um allan heim. Ef maður er með gott handrit og gott lið með sér þá er allt hægt.“

Leiknir íslenskir sjónvarpsþættir eru orðnir alþjóðleg söluvara

Talandi um breytingar og nýja tækni. Nú er hægt að horfa á Fanga á Netflix og sem nær til umtalsvert stærri áhorfendahóps enda flest heimili á Vesturlöndum með áskrift að þessari efnisveitu. Þetta hlýtur að opna á fleiri tækifæri enda útvíkkaðar kvíar ef svo þjóðlega mætti að orði komast?

„Svo sannarlega. Leiknar íslenskar þáttaraðir voru ekki alþjóðleg söluvara þegar ég var að byrja á þessu fyrir fimmtán árum. Það kom kannski ein á tíu ára fresti og ég held að ég sé að fara með rétt mál þegar ég segi að Næturvaktin hafi verið fyrsta íslenska þáttaröðin sem var seld til BBC. Þegar við réðumst í að gera Fanga þá forseldum við þættina meðan þeir voru enn á handritastigi. Allar norrænu sjónvarpsstöðvarnar keyptu sýningarréttinn sem og pólska sjónvarpið og Netflix fyrir Norðurlönd. Nýlega lönduðum við svo dreifingarsamningi við AMC, sem framleiddi meðal annars Mad Men og fleiri góða þætti. Þau ætla að dreifa Föngum í enskumælandi löndum; Bretlandi, Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og Ástralíu og nú þegar hafa þættirnir verið sýndir á spænsku Sundance-stöðvunum. Ófærð og Réttur fengu líka mjög góða dreifingu og allt hefur þetta góð áhrif á verkefnastöðu framtíðarinnar.“

Ragnar segir tækniframfarirnar ekki bara hafa haft góð áhrif þegar kemur að netinu og dreifingu á efni. Sjónvarpstækin á heimilum almennings eigi meira skylt við breiðtjöld kvikmyndahúsanna. Sumir með allt að 100 tommu tæki inni í stofu og allt í háskerpu upplausn. „Þetta er ekki eins og þegar maður sjálfur var að alast upp með nefið ofan í tuttugu tommu svarthvítum túbuskjá,“ segir hann og hlær.

„Neysluvenjur okkar eru að breytast og sjónvarpsefni verður sífellt vinsælla sem afþreying. Fólk er með símana sína og spjaldtölvur að horfa á sjónvarpsþætti og finnst ekkert tiltökumál að horfa kannski á fimm þætti á einum degi í jafn marga klukkutíma. Ef maður myndi stinga upp á að horfa á fimm tíma bíómynd yrði hins vegar ekki tekið sérstaklega vel í það held ég,“ segir hann og skellir upp úr.

„Netflix og aðrar efnisveitur hafa gert það að verkum að góðir handritshöfundar sækja meira í að skrifa efni fyrir sjónvarp. Hér áður var oft litið á sjónvarpsefni sem óæðra form en kvikmyndir en þetta er breytt í dag eins og sést til dæmis á þessum tilnefningum Fanga til Edduverðlaunanna á sunnudaginn. Ekkert verk hefur fengið svona margar tilnefningar hingað til og fyrir okkur er þetta mikill heiður.“

Feðraveldið, karlaklíkurnar og úreltu kerfin þeirra sem engjast um í dauðateygjum

Leikstjórinn hefur ekki bara skrifað handrit fyrir sjónvarp og kvikmyndir heldur einnig leikhús. Gullregn var sett upp í Borgarleikhúsinu árið 2012, Óskasteinar árið 2014 og Risaeðlurnar hafa gengið fyrir fullum sal í Þjóðleikhúsinu síðasta leikárið. Þar segir frá sendiherrahjónum í Bandaríkjunum sem bjóða ungri listakonu og unnusta hennar til hádegisverðar. Hjónin, sem eru fremur uppskrúfuð, bjóða upp á íslenskan mat og vel af áfengi og svo fer hádegisverðurinn auðvitað alveg úr böndunum, svona eins og gengur og gerist í leikritum.

„Risaeðlurnar spruttu upp úr því að fyrir allmörgum árum var mér var boðið til hádegisverðar í ónefnt sendiráð og mér fannst þessi heimur alveg stórmerkilegur. Þetta var eins og að vera færður nokkra áratugi aftur í tímann og upp úr heimsókninni fóru af stað miklar vangaveltur hjá mér um öll þessi karllægu kerfi og hvernig þeim er viðhaldið. Íslensk utanríkisþjónusta var auðvitað bara smíðuð í kringum hagsmuni einhverrar karlaklíku og það sama má segja um mörg önnur sambærileg kerfi hvort sem eru stjórnkerfi, menntakerfi eða önnur. Svo er þessum kerfum viðhaldið af því að ákveðið fólk, hingað til fámennur karlahópur, hefur haft sitt lifibrauð af þeim,“ útskýrir hann og nefnir í þessu samhengi fjármunina sem er varið til kynningar á íslensku lambakjöti ár hvert en þá segir hann óheyrilega og eflaust hægt að gera margar bíómyndir fyrir sömu upphæðir.

„Eitt árið hafði utanríkisþjónustan þrettán milljarða til ráðstöfunar og þar af fóru tuttugu milljónir í að kynna menningu og listir þjóðarinnar. Tuttugu milljónir? Maður spyr sig hvað á að gera við þessa peninga ef ekki koma menningu þjóðarinnar á framfæri? Svo fer maður að pæla meira í þessu og niðurstaðan er auðvitað sú að þeir sem skapa og viðhalda þessum kerfum eru þeir sem eru með peningana og þar með völdin. „Skagfirðingarnir“ – stórbændurnir og útvegsmennirnir. Embættismenn eins og sendiherrar eru afsprengi viðskiptahagsmuna sem hefur verið stjórnað af einhverjum karlaklíkum áratugum saman,“ segir hann og bætir við að eftir frumsýningu Risaeðlanna hafi tveir einstaklingar haft fyrir því að skrifa langar og harðorðar greinar í Morgunblaðið þar sem þeir kvörtuðu undan verkinu og þótti illa vegið að heiðri utanríkisþjónustunnar.

„Annar var auðvitað fyrrverandi sendiherra sem hafði bara frétt af verkinu og hinn einhver embættismaður. Báðir karlar auðvitað, á áttræðisaldri,“ segir Ragnar, glottir og hristir höfuðið.

„Við sjáum enn ummerki um alls konar úrelt kerfi og gildi sem feðraveldið reynir af veikum mætti að viðhalda meðan það engist um í dauðateygjunum. Dauðateygjurnar munu samt vara eitthvað áfram enda er feðraveldið meðal annars byggt á aldagömlum grunni sem nær langt aftur í tímann og þá á ég til dæmis við trúarbrögðin sem stærstur hluti þjóðarinnar aðhyllist ennþá. Guð er karl, frelsarinn er sonur, presturinn er karl … Skaparinn er kallaður „hann“ – karlar um karla frá körlum til karla. Og af hverju? Jú, af því Biblían var upprunalega skrifuð af karlaklíku, einhverjum embættismönnum sem settust niður með þennan texta og suðu saman strúktúr af sögum sem hentuðu kerfinu enda trúarbrögð ekkert annað en valda- og stjórntæki.“

„Satt að segja fyllist ég bjartsýni þegar ég hugsa um framtíðina“

Þrátt fyrir að feðraveldið hafi enn ekki alveg geispað golunni segist Ragnar mjög bjartsýnn á framtíðina. Hann vill meina að nú sé öld konunnar runnin upp og að eftir um hundrað ár muni heimurinn verða orðinn mikið betri. Þar eigi tækniframfarir meðal annars stóran hlut að máli enda megi rekja jákvæðar samfélagsbreytingar og uppstokkun á vondum kerfum til byltinga sem hafa byrjað á netinu.

„Á um hundrað ára fresti fáum við ný tæki til byltinga og það hefur sýnt sig að samfélagsmiðlarnir eru slíkt tæki. Þar fá nefnilega alls konar raddir hljómgrunn og í kjölfarið höfum við fengið vitundarvakningar á borð við MeToo og fleiri byltingar. Prentmiðlar voru líka byltingartæki á sínum tíma og það sama gilti um sjónvarpið en það höfðu ekki allir aðgang að þeim miðlum. Sumum finnst hávaðinn á netinu ansi mikill og kannski er erfitt fyrir eldra fólk að ná utan um þetta en ég held að mannkynið muni bara þróast með samfélagsmiðlum og netinu eins og annarri tækni. Krakkar í dag geta til dæmis horft á sjónvarpið, spilað tölvuleik og spjallað á sama tíma. Finnst það ekkert mál. Þau eru bara alin upp í öðruvísi umhverfi og og satt að segja fyllist ég bjartsýni þegar ég hugsa um framtíðina. Ég þarf ekki annað en að tala við börnin mín og vini þeirra til að sjá að þau mikið meðvitaðari, fordómalausari og upplýstari en fyrri kynslóðir Íslendinga. Það eru góðir tímar framundan,“ segir þessi kraftmikli listamaður að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Madonna deilir sjaldséðri fjölskyldumynd með öllum börnunum

Madonna deilir sjaldséðri fjölskyldumynd með öllum börnunum
Fókus
Fyrir 10 klukkutímum

Camilla Rut og Valli njóta saman á Spáni – „Pornstar martini og risarækjur á leiðinni“

Camilla Rut og Valli njóta saman á Spáni – „Pornstar martini og risarækjur á leiðinni“
Fókus
Í gær

Anna varar við þessu svæði á Tenerife – „Best að halda sig fjarri“

Anna varar við þessu svæði á Tenerife – „Best að halda sig fjarri“
Fókus
Í gær

Eign dagsins – Blátt hús í hjarta Hafnarfjarðar á 121,9 milljónir

Eign dagsins – Blátt hús í hjarta Hafnarfjarðar á 121,9 milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sólveig Anna segir erfiða upplifun síðasta vetrar hafa breytt sér – „Ég var miklu kátari en er lágstemmdari í dag og held að sú breyting sé komin til að vera“

Sólveig Anna segir erfiða upplifun síðasta vetrar hafa breytt sér – „Ég var miklu kátari en er lágstemmdari í dag og held að sú breyting sé komin til að vera“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hún var talin hafa látist tveggja ára gömul þegar að Titanic sökk – Hver var konan sem steig fram 28 árum síðar?

Hún var talin hafa látist tveggja ára gömul þegar að Titanic sökk – Hver var konan sem steig fram 28 árum síðar?