fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fókus

ANDREA JÓNSDÓTTIR: „Pabbi sagði að þetta væri mitt líf“

„Þetta er reyndar mjög hallærisleg saga“

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 17. nóvember 2017 06:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er ekkert hefðbundið við Andreu Jónsdóttur, plötusnúð og útvarpskonu. Hvorki útlit, áhugamál, starfsframi, kynhneigð, trúarskoðanir né fjölskylduform. Í húð, og grátt hár, er þessi 68 ára rokkari, köttur sem fer sínar eigin leiðir.

Andrea leit dagsins ljós í hjónarúmi foreldra sinna snemma í apríl árið 1949. Í þessu sama húsi á Selfossi bjó hún svo alla sína barnæsku eða þar til hún dreif sig í menntaskóla í Reykjavík, haustið 1965. Þá var Andrea sextán ára.
„Þetta var eini menntaskólinn í Reykjavík og mig langaði mikið frekar að fara í borgina en að vera innilokuð í heimavist við Menntaskólann á Laugavatni. Ég hugsaði til þess með hryllingi,“ segir Andrea og bætir því við að hún hafi tekið út sinn skammt af landsbyggðarlífi í barnæsku.

„Ég hef unun af borgarlífi. Hvert sem ég ferðast þá vil ég alltaf bara vera í 101 í öllum borgum og aldrei hefur mig langað til sólarlanda,“ segir Andrea sem lagði land undir fót um leið og hún lauk náminu í MR. Ferðinni var heitið á vit rokkævintýranna í London sem þá iðaði af tónlist. Bítlarnir, Stones, Led Zeppelin, Deep Purple. Þetta voru hennar menn.

Hún segir áhuga sinn á dægurtónlist hafa vaknað mjög snemma. Útvarpið stöðugt í gangi á æskuheimilinu og þar var sinfóníutónlistinni bölvað meðan hækkað var í Óskalögum sjúklinga og öðrum dægurlagaþáttum. Fyrsta lagið sem hún man eftir að hafi heillað hana upp úr skónum fjallaði um harmdauða villiandar á Tjörninni.

„Svo man ég líka eftir því þegar ég heyrði Kokkur frá kútter á Sandi með Ragga Bjarna. Ég lá lasin uppi í rúmi og varð ægilega hrifin. Lærði allan textann utanbókar á augabragði,“ rifjar hún upp og hlær.

„Bee bob a lula með Gene Vincent var samt fyrsta lagið sem ég man eftir að hafa stúderað sérstaklega. Sándið, eða hljómfallið höfðaði til mín. Þá var þetta kallað rokk þótt ég sé ekki viss hvort þessi tónlist yrði skilgreind þannig ef hún kæmi fram á sjónarsviðið í dag. Kannski er þetta sambærilegt við stjórnmálin? Fólk á það til að vilja víkka út skilgreiningar. Það sem flokkaðist sem vinstri pólitík fyrir fimmtíu árum er ekki sama vinstri pólitíkin í dag.“

Vorkenndi alltaf Elvis Presley

Áður en Bítlarnir gáfu út sína fyrstu smáskífu var Elvis Presley átrúnaðargoð Andreu líkt og margra ungmenna af hennar kynslóð.

„Þrátt fyrir að elska tónlistina hans þá vorkenndi ég alltaf Presley frekar mikið. Fyrir utan Whitney Houston er hann ein mesta rokktragedía sögunnar. Jú, Janis Joplin, Jimi Hendrix og fleiri tónlistarmenn voru á valdi fíknarinnar, fóru í gegnum erfiðleika og létust fyrir aldur fram, en þau skemmtu sér að minnsta kosti á meðan þau lifðu. Ég hafði það alltaf á tilfinningunni að Elvis hefði aldrei skemmt sér. Hann var svo mikill fangi frægðarinnar. Var talin trú um að hann þyrfti alltaf að hafa her gæslumanna í kringum sig, lokaður inni af fólki sem vildi sjúga úr honum peninga. Elvis fór úr rosalegri fátækt og upp í þetta innilokaða frægðarlíf og á endanum held ég að hann hafi orðið geðbilaður af þessu,“ segir hún og bætir við að til fjölda ára hafi heimurinn gert sér litla grein fyrir afleiðingum ofurfrægðar poppstjarna á tilfinningalíf þeirra.

„Þessir listamenn lenda oft í því að vera hafnir upp á stall einn daginn og alveg barðir niður þann næsta. Fjölmiðlarnir eru vægðarlausir og þetta fólk er endalaust í sviðsljósinu, hvort sem því líkar það betur eða verr,“ segir Andrea og nefnir í þessu samhengi Britney Spears sem fór næstum því yfir um á geði á því herrans ári 2007. „Það eina sem hún hefði umsvifalaust þurft að fá var vistun á geðdeild og gríðarlega mikil hjálp. Þess í stað var hún höfð að háði og spotti í fjölmiðlum. Það þarf örugglega sterk bein til að hlusta á endalausan óhróður og lygi um sjálfa sig – og lifa það af.“

Litið á poppara sem hoppandi heimskingja

Áhugi og ástríða Andreu fyrir dægurlagatónlist er óseðjandi enda hefur hún gert það að ævistarfi sínu að fylgjast með og spila dægurtónlist til afþreyingar fyrir aðra. Hún vill meina að Bítlarnir hafi breytt afstöðu heimsins til popptónlistar eins og stefnan er líka kölluð, en fyrir þann tíma hafi verið litið niður á þessa tegund tónlistar.
Forskeytið „pop“ í enska orðinu „pop music“ er dregið af orðinu popular sem meðal annars má þýða sem eitthvað við hæfi almennings. Var þetta kannski bara tónlist fyrir pöpulinn?

„Jú, vissulega. Opinberlega var litið niður á þessa tegund tónlistar. Allt þar til Bítlarnir komu fram á sjónarsviðið voru popptónlistarmenn næstum því álitnir einhverjir hoppandi heimskingjar. Þetta var ekki alvöru list heldur skrítin hugmynd um einnota afþreyingu. Með tímanum breyttist þetta og í dag eigum við sígilda dægurlagatónlist sem er jafn klassísk og Bach eða Mozart,“ segir Andrea og nefnir í þessu samhengi umhverfið sem Bítlarnir spruttu upp úr á sínum tíma.

„Eftir seinni heimsstyrjöldina var Bretland í rúst. Það þurfti að reisa allt þjóðfélagið við, þar á meðal menntakerfið. Eitthvað þurfti að gera við allt þetta unga fólk og námsleiðir voru endurskoðaðar. Ungmennum var greidd leið í listaframhaldsskóla, sem er frábært því líklegast hefði John Lennon ekki tollað í skóla ef hann hefði ekki getað stundað listnám. Í dag veit allur heimurinn hversu mikil tónlistarsköpun átti sér stað í Bretlandi eftir stríðið. Bítlarnir voru heldur ekki eina sveitin sem var stofnuð af listaskólanemum. Keith Richards, Pete Townshend, Ray Davies úr Kinks, Eric Clapton og Jimmy Page, allt eru þetta dæmi um menn af þessari kynslóð sem fóru í listaskóla og stofnuðu upp úr því hljómsveitir sem eru heimsþekktar í dag. Menntun er mjög mikilvæg og enn mikilvægara þykir mér að ung fólk geti fundið sína hillu í námi. Hvort sem er í iðn-, list- eða bóknámi.“

Hjá útvarpinu í tæplega hálfa öld

Andrea bjó í hálft ár í London. Þetta var árið 1970. Á daginn vann hún sem herbergisþerna á hóteli nálægt Piccadilly en á kvöldin og um helgar fór hún oft á rokktónleika. Restin af laununum fór í vínyl sem hún rogaðist með heim. Lífsreyndari en margar jafnöldrur sínar sneri unga konan til Íslands og skráði sig í enskunám við Háskóla Íslands. Andrea á reyndar enn eftir að útskrifast enda leið ekki á löngu þar til hún var mætt með plötusafnið og sest við hljóðnemann í hljóðveri Ríkisútvarpsins.

„Sko, þetta er reyndar mjög hallærisleg saga,“ segir Andrea og kímir þegar ég spyr hana hvernig þetta hafi komið til. „Hjónin Dóra Ingvadóttir og Pétur Steingrímsson tæknimaður sáu um útvarpsþætti sem þau kölluðu Á nótum æskunnar. Þegar þau ákváðu svo að skilja þurfti Pétur einhvern í stað eiginkonunnar til að vera með honum í þættinum. Hann hafði samband við mig í gegnum sameiginlegan vin okkar og þannig æxlaðist nú þetta,“ segir hún og bætir við að líklegast hafi það verið óseðjandi tónlistaráhugi og aðdáunarvert plötusafn sem greiddi leið hennar inn í hljóðver.
„Þetta eru að verða fimmtíu ár núna. Þó með einhverjum hléum, því ég var líka prófarkalesari og tónlistargagnrýnandi á Þjóðviljanum í einhver ár. Ég þyrfti eiginlega að komast í gamla launamiða, eða bara skattaskýrslur til að fá það almennilega á hreint hvað ég hef unnið lengi í útvarpinu,“ segir hún og skellir upp úr.

Óléttan var eitt af þessum góðu slysum

Árið 1974 kom einkadóttir Andreu, Laufey, í heiminn. Andrea segir hana eitt af þessum góðu slysum; að ef ekki væri fyrir frjálslyndi þjóðarinnar í ástamálum værum við að öllum líkindum útdauð.
„Ég átti hana Laufeyju mína með góðum vini mínum á Selfossi sem kallaður er Labbi í Mánum. Óléttan var eitt af þessum góðu slysum. Ég held að Íslendingar væru enn sirka hundrað og fimmtíu þúsund ef við værum ekki svona dugleg að eignast óplönuð börn án þess að skammast okkar. Ef við værum ekki svona held ég að það hefði orðið erfitt fyrir okkur að manna bátana í gamla daga,“ segir hún og hlær.

„Ég hef reyndar alltaf verið mjög stolt af því hvað við höfum verið dugleg að eignast börn utan hjónabands. Við áttum met í þessu fyrir einhverjum árum. Líklega má rekja það til þess að við erum ekki eins og hinar Norðurlandaþjóðirnar þegar kemur að trúmálum. Komumst ekki í hálfkvisti við Færeyinga til dæmis. Þessi trúarbrögð eru auðvitað alveg ótrúlega úrelt og karllæg og reyndar merkilegt að þessum körlum skuli takast að láta fólk trúa þessu enn þann dag í dag. Þvílík tímaskekkja. Ef það er til Guð þá held ég að hann hljóti að þróast með okkur, annars sigrar andskotinn. Nema hann sé þá búinn að því? Kannski að hann sé eitthvað nýtískulegri? Eða báðir bara hálf hallærislegir?“

Uppgötvaði kynhneigðina í gegnum Marilyn Monroe

Án þess að hún hafi nokkurn tímann sent frá sér formlega yfirlýsingu vita margir að Andrea hneigist til kvenna. Hún hefur samt aldrei haft sérstaklega hátt um kynhneigð sína enda segist hún komin af kynslóð og sprottin úr umhverfi þar sem lítið var talað um kynlíf eða kynferðismál.

„Það var að minnsta kosti aldrei talað um kynlíf heima hjá mér og ég var aldrei spurð neitt út í það hvort ég vildi vera með stelpum eða strákum, enda var samkynhneigð varla til í heimsmynd þjóðarinnar,“ segir hún og rifjar upp tvær konur sem bjuggu á Selfossi þegar hún var krakki.

„Þetta voru þær Margrét nuddkona og hún Bjargey sem „bjó hjá henni“, eins og það var orðað. Mér þótti þetta alltaf spes fyrirkomulag en það var aldrei neinn sem talaði um að þær væru par. Þetta voru miklar hestakonur sem fengu að hafa hesta í hesthúsi hjá afa mínum. Ég var oft að skrattast á þessum hestum þeirra þegar ég var krakki á árabilinu 1957 – sextíu og eitthvað. Eftir að á hyggja höfum við æskuvinirnir frá Selfossi oft hlegið að því hvað allir voru eitthvað grunlausir á þessum árum,“ segir hún, stendur upp og teygir svolítið úr sér.

Aðspurð hvernig hún áttaði sig á tilfinningum í eigin brjósti á tímum bælingar og þagnar segir Andrea það einna helst hafa verið þokkadísir frá Hollywood sem leiddu hana fyrst í sannleikann, án þess að hún hafi haft orð á því á þeim tíma.

„Til dæmis man ég sérstaklega eftir myndinni The Misfits með Marilyn Monroe sem kom út árið 1961. Ég skildi aldrei af hverju hugguleg ung stúlka eins og hún Marilyn Monroe var að faðma gamla skarfinn Clark Gable. Mér fannst þetta eiginlega hálf ógeðslegt. Þessir gömlu karlar áttu alls ekki að eiga skilið að fá svona huggulegar stúlkur til lags við sig. Þar fór góður biti í hundskjaft, hugsaði ég,“ segir Andrea og hlær.

Mömmu var slétt sama og pabbi sagði að þetta væri mitt líf

Það var svo í útvarpsviðtali hjá Árna Þórarinssyni sem Andrea var fyrst spurð út í hvernig það væri að vera lesbía.
„Hann gerði bara ráð fyrir því að allir vissu þetta! Ég bað hann náðarsamlegast að vera ekki að útvarpa þessu, bókstaflega, þar til ég væri búin að tala við foreldra mína. Eftir að búið var að taka upp þáttinn hringdi ég í systur mína og spurði hana hvort pabbi og mamma vissu ekki örugglega af þessu. Hún sagðist ekkert vita um það svo ég hringdi í mömmu sem sagði bara: „Hva!? Auðvitað! Henni væri nú bara alveg slétt sama, og pabbi sagði að þetta væri mitt líf. Svo var ekkert meira með það, enda átti ég frábæra foreldra sem leyfðu mér bara alltaf að vera ég sjálf. Svo er þetta nú yfirleitt þannig með flesta foreldra. Þeir vita þetta um börnin sín jafnvel þegar þau eru sjö ára eða eitthvað. Löngu áður en maður veit það sjálfur.“

Finnst gott að hlaða sig andlega í einverunni

Góða slysið sem kom í heiminn árið 1974 hefur sannarlega auðgað líf Andreu, sem á orðið þrjú ömmubörn, 8, 12 og 22 ára. Tvær stelpur og einn strák. Að auki á hún uppeldissoninn Áka sem fæddist árið 1985, en Andrea var í sambúð með móður hans, Láru Martin, í nokkur ár. Undanfarna tæpa tvo áratugi hefur Andrea þó að mestu búið ein en hún vill meina að persónueinkenni hennar geri hana ekkert sérstaklega góðan sambýling.
„Ég held að ég sé frekar þægileg týpa í umgengni en á sama tíma kann ég ekki alveg að deila mínum högum með öðru fólki og á vissan hátt er ég frekar einræn þó að ég eigi auðvelt með að tala við fólk og umgangast það. Ég get til dæmis farið í hvaða veislu sem er og hef alltaf unnið á mannmörgum vinnustöðum en þegar ég er komin heim til mín þá vil ég bara fá að vera í friði. Hlaða mig andlega í einverunni. Mér finnst ég nefnilega aldrei vera ein,“ segir hún og þvertekur fyrir að samkynhneigðin hafi gert það að verkum að hún falli fyrir utan hin hefðbundnu sambúðarnorm gagnkynhneigðrar menningar sem gera kröfu um einkvæni.
„Ég held að þetta tengist ekki því að ég er lesbía. Þetta er bara ég. Dóttir mín er svona líka. Hún á þrjú börn en hefur aldrei verið í sambúð. Reyndar vil ég meina að skilnuðum myndi fækka gríðarlega ef fleiri væru reiðubúnir til að vera í fjarbúð. Auðvitað er það kostnaðarsamara, en það er líka dýrt að skilja og slíta sambúð. Bæði andlega og fjárhagslega.“

Plötusnúður á Dillon allar helgar í átján ár

Um fimmtugt fór Andrea að venja komur sínar á skemmtistaðinn Dillon. Henni fannst skemmtilegast að líta við á sunnudögum og skrafa við starfsfólkið sem gaf tónlistinni ekki sérlega mikinn gaum. Rokkarinn gat auðvitað ekki látið skeytingarleysið viðgangast, bauð fram krafta sína og var fljótlega ráðin í vinnu sem plötusnúður. Síðan eru liðin átján ár og enn er hægt að ganga að Andreu vísri þar sem hún situr eins og búálfur á bjálka með geisladiskasafnið sitt öll föstudags- og laugardagskvöld.

„Það má segja að ég sé búin að fara í gegnum margar áhafnir á Dillon. Fastagestirnir koma og fara. Endast kannski í tvö til fimm ár en fæstir halda lengur út. Svo tekur við ný áhöfn. Ný kynslóð,“ segir Andrea sem spilar allt af geisladiskum.

„Mér finnst þetta alveg frábær tækni þótt ég sé glöð með endurkomu vínylsins. Ég þoli hins vegar ekki þessar tónlistarveitur á netinu. Þær hafa gert það að verkum að listafólkið fær svo miklu minna fyrir sinn snúð, en ef maður kaupir geisladisk úti í búð, þá fá listamennirnir ágóðann. Ég mun alltaf halda með geisladiskinum og ætla að berjast fyrir tilvist hans til síðasta dags,“ segir hún dramatísk.

Keypti sér nýjar DJ-græjur fyrir fyrstu lífeyrissjóðsgreiðsluna

67 ára afmælisdagurinn markar tímamót í lífi flestra. Þegar rokkstelpan frá Selfossi náði þessum áfanga fór hún með sína fyrstu lífeyrissjóðsútborgun og keypti sér Serato MC 400 plötusnúðsgræjur sem hún segist þó enn eiga eftir að læra almennilega á.

„Ég fékk þarna einhverja heila útborgun frá lífeyrissjóði sem hefur ekki þótt taka því að skammta mér greiðslurnar. Fór og keypti mér nýjar DJ-græjur enda verður maður að vera með á nótunum. Vinnan mín er líka bara svo skemmtileg og þar fyrir utan er maður ekkert orðin neitt sérstaklega gamall, 67 ára. Mér finnst flest fólk í dag ekki verða gamalt fyrr en í fyrsta lagi eftir áttrætt,“ segir hún og bætir við að framtíðarplönin séu ekki mjög flókin en Andrea á nú tvö ár í sjötugt.

„Ég ætla bara að halda áfram að vinna, klára að greiða upp íbúðina og vera bærileg amma og manneskja. Mér hefur aldrei hentað að gera langtímaplön. Flýt bara með lífinu sem lengst. Mér finnst gaman að lifa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt