

„Það er rosalega þroskandi að fara í gegnum svona, að missa svona mikið á svona stuttum tíma. Ef ég segi það alveg einlægt þá held ég að þetta sé ástæðan fyrir því að ég er eins og ég er. Þetta mótaði mig rosalega mikið að manneskjunni sem ég er í dag. Ég tek aldrei neinu sem sjálfsögðu,“
segir skemmtikrafturinn Eva Ruza Miljevic.
Eva var aðeins níu ára þegar besti vinur hennar drukknaði í skólasundi. Á aldrinum 11 – 13 ára missti hún báðar ömmur sína og báða afa á Íslandi og í Króatíu. Eva ákvað því ung að njóta lífsins meðan það gefst og vakna glöð alla morgna, eins og hún segir í viðtali við Sigurlaugu Jónasdóttur í Segðu mér.
Hún segist þó vissulega eiga erfiða daga en þegar henni líði illa þá sé hún fljót að hrista það af sér því henni þykir vont að vera á þeim stað. Hún segir að fólk megi alveg kalla sig einfalda fyrir að líta lífið björtum augum, en dvelur ekki við álit fólks á sér.
Eva og eiginmaður hennar, Sigurður Þór Þórsson, kynntust þegar hún var 17 ára og hafa verið saman síðan. Þau reyndu í þrjú ár að eignast barn og misstu tvisvar fóstur. Þau fóru í tæknisæðingu og eignuðust tvíbura, sem verða 17 ára í sumar.
„Ég missti aldrei trúna á að þetta myndi ganga,“ segir Eva sem var 26 ára þegar börnin fæddumst. Hún segir að á þessum tíma hafi flestar af hennar vinkonum verið að eignast börn og þó svo að hún hafi glaðst innilega með þeim þá hafi hún alltaf fengið sting í hjartað og velt fyrir sér hvers vegna þetta væri ekki að gerast hjá henni. „Þetta var það eina sem ég þráði í lífinu, að verða mamma. En ég náði samt alltaf að samgleðjast.“
Hún segist þakklát fyrir allt sitt og að síminn hefur enn ekki hætt að hringja með verkefni handa henni.
„Á meðan ég hef gaman af þessu þá vona ég að fólk hafi gaman af mér. Þetta er bara ástríðan mín og mér líður aldrei eins og ég sé að vinna.“
Hlusta má á viðtalið við Evu í heild sinni hér.