Eva segir uppeldið hafa verið fínt þar sem foreldrar hennar veittu henni allt sem hún þurfti. Hún segir sig mjög heppna með foreldra og þeir hafi stutt hana í öllu, alltaf.
„Ég var misnotuð kynferðislega frá því að ég var fjögurra ára og þar til ég var um það bil fimmtán ára,“ segir Eva og bætir við að hún sé nýlega farin að vinna í þessu erfiða máli.
Unglingsárin voru Evu erfið, henni fannst hún týnd og leitaði mikið eftir samþykki frá strákum. Á fyrsta ári í framhaldsskóla byrjaði hún að drekka og fór það úr böndunum strax í fyrsta skipti.
„Ég var að drekka með einum strák og fann strax að mér fannst þetta góð tilfinning en drakk mig í blakkát og einhver kona fann mig úti á götu, dauða.“ Eva endaði á spítala með áfengiseitrun.
Skólinn fór erfiðlega af stað vegna félagskvíða en Eva eignaðist kærasta sem drakk oft fyrir skóla og á daginn. „Ég ákvað að drekka bara með honum fyrir skóla og í skólanum svo allt í einu var ekkert mál að tala við alla en drykkjan fór ekki fram hjá neinum og mamma fékk oft símtöl og ég kom oft mjög drukkin heim,“ segir Eva.
Henni fannst þetta ekkert tiltökumál og skildi ekki vesenið sem var gert út af þessu.
„Þegar ég var sextán ára fengu foreldrar mínir nóg, enda með tvö lítil börn á heimilinu. Ég var send í fóstur,“ segir hún.
Það gekk ekki hnökralaust að koma Evu í fóstrið en lögreglan var kölluð til.
Eftir að fóstrinu lauk, tveimur mánuðum seinna, hætti Eva að drekka og var því sannfærð um að hún ætti ekki við vandamál að stríða.
„Ég fór aftur að drekka, í hófi, með barnsföður mínum tveimur árum síðar, þá um átján ára,“ segir Eva María.
Með því að geta stjórnað drykkjunni tímabundið gat hún sannfært sig enn frekar um að drykkjan væri ekki vandamál.
Eva María eignaðist son sinn nítján ára. „Meðgangan gekk vel en ég tengdist honum ekki þegar hann fæddist og brjóstagjöfin gekk hræðilega,“ segir hún.
Eva talar um hvernig samfélagsmiðlar hafi brenglað ímynd hennar á móðurhlutverkinu.
„Ég þurfti að hafa allt fullkomið, viðurkenndi enga vanlíðan eða neitt heldur vildi vera fullkomin mamma eins og allar hinar á Instagram.“
Þegar sonur hennar var þriggja mánaða byrjaði hún að drekka aftur og þá óhóflega.
Aðspurð hvort hún hafi þá leitað sér aðstoðar segir Eva: „Nei, ég og barnsfaðir minn fórum í afmælisferðina mína til Póllands í nóvember, sem ég man ekkert eftir. Á leiðinni heim stakk ég af og var týnd í þrjá daga,“ Eva segir frá hryllingnum sem blasti við þeim þegar hún gafst upp en þá voru barnsfaðir hennar og pabbi komnir út. Hún segir að Interpol hafi einnig verið að leita.
Eva hefur farið í nokkrar innlagnir á Vog en í fyrstu innlögn fann hún að hún ætlaði ekki að hætta, hún væri ekki svo slæm miðað við marga. Á endanum lenti Eva á götunni.
Það er ekki auðvelt að búa á götunni á Íslandi. „Einn daginn lenti ég í að vera í leigubíl þar sem leigubílstjórinn beitti mig kynferðisofbeldi. Ég var að detta inn og út svo ég vissi ekki alveg hvað hafði gerst en var öll marin og blá svo ég fór á neyðarmóttökuna.“
Hlustaðu á þáttinn með Evu á Spotify.