Linda Pétursdóttir, lífsþjálfi og fyrrverandi Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur, var í beinni frá heimili sínu síðastliðinn sunnudag. Linda heldur úti LMLP (Lífið með Lindu Pé) prógrammi fyrir konur allt árið um kring, en er auk þess virk á samfélagsmiðlum sínum og heldur reglulega örnámskeið sem opin eru fyrir alla. Á samfélagsmiðlum og örnámskeiðum gefur hún ráð sem nýst geta sem flestum í dagsins önn.
„Í sex mánuði erum ég og kærastinn minn og hún Stella, hundurinn okkar, búin að vera að ferðast um Evrópu og þetta var eitthvað sem við ákváðum að gera eftir að Ísabella, dóttir mín, fór utan í nám. Og ég var alveg búin að vera að undirbúa þetta áður en ég kynntist kærastanum mínum. Þetta var alltaf planið mitt að fara eitthvað til Evrópu á heitari slóðir en Ísland. Ég hefði náttúrulega helst viljað fara til Kanada þar sem ég elska að vera í Vancouver en mér fannst það ekki heppilegt svona upp á tímamismuninn. Það er átta tíma mismunur við Ísland og svo er svo langt að fara, út af fyrirtækinu mínu og af því að vera í sambandi við stelpuna mína. Þannig að Evrópa hentar fullkomlega. Það er ekki langt að fara og ég vildi vera svona á þessu svæði, svona í Suður-Evrópu, og þá er svo auðvelt að fara héðan til London til stelpunnar og heim líka og ég fer heim til Íslands mjög reglulega. Búin að fara svona yfirleitt í hverjum mánuði. Ferð þá heim til að vera í húsinu mínu og til að vinna meira.“
Eftir að hafa mátað sig við Portúgal, Suður-Frakkland og Valencia á Spáni, og hvar þeim liði best, er parið sest að í Madrid á Spáni með sitt annað heimili. Linda segir einnig hafa komið til greina að eignast það í London en það sé flóknara vegna Brexit. Linda segir þau hafa verið hrifin af Suður-Frakklandi, nærri Saint-Tropez.
„Ég var alveg ástfangin af því svæði. Svo ákváðum við að það væri ekki staðurinn, því að það lokar svo mikið á veturna og ekki mikið fyrir stafni, margir veitingastaðir, og við viljum hafa svona aðeins meira líf í kringum okkur, þó við elskum að vera svona úti í náttúrunni eins og við erum búin að gera eiginlega í allt sumar. Portúgal var bara nei, það er ekki staðurinn fyrir mig, alls ekki, og hann fílaði það ekki heldur. Suður-Frakkland, æðislegt. Og svo vorum við svona að hugsa um að hafa einhvern annan svona stað við sjóinn, af því að við viljum bæði vera nærri sjónum. En svo komumst við að þeirri niðurstöðu að Madríd væri staðurinn. Kærastinn minn, hann er frá Madríd, þannig að tengslanet hans er allt hér. Svo elska ég þessa borg.“
Linda mælir með heimsókn til borgarinnar. Segir hún hennar uppáhaldsborgir vera London og Vancouver og svo er Madríd búin að bætast á þann lista. Henni finnist borgin eins og suðræn London.
„Það eru æðislegar byggingar, arkitektúrinn. Það er svo mikil fegurð hérna og borgin hefur bara allt til alls. Menningin, eins og matarmenningin hérna er náttúrulega bara æðisleg. Fullt af listasöfnum og tónlist. Mér skilst að það sé hægt að fara á tónleika næstum því öll kvöld ársins hérna, þannig að það er mikið um að vera. Þetta er náttúrlega stórborg. Ég held þrjár og hálf til fjórar milljónir sem búa hérna. Ég náttúrlega elska Spánverja. Þið sem elskið að versla eins og ég, það er geggjað að versla hérna.“
Linda segir þau komin með íbúð í besta hverfinu, þau séu um tvær mínútur að ganga í Retiro sem er stór almenningsgarður og guðdómlega fallegur með stöðuvatni. Veitingastaðir eru í garðinum, mikil fegurð og gróður. Stella hundurinn þeirra fari með þeim hvert sem er og getur Linda sér til að þriðji hver Madridbúi sé með hund.
„Við fórum til dæmis í Retiro garðinn á rooftop-veitingastaðinn, löbbuðum þar inn til að fá okkur sæti. Áður en þjónninn kom að taka pöntunina okkar þá fór hann að ná í vatn og kom með til Stellu. Þetta bara lýsir viðhorfinu til hunda hérna. Ég er búin að upplifa þetta alls staðar hérna í Evrópu þar sem við erum búin að vera og líka þegar ég bjó í Bandaríkjunum og Kanada. Og ég held að þetta bráða hundaofnæmi sé bara séríslenskt fyrirbrigði. Ég ætla bara að segja það hér og nú því ég heyri aldrei talað um þetta annars staðar.“
Linda er alvön að ferðast með hund með sér og er Stella fjórði hundurinn sem hún ferðast með milli landa, sem Linda segir ekkert mál, en það sé ákveðið ferli þegar þær koma heim til Íslands.
„Stella er búin að ferðast núna til sjö landa. Ég fékk hana í Bandaríkjunum og hún bjó með mér í Kanada líka og á Íslandi. Svo er hún búin að fara hérna til fjögurra landa hér.“
Einkabarn Lindu, dóttirin Ísabella, er nú á sínu öðru ári í sagnfræðinámi í London. Segir Linda enn vera að eiga við „empty nest syndrome“, sem sagt þegar ungarnir fljúga úr hreiðrinu.
„Og þetta er bara ferli, þetta er eiginlega sorgarferli finnst mér, sem tekur langan tíma. Ég er búin að ala hana upp á heimilinu okkar á Álftanesi, vera með hundana okkar þar. Og þetta kom dálítið svona í bakið á mér, þó ég sé búin að vera að undirbúa mig fyrir lengi. Þegar ég var heima um daginn þá var ég bara að berjast við tárin þegar ég var að pakka niður. Stjarna, hundurinn minn, er dáinn. Hún er jörðuð heima hjá mér. Ísabella, hún er að leigja sér íbúð, þannig að hún er að byrja í nýjum spennandi kafla, leigja sér íbúð með vinkonu sinni í London. Og mér fannst þetta allt svo skrýtið og mér finnst einhvern veginn líka bara að við verðum að minna okkur á að njóta lífsins því það líður svo hratt. Ég næ eiginlega ekki ennþá utan um þá hugsun að núna í þessari viku þá verður Ísabella tuttugu ára. Og mér finnst svo stutt bara frá því hún var ungbarn eða frá því hún var að ganga í skólann barnaskóla á Álftanesi. Þannig að lífið líður svo hratt.“
Linda og Jaime fengu íbúðina afhenta þremur dögum áður og gefur Linda innlit í eldhúsið, stofuna og út á svalirnar.
„Þetta er dálítið eiginlega bara merkilegt eða fyndið. Allt hérna inni er eins og heima hjá mér á Álftanesi. Allir litir, þið sjáið að það er mikið gyllt hérna, marmari með gyllingu. Ég er með svona heima hjá mér og allt hérna inni myndi passa þar líka. Stíllinn hérna, ég er að fíla hann í tætlur. Þetta er svo mikil fegurð. Og þetta passar sem sagt allt. Ég gæti tekið húsgögn héðan og sett inn á heimilið mitt á Álftanesi og öfugt. Og passar allt inn þannig að það er nú bara geggjað.“
Linda segir okkur öllum það mikilvægt að við ákveðum hvernig við viljum lifa lífinu. Þó hún elski Ísland og líði vel heima hjá sér, þá hafi hún átt draum um að fara og lifa á heitari slóðum. Hún vilji vera í stærri borgum þar sem er meira um að vera. Og eftir að hafa ferðast í 35 ár út um allan heim finnist henni ferðalög hluti af hver hún er, það gefa henni mikið og vera hluti af hennar lífsstíl.
„Ég tók meðvitaða ákvörðun um að þetta væri það sem ég vildi og ég byrjaði að skrifa einmitt í dagbókina mína að mig langaði í þennan draum og það eru svona 3-4 ár síðan ég fór að skrifa þetta í dagbókina mína daglega og teikna upp þennan draum, drauminn sem ég er að upplifa í dag, að búa í svona bara glæsilegu húsnæði í stórborg á besta stað. Stórborg var reyndar ekkert endilega hjá mér, ég vildi bara vera þar sem væri fegurð. Fegurð og lúxus skipta mig miklu máli og það er allt hérna. Ég er búin að fá þetta allt. Við erum öll með eitthvað sem við þurfum að díla við í lífinu. Við erum alls kyns sem að við erum að nota gegn okkur, er að halda aftur af okkur.“
Linda fjallar um það sem hún nefnir Vítahringur sjálfsniðurrifs, fimm stólpar sem við erum öll á einn eða annan hátt að nota til þess að halda okkur niðri: eftirsjá, skömm, útlit og aldur, bið og að smækka sig. Linda segir að hún hefði getað valið að gefast upp eftir gjaldþrot fyrirtækis hennar árið 2015, hún hefði getað notað það gegn sér, gefist upp og ekki elt draumana sína. Í staðinn kaus hún að endurbyggja sjálfa sig og lífið. Linda er með slæmt tilfelli af liðagigt og þarf að sprauta sig vikulega, segist hún oft ná að sleppa sprautunum þegar hún er á hlýjum stöðum.
„Ég gæti líka notað þetta gegn mér, að ég sé með þennan sjúkdóm og sett bara árar í bát. En nei, ég tek meðvitaðar ákvarðanir um það hvernig ég vil lifa lífinu og þú getur gert það líka. Af því í þessum vítahring sjálfsniðurrifs sem ég var að tala um, það var svo margt þar sem ég get notað til þess að segja bara, nei, ég bara gefst upp. Allir aðrir en ég geta gert þetta. Ég ætla ekki að taka ákvörðun. Ég ætla bara að vera heima og ekki fara á eftir draumum mínum.“
Linda hvetur fólk til að snúa hugsun sinni við, hætta að halda sér niðri og smækka líf sitt. Hvetur hún fólk til að mæta á örnámskeið hennar Lifðu án afsakana sem hún heldur á netinu 4. september næstkomandi.
„Ég hefði getað notað til dæmis aldur, útlit og aldur. Hverjir eru ekki með fordóma gagnvart sjálfum sér út frá því hvernig við lítum út eða hafa aldursfordóma? Þá megum við ekkert gera hitt eða þetta. Ef ég væri að nota það gagnvart sjálfri mér, þá væri ég ekki hérna komin inn á nýtt heimili með spænskum kærasta sem er átján árum yngri en ég. Og ég er meira að segja ennþá þegar ég segi að hann sé svona yngri, þá koma mínir eigin fordómar. Ég finn alveg svona innra með mér af því ég hef aldrei átt yngri kærasta. En ég ákvað bara, Linda, lifðu lífinu og án afsakana. Þannig ég læt það bara ekki stoppa mig. Það er svo margt sem við getum notað gegn okkur, aldursfordóma, útlit. Ég ætla ekki að leyfa mér að njóta lífsins fyrr en ég er búin að losa mig við tíu kíló eða fara í andlitslyftingu. Eða ég vil ekki rugga bátnum, passa að rugga ekki bátnum á heimilinu eða fólkinu í kringum þig. Þá bara seturðu þig á bið, þú smækkar þig, segir að þú eigir ekki að vera með svona stóra drauma, reynir að halda þig niðri og þar fram eftir götunum.“
Hlusta má á Lindu í beinni á sunnudaginn í heild sinni hér.