Páll Magnússon fyrrum þingmaður og útvarpsstjóri og núverandi forseti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum fagnaði 24 ára edrúafmæli í gær. Greinir hann frá tímamótunum í opinni Facebook-færslu og rifjar upp skrefið sem hann tók til að hætta að drekka fyrir 24 árum:
„Mér finnst ekkert mjög langt síðan ég gekk frekar niðurlútur inn á meðferðarstofnun vestur í Kaliforníu til að leita mér hjálpar við alkóhólisma. Mér fannst þá að það gætu ekki verið mjög margir í heiminum sem væru meiri aumingjar en ég. Ég skipti þó um skoðun nokkru síðar. Í dag, 25. júlí, eru þó liðin 24 ár síðan þetta gerðist og ég hef verið edrú síðan. Einn dag í einu.“
Páll þakkar síðan fyrir sig en greinir um leið frá því að ráðgjafi hans í meðferðinni í Kaliforníu hafi ekki borið mikla trú í brjósti fyrir hans hönd:
„Það má ekki gleyma að þakka fyrir sig; fjölskyldu, vinum, samferðarfólki í AA-samtökunum og kannski síðast en ekki síst ráðgjafanum mínum fyrir vestan. Hann kvaddi mig með þeim orðum að honum þætti ekki líklegt að ég yrði edrú lengi. Taldi mig þannig innréttaðan að það tæki mig ekki langan tíma að sannfæra sjálfan mig um að ég væri alls enginn alkóhólisti. Von mín fælist í því að viðhalda áhuganum á sjúkdómnum og óttanum við hann. Og sem betur fer er ég enn bæði áhugasamur og hræddur.“