Bill Gates annar stofnanda hugbúnaðarrisans Microsoft og einn ríkasta mann heims þarf vart að kynna. Eins og áður hefur komið fram hefur Gates ákveðið að gefa mengið af auð sínum til góðgerðarmála á næstu árum en nú hefur hann gert nánari grein fyrir því hvers vegna hann gerir þetta og sömuleiðis af hverju peningarnir verða allir gefnir á næstu 20 árum. Gates segist einfaldlega ekki vilja láta minnast sín eingöngu sem ríks manns.
Gates ræddi við morgunþátt CBS. Góðgerðarstofnun hans mun gefa auðinn á næstu 20 árum en alls verða 200 milljarðar dollara gefnir ( 25. 758 milljarðar íslenskra króna). Gates segir að fjármunirnir verði nýttir til að bæði bæta og bjarga lífum fólks um allan heim. Hann segist viss um að tugum milljóna mannslífa verði bjargað. Ástæðan fyrir því að þetta verði klárað á næstu 20 árum sé sú að með því að gera það ekki á lengri tíma verði hægt að gera meira.
Eignir Gates eru metnar á 108 milljarða dollara (13.909 milljarðar íslenskra króna) en hann segir að þær muni minnka um 99 prósent á næstu 20 árum.
Hann segir að hann sé ákveðinn í að þegar komi að því að kveðja þessa jarðvist að meðal þess sem verði sagt um hann verði ekki að hann hafi dáið ríkur. Það séu of mikið af vandamálum sem þurfi að leysa til að ríghalda í auðævin.
Áður hafði verið gengið frá því að góðgerðarstofnun Gates myndi hætta starfsemi eftir andlát hans og fyrrverandi eiginkonu hans Melinda en því hefur verið breytt og nú mun stofnunin verða lögð niður 2045 eftir að hafa útdeilt nánast öllum auðævum hans.
Stofnunin hefur þegar varið um 100 milljörðum dollara (12.879 milljarðar íslenskra króna) í að draga úr barnadauða í fátækustu ríkjum heims með til að mynda dreifingu bóluefna.
Gates segir markmið stofnunarinnar helst þau að koma í veg fyrir dauða barna og mæðra úr sjúkdómum sem vel sé hægt að lækna, útrýma banvænum smitsjúkdómum og auka velsæld í fleiri löndum aðallega með því að bæta menntun.
Hann segist hafa séð árangur af starfi stofnunarinnar með eigin augum og lýsir yfir miklum áhyggjum af niðurskurði Bandaríkjanna og ríkja Evrópu á þróunaraðstoð.
Gates óttast að þeim börnum í heiminum sem deyja fyrir fimm ára aldur fjölgi en árið 2023 var þessi tala 4,8 milljónir.
Gates segist hafa rætt við Donald Trump forseta, áður en hann tók við embætti, um starf stofnunarinnar við meðal annars að hindra útbreiðslu HIV-veirunnar og lömunarveiki en eftir að Trump tók við hafi hann skorið niður slíka starfsemi á vegum ríkisins. Var það hluti af miklum niðurskurði stjórnvalda á þróunaraðstoð.
Ljóst er að stofnun Gates mun ekki geta leyst bandaríska ríkið alfarið af hólmi í þessum efnum en hann segist ætla að beita sér fyrir því að ríkið fari aftur að leggja fé til að bæta heilsu og minnka barnadauða í fátækustu ríkjum heims.
Gates verður sjötugur síðar á árinu. Hann segir að starf stofnunarinnar muni marka lokakafla líf hans. Hann vonar að hann nái að lifa í 20 ár svo hann sjái árangurinn af starfi stofnunarinnar. Gates segist ekki munu sakna auðsins þegar hann sé að mestu leyti farinn í starf stofnunarinnar en verði hann enn lifandi þegar því ljúki, eftir 20 ár, muni hann passa að eiga eftir nóg fyrir eins miklu af hamborgurum og hann þurfi.