Bandaríski tónlistarmaðurinn Billy Joel hefur verið greindur með heilasjúkdóm, NPH (e. Normal pressure hydrocephalus). Sjúkdómurinn felst í aukningu á heila- og mænuvökva í höfði og er heilabilun algengur fylgikvilli sjúkdómsins.
„Þetta ástand hefur versnað vegna nýlegra tónleika, sem hefur leitt til vandamála með heyrn, sjón og jafnvægi,“ segir í yfirlýsingu sem birt var á samfélagsmiðlum Joel í dag. „Mér þykir afar leitt að valda aðdáendum okkar áhyggjum og takk fyrir skilning ykkar.“
Joel sem er orðinn 76 ára hefur því aflýst fjölda væntanlegra tónleika sem fara áttu fram í Bandaríkjunum og Bretlandi frá júlí 2025 til júlí 2026. Mörgum tónleikanna hafði áður verið frestað um fjóra mánuði eftir að Joel gekkst undir aðgerð, ekki var greint frá vegna hvers hún var.
Joel hefur verið í tónlistarbransanum frá 16 ára aldri. Fyrsta plata hans, Cold Spring Harbor, kom út 1971 en seldist illa. Tveimur árum seinna kom Piano Man út. Titillagið er skálduð endursögn af reynslu Joels af fólki sem hann hitti sem setustofusöngvari (e. Lounge singer) í Los Angeles. Lagið sló í gegn og er líklega þekktasta lag Joel, sem á þó ófáa smelli á löngum ferli.