Brown segir sögu sína í grein á Independent.
„Ég fór fyrst á Ozempic árið 2023 en þurfti að hætta þegar það var lyfjaskortur á landsvísu.“ Brown býr í Bretlandi.
Þegar hann var á Ozempic var hann líka að hreyfa sig, fór út að skokka og gerði HIIT æfingar (high-intensity training) nokkrum sinnum í viku.
„Ég hætti á lyfinu fyrir einu og hálfi ári síðan, og síðan tognaði ég á ökkla og hætti líka að hreyfa mig.“
Brown ákvað að byrja aftur á þyngdarstjórnunarlyfi en fékk í þetta sinn Mounjaro. „Ég var til í að prófa og þetta hefur verið allt öðruvísi upplifun en á Ozempic.“
Ozempic og Mounjaro eru bæði lyf sem notuð eru til meðferðar við sykursýki 2 og sífellt oftar við offitu og þyngdartapi, en þau eru ólík að verkun og samsetningu.
Í Ozempic er virka efnið Semaglutide og í Mounjaro er það Tirzepatide. Á meðan Ozempic getur dregið úr „matarhugsunum“ (e. food noise) þá hefur Mounjaro áhrif á umbunarkerfi heilans og getur dregið úr kvíða, hvatvísi og hugsanlega einnig ADHD einkennum.
Fyrir Brown voru andlegu áhrifin óvænt og jákvæð aukaverkun og fann hann fyrir miklu meiri ró, einbeitingu og minni „innri truflunum.“
Frá því að hann var drengur hafði Brown verið orkumikill, sagður vera truflandi og með einhvers konar athyglisbrest, en aldrei sendur í greiningu. Þegar hann varð eldri þá fann hann sig blómstra í störfum þar sem orka og áhugi skipti meira máli en ró og einbeiting. Hann varð vanur hávaðanum í eigin huga, en hann var smeykur að byrja í einhvers konar lyfjameðferð við þessu þar sem hann hefur verið edrú frá áfengi og fíkniefnum í 27 ár.
Reynsla hans af Mounjaro var því óvænt og jákvæð. Hann segist geta einbeitt sér betur að samtölum, verkefnum og á auðveldara með að forgangsraða. Hann hefur haldið áfram að léttast en þyngdartapið er ekki lengur það sem hann er ánægðastur með, heldur andlega róin sem fylgdi óvænt með.
Brown tekur það skýrt fram í greininni að reynsla hans sé einmitt það, bara hans reynsla og að Mounjaro sé ekki ADHD-lyf og ekki ávísað sem slíkt. Hann segir að fólk eigi alltaf að ráðfæra sig við lækni.