Tónlistargagnrýnandinn Jónas Sen var ekki hrifinn af kórtónleikum sem haldnir voru í Norðurljósum í Hörpu á föstudaginn en þar var flutt verkið Carmina Burana eftir Carl Orff. Kórarnir sem fluttu verkið voru Söngfjelagið og Kór Akraneskirkju. Jónas gaf tónleikunum 2,5 stjörnur og nýtti tækifærið til að urða yfir íslenska kóramenningu.
„Kórinn er eini staðurinn þar sem miðaldra einstaklingar stíga fram og láta eins og þeir séu listamenn, án þess að fá greitt eða hljóta nokkra viðurkenningu,“ skrifaði tónlistargagnrýnandinn og bætti síðar við:
„Svo eru það kórferðalögin. Ódauðleg hefð þar sem hópur fullorðins fólks sefur á svefnpokadýnum í íþróttahúsum, drekkur vín í plastglösum og fær sér „einn lítinn“ sem verður að djúpum persónulegum harmleik um þrjúleytið. Alltaf hendir einhver í afsökunarræðu daginn eftir. Og ávallt verður einhver hrókur alls fagnaðar sem aðrir kórfélagar forðast næstu fjögur árin.“
Gagnrýni Jónasar hefur vakið töluverða reiði, sem áður hefur verið gerð grein fyrir.
Nú hefur Bjarnheiður Hallsdóttir skrifað grein til að svara Jónasi, en Bjarnheiður er söngvari í áhugamannakórum, eins og hún kallar það sjálf. Hún hefur sungið í kórum meira en hálfa ævina og segir starfið hafa auðgað líf sitt. Sem stendur er hún meðal annars félagi í Kór Akraneskirkju, sem einmitt flutti verkið á föstudaginn. Bjarnheiður segist ekki leggja í van sinn að henda í svar sem þetta en hér hafi verið gengið fram með yfirgengilegum, ósanngjörnum, ómaklegum og særandi hætti. Því sé ómögulegt að láta kyrrt liggja.
Hún segir að Jónas hafi í gagnrýni sinni tætt í sig áhugamannakóra og söngvara þeirra. Gagnrýnin sé full af fordómum og undarlegri fyrirlitningu.
„Baðaður í snobbi þess, sem stelur sig hærra settan“
Bjarnheiður fullyrðir að fæstir söngvarar áhugamannakóra líti á sig sem listamenn og að í kórferðum sé ekki drukkið meira en gengur og gerist í öðrum hópferðum. Á Íslandi sé óvenju mikið af kórum miðað við höfðatölu, flestir þeirra áhugamannakórar þar sem ástríðan ræður ríkjum. Söngur hefur góð áhrif á heilsuna, vinnur gegn streitu og örvar heilastarfsemi. Því megi segja að kórstarf sé mikilvægt lýðheilsumál.
„Áhugamannakórar gegna auk þess mikilvægu samfélagslegu hlutverki. Þeir syngja við trúarlegar athafnir, á hátíðisdögum, á skemmtunum og víða annars staðar. Langoftast fer þessi söngur fram í sjálfboðavinnu kórfélaga. Það má því fullyrða að menningarlífið yrði víða fátæklegra ef þeirra nyti ekki við.“
Bjarnheiður veltir því fyrir sér hvort Jónas þurfi ekki sjálfur að prófa að syngja í kór. Hann hefði eflaust gott af því.
„Það er sagt að það geti enginn verið syngjandi í vondu skapi. Söngurinn kallar fram jákvætt viðhorf, bros og vellíðan. Ætli Jónas Sen sé í kór? Efast reyndar um það og því ráðlegg ég honum að ganga í kór. Ég er viss um að hann hefði gott af því.“