

Hún er yngst þriggja systkina og ólst upp á Suðurnesjum. „Foreldrar mínir skildu þegar ég var tíu ára og það var fyrsta stóra áfallið mitt, tóku saman aftur reyndar og skildu í heildina þrisvar sinnum,“ segir hún.
Bróðir Karenar, Jón Einar, var sex árum eldri en hún. Hann byrjaði að drekka mikið sem unglingur.
Hún segir frá sterkri minningu frá því hún var um tíu ára. „Jón Einar passaði mig heila helgi og leyfði vinkonu minni að gista, gaf okkur pening til að fara út í sjoppu og vera lengi úti. Hann hélt stórt partý,“ segir hún.
Karen rifjar upp þegar vinur Jóns Einars sagði að Jón væri dáinn, hann var þá dáinn áfengisdauða en hún var þá bara barn og vissi ekki hvað það þýddi og var lömuð af ótta.
Eftir þetta fer Jón Einar að leiðast út í meiri neyslu og var hans líf litað af fíkn það sem eftir var.
„Ég var of mikið inn í hans málum frá mjög unga aldri en við vorum svo tengd og ég varð meðvirk, leitaði mikið og oft í herberginu hans og vildi bjarga honum, eðlilega,“ segir Karen.

Karen segir að hún hafi farið ung í samband með strák í neyslu og hafi ætlað að bjarga honum. En seinni hluta sambandsins hafi hann verið farinn að beita hana andlegu ofbeldi og stjórnaðist líf þeirra af hans neyslu, henni að reyna að bjarga honum og segja foreldrum hans frá.
„Hann er góður strákur og fjölskyldan yndisleg en eins og bróðir minn þá breytti neyslan honum bara,“ segir hún.
Jón Einar fór í margar meðferðir. „Ég og mamma lokuðum aldrei en pabbi og systir mín þurftu að loka á hann. Það var þeirra leið, fólk bregst misjafnlega við,“ segir hún.
Hann var kominn á götuna undir lokin og notaði vímuefni í æð.
„Hann fór inn í sína síðustu meðferð á Krýsuvík og ætlaði að gefa allt í hana. Hann fékk áminningu fyrir að sofa hjá stelpu þar inni í byrjun meðferðar,“ segir Karen.
Jón Einar kom í fyrsta helgarleyfið sitt til Karenar en hún segir að hann hafi stoppað mjög stutt vegna fíknar.
„Ég var stolt af honum að taka ábyrgð og fara aftur uppeftir en honum var vísað út eftir þessa helgi,“ segir hún.
Daginn eftir fékk Karen þær erfiðu fréttir að Jón Einar væri látinn og þurfti að tilkynna fjölskyldu sinni sorgartíðindin.
Hlustaðu á allt viðtalið við Karen hér að neðan.