

Borgaryfirvöld í Detroit í Bandaríkjunum hafa loksins reist styttu af RoboCop. Verkefnið hefur verið í meira en áratug í bígerð.
Hasarmyndin RoboCop frá árinu 1987 fjallar um lögreglumann í fjarlægri framtíð í Detroit sem er skotinn í tætlur af bófum en „lífgaður“ við og gerður að véllögreglumanni. Myndin, sem var gerð af hollenska leikstjóranum Paul Verhoeven, naut gríðarlegra vinsælda og hafa verið gerðar fjórar framhaldsmyndir. Einnig sjónvarpsþættir, tölvuleikir, leikföng, borðspil og fleira til að hylla véllögguna miklu.
Fyrir um fimmtán árum síðan skoruðu íbúar í Detroit á Dave Bing, borgarstjóra og fyrrverandi NBA stjörnu, að láta reisa styttu af RoboCop en þá hafði verið reist stytta af hnefleikakappanum Rocky úr samnefndum bíómyndum í borginni Philadelphia. Bing hafði hins vegar ekki áhuga á að láta skattfé af hendi rakna í verkefnið. Söfnun var hrundið af stað og síðar gáfu borgaryfirvöld leyfi fyrir styttunni.
Þetta tók hins vegar tíma, langan tíma. Nú hefur styttan, sem vegur 2,5 tonn, loks verið reist við hinn svokallaða eystri markað í borginni. Ekki langt frá stendur einmitt kvikmyndaverið Free Age Production Studio.
„Hún lítur frábærlega út!“ sagði Jim Toscano eigandi kvikmyndaversins við miðilinn MLive. Sagði hann að styttan hafi strax fengið mikla athygli og laðað fólk að staðnum.