
Kristinn er gestur vikunnar í Fókus, viðtalsþætti DV. Þar ræðir hann opinskátt um veðmálafíkn sem tók yfir líf hans um árabil, meðferðina sem varð vendipunktur árið 2020 og hvernig hann hefur síðan lifað edrú lífi — bæði frá veðmálum og áfengi.
Hlustaðu á þáttinn á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum. Textabrot úr þættinum má lesa hér að neðan.
Það er mjög algengt að sjá þekkta aðila auglýsa ólögleg veðmálafyrirtæki, eins og rappara, útvarpsmenn, hlaðvarpstjórnendur og fleiri. Sumir þeirra eru edrú frá áfengi og fíkniefnum og hafa talað opinskátt um fyrri fíknivanda og bata. Kristinn skilur ekki þessa þversögn.
„Ég skil ekki hvernig ætti að horfa á sig edrú en þú ert samt að stunda aðra fíkn. Þú ert að styðja undir aðra fíkn. Ég bara, ég skil það ekki,“ segir Kristinn. „Þetta er jafnmikil fíkn og allt hitt. Það eru til meðferðarúrræði á sömu stöðum og fyrir áfengis- og vímuefnafíkn.“
Sjá einnig: Garðar birtir skjáskot af frægum Íslendingum auglýsa hættulegan leik – „Hræsnarar. Punktur“
Kristinn segist telja að flestir þessara aðila séu meðvitaðir um skaðsemi veðmálafíknar en það þýði ekki að fólk sé slæmt.
„Fólkið sem er að þessu er ekkert slæmt. Við eigum ekki að fara að setja þetta fólk í einhvern flokk að það sé slæmt. Ég þekki fullt af fólki og þetta eru bara manneskjur eins og við,“ segir hann og bætir við að manneskjan sé almennt gráðug, að við lifum í vestrænum heimi þar sem peningar stjórna fjárhagslegu frelsi okkar.
„En við þurfum að átta okkur á því að við getum staðið fyrir ákveðna hluti og við þurfum ekki að vera gráðug alls staðar, við getum alveg tileinkað okkur samfélagslega ábyrgð,“ segir Kristinn.
„Ég tók eftir því að einn íþróttamaður Íslands er styrktur af erlendri veðmálasíðu. Ég var að tala við einn og sagði að mér þætti svo mikil synd að sjá þetta […] Hann sagði að hann væri alveg sammála en að þetta væri eina leiðin fyrir þennan aðila til að geta stundað íþrótt sína á alþjóðlegum vettvangi. Ég hugsaði með mér: „Er það samt, eða er það kannski bara leti ef hann hefur ekki farið á fleiri staði og athugað með styrki annars staðar frá? Er það bara þannig að sumir séu orðnir bara háðir því að þeir verða að fá þennan pening inn.“

Kristni finnst samfélagið vera sofandi fyrir skaðlegum áhrifum veðmála. „Mér finnst þú ekki vera fyrirmynd þegar þú ert að ýta undir þetta. Af því að fyrirmyndir eiga að standa fyrir eitthvað sem er jákvætt og heilbrigt fyrir samfélagið. Að vera rappari og skapa góða tónlist, vera góð fyrirmynd, sýna góða hegðun og allt þetta. Sama með íþróttamenn, hlaðvarps- og samfélagsmiðlastjörnur. Þeir eru fyrirmyndir í samfélaginu og það líta margir upp til þeirra þannig þegar þeir standa fyrir þetta þá eru þeir sjálfkrafa að segja: Þetta er í lagi, ef þú ætlar að vera jafn töff og við þá þarftu að gera þetta.“
Hlustaðu á allt viðtalið við Kristinn hér.