
Ég hef lesið flestar bækur sem spennusagnahöfundurinn Ragnar Jónasson hefur sent frá síðasta áratuginn eða svo. Þó að ég hafi gaman af spennusögum þá eru þær ekki í fyrsta sæti hjá mér og miðað við allt úrvalið sem í boði er í bókaútgáfu þá hef ég séð ástæðu til að spyrja mig að því hvers vegna ég laðast svo að bókum hans að ég sleppi eiginlega aldrei úr bók.
Ástæðan er án vafa sú að Ragnar er óviðjafnanlegur ráðgátu- og fléttumeistari. Hans skóli eru verk glæpasagnadrottningarinnar Agöthu Christie sem Ragnar hóf að þýða mjög ungur að árum. Meistaralega ofnar ráðgátur, frásögn sem vekur stöðuga eftirvæntingu og forvitni, og óvænt endalok eru formúla sem tryggir góða skemmtun.
Eftir því sem hefur liðið á ferilinn hefur Ragnari síðan tekist að glæða sögur sínar ómótstæðilegum og hrollvekjandi drunga, til dæmis í bókunum, Mistur, Þorpið og Hulda.
Fábrotinn og blátt áfram ritstíll Ragnars er stundum styrkleiki. Þegar best tekst til fellur þetta hlut- og skrautleysi textans vel að myrkum söguþræðinum en stundum verður textinn flatneskjulegur og endurtekningasamur.
Þetta eru dálítið óvenjuleg bókajól hjá Ragnari að þessu sinni því hann sendir frá sér tvær bækur, annars vegar hefðbundna morðgátu sem skrifuð er í samvinnu við Katrínu Jakobsdóttur, þeirra annað samstarf af þessu tagi, Franski spítalinn, og hins vegar nóvelluna Emilía, sem er ekki morðgáta heldur draugasaga.
Emilía er mínu mati verk sem hefði mátt markaðssetja sem ungmennabók. Aðalpersónan er kona um tvítugt, sagan er afskaplega auðlesin og endalok hennar fela í sér sögulega fræðslu.
Emilía flytur með foreldrum sínum og ömmu í timburhús í miðbæ Reykjavíkur. Hún saknar æskuheimilisins fyrir norðan en það sem verra er þá verður hún vör við ískyggilega reimleika í húsinu.
Þó að Emilía sé ekki morðgátusaga felur hún engu að síður í sér ráðgátu og býður upp á mjög óvæntan endi. Ráðgátan snýst um þá spurningu hvað vaki fyrir draugnum sem ásækir Emilíu. Eins og vanalega tekst Ragnari vel upp með fléttuna og forvitni lesanda er svalað í lokin.
Áðurnefndur ritstíll Ragnar virkar hins vegar illa í svona stuttri sögu (127 blaðsíður í litlu broti). Textinn er stundum flatneskjulegur og endurtekningasamur. Persónur ná ekki að lifna við á blaðsíðunum. En snjöll fléttan gerir Emilíu að þokkalegri skemmtun.
Franski spítalinn er annað samvinnuverkefni Ragnars og Katrínar Jakobsdóttur, hin vel heppnaða spennusaga þeirra, Reykjavík, sló eftirminnilega í gegn.
Það er erfitt að átta sig á hlut Katrínar í þessum bókum, án þess að hér sé nokkuð verið að gefa í skyn um að hann sé lítill, en báðar bækurnar bera öll höfundareinkenni Ragnars og höfundareinkenni Katrínar eru með öllu ókunn. Báðar bækurnar virka því á lesandann sem bækur eftir Ragnar Jónasson og fátt ef nokkuð greinir þær frá öðrum verkum hans.
Franski spítalinn gerist árið 1989 og segir frá ævintýrum ungrar blaðakonu á Morgunblaðinu sem óvænt fer að rannsaka morð á Fáskrúðsfirði, eftir að hafa upphaflega verið send þangað til að skrifa um atvinnulíf og sveitarstjórnarmál á staðnum.
Franski spítalinn er skemmtileg og vel fléttuð saga en yfir henni er einhver kæruleysisblær sem fellur illa að alvarlegu efninu og drunginn sem hvílur yfir bestu bókum Ragnars er oftast víðsfjarri. Maður trúir því til dæmis aldrei að blaðakonan Sunna sé í raunverulegri hættu þó að söguþráðurinn gefi það svo sannarlega til kynna. Þetta þrúgandi andrúmsloft sem mér hefur fundist einkenna bestu verk Ragnars er hér nokkuð fjarri.
Báðar bækurnar eru þokkalegasta skemmtun og mér leiddist aldrei yfir lestrinum. En þetta er ekki Ragnar Jónasson í sínu besta formi.