fbpx
Þriðjudagur 09.desember 2025
Fókus

Sigurður fékk kaldar kveðjur frá Háskóla Íslands – „Mér finnst þetta ljót framkoma“

Ritstjórn DV
Laugardaginn 6. desember 2025 15:31

Sigurður Árni Reynisson. Mynd: Vísir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigurður Árni Reynisson, kennari og fyrrum lögreglumaður, kveðst hafa orðið fyrir vonbrigðum þegar hann sótti um að klára meistaragráðu sína við Háskóla Íslands í Hagnýtri atferlisgreiningu.

Hann hafi verið kallaður í viðtal, sem hann taldi að ætti að snúast um námið, en þess í stað var ýjað að því að hann ætti mögulega ekki heima í náminu og sakavottorð hans dregið upp sem staðfesting á því. Þetta kemur fram í aðsendri grein Sigurðar Árna sem birtist á Vísi fyrr í dag.

Sigurður fékk árið 2017 skilorðsbundinn sextíu daga dóm fyrir að hafa beitt fanga ofbeldi í starfi sínu og hefur opnað sig um þá reynslu sína.

Sakavottorðið verði skuggi sem fylgir mönnum

Í nýjasta pistli sínum fjallar Sigurður Árni um það hvernig að sakavottorð verði stundum til þess að fólk fái ekki tækifæri til að sanna sig og það hafi hann þurft að reyna hjá æðstu menntastofnun landsins.

„Það er oft sagt að dómur hafi upphaf og endi og að refsingu ljúki þegar maður hefur staðið skil á því sem kerfið krafðist. En það er hálfsannleikur. Dómurinn sjálfur er bara hluti af ferðalaginu. Hitt ferðalagið, það sem enginn talar um, getur haldið áfram árum saman. Það byrjar þegar dómurinn er fallinn, þegar ferlin eru kláruð og maður heldur að lífið geti haldið eðlilega áfram. Það ferðalag byrjar þegar sakavottorðið verður að skugga sem fylgir manni hvert sem maður fer,“ skrifar Sigurður Árni.

Breytist úr upplýsingum í vopn

Segir hann að skjalið eigi að vera staðfesting á ákvörðum dómara og lagalegri niðurstöðu en eigi ekki að vera mat á einstaklingnum, persónuleg túlkun eða opinber stimplun sem fólk noti eftir eigin hentisemi.

„Í höndum sumra breytist sakavottorðið úr upplýsingum í vopn, ekki vegna þess sem þar stendur, heldur vegna þess sem fólk ímyndar sér. Það þarf ekki að vera neitt stórt sem stendur þar, það dugar að þar standi eitthvað. Sá sem ber skugga fortíðar býr alltaf við þá hættu að einhver annar noti hana sem ástæðu til að draga í efa framtíð hans,“ skrifar Sigurður Árni.

Hann bendir á að hann hafi fengið dóm, staðið skil á honum og tekið ábyrgð.

„Í flestum kerfum ætti það að duga. En samfélag sem treystir meira á orðspor en upplýsingar leitar alltaf eftir því sem hægt er að setja í hólf. Sakavottorð er þægilegt hólf, það er einfalt að lesa skjalið og hafa skoðun. Það er flóknara að ræða við manneskjuna sjálfa,“ skrifar Sigurður Árni.

Hann rekur svo upplifun sína af umsókninni til HÍ en hann hafi verið kominn hálfa leið í gegnum það og með góðar einkunnir. Hann hafi því átt von á viðtali um námið en það hafi farið í óvænta átt.

„Í stað þess var mér mætt með efasemdir sem höfðu lítið með námið að gera. Það var spurt hvort ég ætti yfirhöfuð heima í náminu? Hvort það væri of erfitt fyrir mig? Hvort ég væri „fræðimaður“ eða ekki? Á einum tímapunkti fann ég mig jafnvel spyrja, hálfur af undrun og hálfur af varnarleysi, hvort verið væri að gefa í skyn að ég væri einfaldlega of heimskur til að stunda námið. Svarið sem ég fékk var „ekki beint“, en það fól í sér þá afstöðu að ég ætti frekar heima í einhverju „einfaldara“, eins og kennaranámi, þar sem það væri mér auðveldara að „hafa áhrif og kenna börnum“ en að sinna fræðunum sjálfum. Ég sneri mér við til að kanna hvort ég væri staddur í einhverjum Fóstbræðra.

Sárt að upplifa fordómanna

„Sakavottorðið var ekki vandamál. En það varð að táknmynd sem gaf þeim sem sátu á móti mér leyfi til að draga úr mér, réttlæta eigin fyrir fram mótaðar skoðanir og búa til rök sem héldu ekki vatni,“ skrifar Sigurður Árni.

Í miðju viðtalinu hafi hann áttað sig á því að viðtalið snerist ekki um hæfni hans, fræðin eða námsárangur. Heldur viðhorf viðmælenda.

„Þetta snerist um viðhorf. Það snerist um hugmynd þeirra um mann sem hafði brotið af sér og ætti að vera ánægður með að fá yfirleitt að sitja þarna. Þetta snérist um vald, ekki vald kerfisins, heldur vald einstaklinga. Þetta var ekki dómur, heldur mat tveggja einstaklinga sem höfðu þegar ákveðið að ég passaði ekki inn í þeirra hugmynd um fræðasvið sem þær vildu verja,“ skrifar Sigurður Árni.

Að hans mati segir fólk það ekki beint upphátt þegar það notar sakavottorð sem óbeint vop.

„Það þarf ekki að segja „við viljum þig ekki vegna fortíðar þinnar“. Það nægir að nefna fortíðina. Og skyndilega er ábyrgðin á þér, þú þarft að sanna þig, útskýra þig og verja þig. Það er undarlega auðvelt fyrir þá sem sitja hinum megin borðsins því þeir þurfa ekki að segja neitt skýrt, þeir þurfa bara að gefa í skyn,“ skrifar hann.

Það sem hafi sært hann mest var ekki sakavottorðið heldur hvernig það hafi verið notað.

„Það var sem fortíð mín hefði orðið þeim að hentugum hlekk sem þær gátu togað í þegar þær vildu réttlæta eitthvað sem hafði í raun ekkert með sakavottorðið að gera. Myndin sem þær bjuggu til af mér var ekki byggð á því sem þar stóð, heldur á eigin fyrir fram mótuðum hugmyndum, menntahroka og misbeitingu valds,“ skrifar Sigurður Árni.

Þannig hafi fordómar viðmælendanna gert það að verkum langvarandi afleiðingar hlutust af dómnum.

„Samt lærði ég eitthvað mikilvægt af þessu. Ekki hvað skjal segir um mig, heldur hvað það getur sagt um aðra. Sakavottorð prófar mann ekki, það prófar samfélagið. Það sýnir hvar fólk stendur þegar það fær tækifæri til að sýna samkennd eða hroka, virðingu eða yfirburði. Það er ekki fortíð mín sem er prófuð, það er framtíð þeirra sem slá mann út af borðinu án þess að kynna sér málin,“ skrifar lögreglumaðurinn fyrrverandi.

Hér má lesa pistil Sigurður Árna í heild sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Einfaldasta venjan sem hann hefur séð bjarga hjónabandi – Hættu við skilnaðinn og eru enn gift

Einfaldasta venjan sem hann hefur séð bjarga hjónabandi – Hættu við skilnaðinn og eru enn gift
Fókus
Í gær

Kristinn segir að samfélagið sé sofandi: „Mér finnst þú ekki vera fyrirmynd þegar þú ert að ýta undir þetta“

Kristinn segir að samfélagið sé sofandi: „Mér finnst þú ekki vera fyrirmynd þegar þú ert að ýta undir þetta“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Elvis heimsmeistari snýr aftur til Íslands

Elvis heimsmeistari snýr aftur til Íslands
Fókus
Fyrir 3 dögum

Allt sem við vitum um brúðkaupsplön stjörnuparsins

Allt sem við vitum um brúðkaupsplön stjörnuparsins
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hefur ekki rifist við eiginkonuna í tíu ár

Hefur ekki rifist við eiginkonuna í tíu ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Kötturinn og ég – Falleg og persónuleg þroskasaga

Kötturinn og ég – Falleg og persónuleg þroskasaga