

Þrátt fyrir að fréttir úr íslenska skólakerfinu séu sjaldnast upplífgandi er margt þar bæði vel gert og skemmtilegt. Það fer bara ekki eins hátt!
Í bókinni Segir mamma þín það?, eftir Guðjón Inga Eiríksson, eru gamansögur úr íslenska skólakerfinu og það var sannarlega tími til kominn að þaðan kæmi eitthvað broslegt, jafnvel sprenghlægilegt, eins og víða er raunin þarna.
En fyrst að skrásetjaranum, Guðjóni Inga. Ertu búinn að vera lengi að safna þessu efni saman?
„Já, þetta hefur safnast saman hægt og bítandi í tölvunni hjá mér á undanförnum árum og þegar ég ákvað síðstliðið vor að hætta í kennslu eftir 40 ár á þeim vettvangi, ákvað ég að láta slag standa og henda þessu út á bók.
Er efnið af öllum skólastigum og er allt landið undir?
„Já, efnið spannar allt frá leikskóla – gullkornin þaðan eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér – upp í framhaldsskóla og sögurnar koma víða að.“

Hér á eftir eru nokkrar sögur úr bókinni og leysum strax úr þeirri spurningu sem er í fyrirsögninni að þessari grein:
*Þegar Ingveldur Ragnarsdóttir kenndi við 5. bekk í Grunnskóla Hellissands spurði hún eitt sinn á prófi í náttúrufræði:
„Hvað gerist á fengitímanum.“
Eitt svarið sem hún fékk sló öllum öðrum við. Það var:
„Þá hafa bændur mök.“
*Í kringum aldamótin síðustu átti þáverandi formaður Nemendafélags Menntaskólans í Kópavogi von á sendingu frá Amazon í Bandaríkjunum. Þetta var eitthvað sem nota átti á nemendaskemmtun, en það varð töf á afhendingunni og var pilturinn búinn að fara ófáar ferðir inn á skrifstofu skólans til að hringja í DHL á Íslandi og spyrjast fyrir um pakkann. Hann var orðinn ákaflega pirraður á seinaganginum og því að þetta skyldi dragast um marga daga – og nú var komið að skemmtuninni.
Eftir hádegi, sama dag og skemmtunin átti að vera, var formaðurinn mættur enn eina ferðina inn á skrifstofuna til að hringja í DHL. Var honum þá sagt að pakkinn væri kominn til landsins og á leiðinni með bíl til hans í Kópavogi.
Leið samt og beið, einhverra hluta vegna, en tuttugu mínútum áður en skemmtunin átti að hefjast var bílstjóri DHL mættur með sendinguna á skrifstofu skólans og var umsvifalaust náð í formann nemendafélagsins, sem orðinn var allstressaður, til að kvitta fyrir móttökuna. Þegar hann gekk inn á skrifstofuna hóf hann að ausa úr skálum reiði sinnar yfir bílstjórann út af töfunum og endaði svo á því að segja:
„Ég hélt að DHL ætti að senda hlutina hratt til fólks en nú veit ég að DHL þýðir bara … Djöfulli … Helvíti … Lengi!“
*Páll heitinn Helgason, sem lengi kenndi á Siglufirði, gat verið fljótur að hugsa eins og þessi saga sýnir: Nemanda hans vantaði aðstoð og rétti upp hönd, en í stað þess að segja kennari þá sagði hann óvart:
„PABBI!“
„Ha“ — svaraði Palli að bragði — „segir mamma þín það?“
Skrásetjari bókarinnar kenndi allan sinn feril í Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi og auðvitað rata sögur þaðan inn í bókina:
*Það var fyrir Íslandssöguprófið í 5. bekk, haustið 2003. Samviskusöm og metnaðargjörn móðir, sem lét okkur þessa sögu í té, var að hlýða syni sínum yfir og sagði þá meðal annars við piltinn:
,,Fornmenn trúðu því að þeir sem væru drepnir í bardaga færu til Valhallar, en hvað átti að verða um þá sem urðu sóttdauðir?“
Strákurinn hugsaði sig eilítið um en síðan kom:
,,Þeir voru sótthreinsaðir!“
*Gideonmenn voru í heimsókn í Mýrarhúsaskóla og einn þeirra lagði út af orðunum: „Hvernig getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?“
Þetta er tilvitnun í Nýja testamentið, sem þeir Gideonmenn voru að gefa öllum 5. bekkingum og var ekki ætlunin að nemendurnir legðu þarna eitthvað til málanna. Einn guttinn, mikill bílaáhugamaður og sonur bílasala, stóðst þó ekki mátið og svaraði alvarlegur í bragði:
„Með því að reykspóla ekki.“
Og svo í lokin eru nokkur gullkorn frá leikskólabörnum víðsvegar um landið:
*„Öxar við ána, skjótum upp kjána!“
*„Þegar englarnir koma of seint að sækja mann þá verður maður draugur.“
*„Ef maður lemur engil í hausinn þá breytist hann í ryk.“
*„Hvaða staf á afi þinn?“ „Hann á bara kross af því að hann er svo gamall.“
*„Ég get ekki farið út, ég er með hjartaslag.“ Hjartaslagið reyndist vera hiksti.
*„Ég stækka svo mikið að fötin eru farin að minnka á mig.“
*„Maður getur alveg verið á eyrunum, það er svo gott veður.“
*„Hundurinn minn heitir Bjartur.“ „Afi strákanna minna er kallaður Bjartur,“ skýtur leikskólakennari inn í. „Er hann hundur?“
*„Kannt þú ekki mannasiði?“ „Nei, bara konusiði.“
Já, þessi bók er þvílíkur gleðigjafi að þú verður bara að les´ana!