

Atvikið átti sér stað í 22. nóvember og sagði Reid í kjölfarið að henni hafi verið byrluð ólyfjan. TMZ birti óhugnanlegt myndband af Töru liggjandi á sjúkrabörum á meðan hún var flutt í sjúkrabíl.
Tara hefur glímt lengi við áfengisvanda en sagðist aðeins hafa drukkið eitt glas umrætt kvöld.
Í samtali við TMZ sagðist hún hafa mætt á Rosemont hótelið í Chicago seint umrætt laugardagskvöld. Hún hafi farið á barinn til að kaupa sér drykk en farið síðan út til að reykja. Þegar hún sneri til baka hafi servíetta verið yfir glasinu hennar sem hún kannaðist ekki við að hafa komið fyrir.
Nú hefur lögregla gefið út yfirlýsingu vegna málsins þar sem fram kemur að við yfirferð á öryggismyndavélum hafi ekkert athugavert komið í ljós. Enginn hafi átt við glasið hennar fyrir utan barþjóninn sem lagði servíettu yfir glasið þegar hún fór út – eins og venja er að gera.
#EXCLUSIVE 😳 Tara Reid claims she was drugged in a Chicago hotel then hospitalized.
Details: https://t.co/jkeTlHxP0r pic.twitter.com/7SbMq0ZiT3
— TMZ (@TMZ) November 24, 2025
Kom einnig fram í yfirlýsingunni að enn væri beðið eftir niðurstöðum úr eiturefnarannsóknum á sjúkrahúsinu þar sem Tara var meðhöndluð. Enn sem komið er hafi enginn verið handtekinn vegna málsins og ekkert bendi til þess að lyf hafi verið sett í glasið hennar – að minnsta kosti ekki á umræddum hótelbar.
Í yfirlýsingu til Daily Mail sagðist Tara standa við fyrri framburð sinn. „Aðalatriðið er það að það endar enginn ósjálfbjarga á sjúkrahúsi í átta klukkutíma eftir einn drykk.”
Hún bætti við að það eina sem hún muni væri að hún drakk einn drykk og vaknaði svo á sjúkrahúsi daginn eftir. „Þetta er óhugnanlegasta lífsreynsla sem ég hef lent í. Ég var algjörlega bjargarlaus,“ sagði hún.