

Harry Bretaprins mætti óvænt í viðtal í spjallþáttinn Late Show og reytti af sér brandarana. Að mati DailyMail hittu brandararnir þó ekki í mark, voru stífir og frekar neyðarlegir.
Þáttastjórnandinn Stephen Colbert var að ávarpa áhorfendur og gera grín að jólamyndunum úr smiðju Hallmark, sem eru oftast væmið léttmeti. Ekki er óþekkt í þessum myndum að þar finni venjulegar konur ástina með draumaprinsinum sem er síðan prins í alvörunni.
„Eins mikið og ég elska þessar jólamyndir, sem ég geri, þá finnst mér þær vera vandamál þar sem þær gefa áhorfendum óraunhæfar væntingar um að á jólum geti þeir lent í því að rekast á einhvern prins í vinnu sinni.“
Að þessu sögðu stökk Harry prins óvænt upp á sviðið. „Hvað ertu að gera hér,“ spurði Colbert prinsinn. „Afsakið, ég hélt að þetta væru áheyrnarprufurnar fyrir jólamyndina: Piparkökuprinsinn bjargar jólunum í Nebraska.“
Colbert spurði hvaða erindi alvöru prins hefði í slíka kvikmynd. „Nú þið Bandaríkjamenn eruð með jólamyndir á heilanum sem og konungsfólk, svo af hverju ekki?“
Þáttastjórnandinn maldaði í móinn. Bandaríkjamenn eru ekki með konungsfólk á heilanum.
„Í alvöru?,“ spurði prinsinn þá og hallaði undir flatt. „Ég frétti að þið hefðuð kosið ykkur kóng.“
Þá bauluðu áhorfendur. Líklega ekki á prinsinn heldur á Donald Trump Bandaríkjaforseta sem nýtur ekki mikilla vinsælda meðal fólks sem mætir í salinn hjá Stephen Colbert, enda varð Trump til þess að Colbert hefur verið rekinn.
„Það er nokkuð til í þessu hjá honum,“ sagði Colbert og kinkaði kolli. Prinsinn hélt þá áfram: „Og það eftir að þið gerðuð svo bilað mikið mál úr langalangalangalangalangaafa mínum, Georgi III“. En Georg var seinasti Bretakonungurinn sem ríkti yfir Bandaríkjunum.
Eftir smá spjall byrjaði að snjóa á sviðinu og Colbert og Harry létu eins og þeir væru að leika í jólamynd.
Þó að þessi uppákoma hafi verið á léttu nótunum ákvað DailyMail að hnýta í prinsinn og benda á að tengdafaðir hans, Thomas, er nú að berjast fyrir lífi sínu á gjörgæslu í Filippseyjum á sama tíma og Harry og Meghan eru að gera sig að fífli í sjónvarpi, Harry hjá Stephen Colbert og Meghan í jólaþætti sínum hjá Netflix.
„Hvorki hún né Harry prins minntust á föður Meghan, sem er á gjörgæslu eftir neyðaraðgerð,“ skrifar DailyMail sem segir að Thomas hafi þurft að gangast undir 3 klukkustunda aðgerð eftir að hann veiktist á heimili sínu. Hann er 81 árs gamall og hefur eldað grátt silfur við dóttur sína frá því að hún gekk að eiga Harry. Þau eiga í engum samskiptum í dag.