

Helena birti langa yfirlýsingu á Instagram-síðu sinni í gærkvöldi þar sem sagði farir sínar ekki sléttar af samskiptum við forsvarsmenn keppninnar.
„Ég hef verið sett í ómögulegar aðstæður og sé enga aðra leið en að hafna boði MUI ehf. um að greiða “sekt” fyrir að fá að halda áfram að starfa fyrir samtökin og halda titlinum Ungfrú Ísland 2025. Samningnum er því rift frá og með deginum í dag á grundvelli vanefnda MUI ehf. og lögmaður minn hefur sent MUI ehf. erindi þess efnis,” segir Helena meðal annars.
Helena vann titilinn Ungfrú Ísland 2025 í apríl síðastliðnum sem veitti henni keppnisrétt í Miss Universe-keppninni sem fram fór í Taílandi í nóvember. Í aðdraganda keppninnar veiktist hún hins vegar af matareitrun og tók ekki þátt. Helena segir að sú ákvörðun hafi verið tekin í hennar óþökk og segir að framkvæmdastjóri keppninnar, Manuela Ósk Harðardóttir, hafi tekið þá ákvörðun einhliða.
„Mér er nú sagt að það sé alfarið mín sök að hafa ekki keppt í Miss Universe og að ég þurfi að greiða fyrir það, hvort sem ég held áfram að hætti. Mér finnst það afar sérkennilegt þar sem ég barðist fyrir heilsu minni og barðist fyrir því að halda mér inni í keppninni, á þeim tíma sem þau afskráðu mig úr keppni í minni óþökk,” segir hún og bætir við að hún hafi þagað um það sem gekk á í rúman mánuð og allan þann tíma gert allt sem Ungfrú ísland bað hana um.
„Eftir að ég kom heim vissi ég ekki hvernig málin myndu þróast, en eftir undarlegan fund nýverið þar sem mér var sagt að ég þyrfti að greiða „sekt“ til að halda áfram sem Ungfrú Ísland 2025, eða ellegar greiða fyrir að afsala krúnunni samkvæmt samningsskilmálum, sem ég tel afar einhliða og ósanngjarna, get ég ekki lengur setið undir þessari framkomu. Ég tel að með þessu hafi samtökin brotið á samningi okkar, ekki aðeins með því að svipta mig tækifærinu sem ég hafði sannarlega unnið fyrir með því að sigra Ungfrú Ísland 2025, heldur einnig með því að krefjast greiðslna fyrir að halda titlinum Ungfrú Ísland 2025, sem hvergi kemur fram í samningi,” segir hún.

Helena segir að forsvarsmenn Ungfrú Ísland hafi viljað senda annan keppanda út, en telur sjálf að hún hafi haft nægan tíma til að ná bata fyrir keppnina í Taílandi. Telur hún að verið sé að refsa henni fyrir að benda á að aðstæður á keppnisstaðnum voru ekki í samræmi við þeirra eigin samninga.
„Ég upplifði að keppendur væru ekki í öruggu umhverfi, þar sem engin öryggisgæsla sást og ekkert aðstoðarfólk sem var áskilið í samningnum var til staðar þessa fyrstu daga, sem gerði það að verkum að einföldustu atriði eins og að nálgast vatn reyndist vandamál, þar sem strangar reglur gilda um það hvort og hvenær keppndur mega yfirgefa herbergi sín. Það höfðu komið upp tvö alvarleg lögregluatvik á hótelinu og maturinn reyndist ekki öruggur,” segir hún.
Hún segir síðan að eftir því sem henni hrakaði hafi hún ekki vitað hvort hún myndi geta keppt yfir höfuð, en eftir að haf fengið meðferð á sjúkrahúsi varð hún bjartsýn á að hún gæti náð bata og klárað ferlið, sérstaklega eftir að Miss Univese Organization fullvissaði hana um að hún gæti fengið tíma til að ná heilsu.
„Það var því mikið áfall þegar framkvæmdastjóri Ungfrú Ísland sagði mér að hún hefði tekið mig úr keppninni, þegar ég var að bíða eftir að heyra frá fulltrúa Miss Universe Organization. Mér sárni mjög að vera ekki gefinn kostur á að taka sjálf þessa ákvörðun en á þeim tíma var ég of veik til að berjast gegn ákvörðun þeirra og eftir þetta áfall þurfti ég einfaldlega að nota alla mína krafta til þess að ná mér,” segir hún.
Hún segir að í kjölfarið hafi henni verið bannað að tala um veikindi sín, bannað að svara skilaboðum og jafnvel bannað að segja hennar nánustu vinum frá sinni reynslu.
„Ungfrú Ísland hafði samráð við mig um formlegu yfirlýsinguna vegna fráhvarfs míns úr keppninni, en aftur á móti undirbjuggu þau yfirlýsingu þar sem fram kom að ég hefði sjálf dregið mig úr keppni, sem ég mótmælti þar sem það var ekki raunveruleikinn. Ég var enn mjög veik á þeim tíma, en endaði á að segja þeim að gera það sem þau teldur best, en bað um að það kæmi fram að ég glímdi við alvarleg veikindi. Á þeim tíma vissi ég enn ekki hvenær ég myndi ná bata, auk þess sem þetta tækifæri var þegar glatað.”
Helena hættir við þátttöku í Miss Universe í Tælandi vegna veikinda
Helena segir að hún geti með engu móti starfað áfram við þessar aðstæður og segist neita að láta þagga niður í sér.
„Að auki gæti ég ekki með góðri samvisku krýnt næstu Ungfrú Ísland til þess að ganga í gegnum það sem ég hef þurft að þola. Að vera Ungfrú Ísland er ólaunað starfð sem krefst mikillar vinnu og fjárútláta, en ég neita að tapa einnig minni sjálfsvirðingu.”
Yfirlýsinguna frá Helenu má lesa í heild sinni á Instagram-síðu hennar hér að neðan.
View this post on Instagram