

Sjónvarpskonan og matgæðingurinn, Eva Laufey Kjaran, ætlaði sannarlega að gera vel við sig á aðventunni og skella sér á uppistand grínistans heimsfræga, Jimmy Carr, í Eldborgarsal Hörpu, ásamt góðum vinum.
Miðar á sýningu Carr, sem Sena Live stendur fyrir, fóru í sölu fyrir tæpum mánuði við talsverðar vinsældir og var tilkynnt um aukasýningu daginn eftir þegar sú fyrri seldist upp.
Umræða fór þó af stað, sem fór þó ekki hátt, hvað fyrirvarinn var langur en sýningar Carr fara fram 15. og 16. desember árið 2026!
Það hafði hins vegar farið framhjá Evu Laufey sem ætlaði að gera sér glaðan dag í Hörpu ári á undan áætlun.
Sjónvarpskonan vinsæla hefur mikinn húmor fyrir sjálfum sér og deildi misskilningnum með fylgjendum sínum á Instagram. Ljóst er að vinahópurinn náði að gera gott úr kvöldinu og geta nú byrjað að telja niður dagana þar til að Carr stígur á stokk.

