

Leikarinn George Clooney er orðinn 64 ára gamall og segist ætla að leggja hjartaknúsaraskóna sína alfarið á hilluna. Í þessu felst að hann mun ekki lengur kyssa mótleikara sína fyrir framan tökuvélarnar. Frá þessu greindi leikarinn í samtali við DailyMail.
Þar sem Clooney hefur lengi þótt fjallmyndarlegur er ekki óalgengt að sjá hann í hlutverki þar sem ástin bankar á dyrnar. Því fylgir gjarnan kossaflens. Leikarinn hefur nú útilokað slík hlutverk eftir að hafa ráðfært sig við eiginkonu sína, Amal. Hann bendir einnig á að þó að hann sé hress og með orku á við yngri mann þá breyti það því ekki að hann er farinn að eldast.
„Þegar ég varð sextugur ræddi ég við eiginkonu mína og sagði: Sko, ég get enn spilað körfubolta með strákunum. Með 25 ára gaurum. Ég get enn hangið með yngra fólkinu. En eftir 25 ár verð ég 85 ára. Það breytir ekki máli hversu mörg heilsustykki maður borðar, þetta er raunveruleg tala.“
Leikarinn tók fram að það séu forréttindi að eldast. Honum hafi tekist að byggja upp farsælan feril og er orðinn velríkur. Þar með getur hann leyft sér að velja og hafna hlutverkum. Ungir leikarar njóta ekki sömu forréttinda. Hann segist einnig þakklátur fyrir að hafa orðið faðir eftir að hann komst á miðjan aldur. Hann geti leyft sér að verja meiri tíma með börnum sínum en yngri menn á framabraut hafa kost á. Clooney á átta ára tvíbura með eiginkonu sinni.
Clooney sagðist í viðtalinu ætla að taka sér leikarann Paul Newman sér til fyrirmyndar, en Newman baðst eftirminnilega undan því að þurfa að kyssa mótleikkonu sína Charlotte Rampling í kvikmyndinni The Verdic sem kom út árið 1982. Newman tók fram að varir hans væru aðeins fyrir eiginkonu hans.