

Margt þekkt og minna þekkt fólk hefur oft átt sér tvífara. Það er að segja það er nauðalíkt einstaklingum sem eru því alls óskyldir og það þekkir ekki neitt. Nýlega rakst Fókus á slíkt dæmi en af myndum að dæma þá er íslensk leikkona nauðalík erlendri stjórnmálakonu.
Kristín Þóra Haraldsdóttir er leikkona sem flestir Íslendingar ættu að kannast eitthvað við. Hún hefur leikið í fjölda leiksýninga, kvikmynda og sjónvarpsþátta.
Hún hefur leikið í Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og hjá Leikfélagi Akureyrar. Meðal sjónvarpsþáttaraða sem hún hefur leikið í eru Vigdís, Verbúðin og Katla en sú nýjasta er Heimaey sem var frumsýnd nýlega á Sjónvarpi Símans en Kristín Þóra leikur einnig í þáttaröðinni Danska konan en sýningar hefjast á þáttunum á RÚV á nýársdag. Meðal kvikmynda sem Kristín Þóra hefur leikið í eru Andið eðlilega, Villibráð og Lof mér að falla en fyrir leik sinn í síðastnefndu myndinni hlaut hún Edduverðlaunin. Þann 19. desember verður Kristín Þóra með sérstaka jólasýningu af einleik sínum Á rauðu ljósi, í Þjóðleikhúsinu. Verkið fjallar um stress og hefur gengið í leikhúsinu í um tvö ár og ekkert lát virðist á vinsældunum því sýningar halda áfram eftir áramót.

Signe Munk er dönsk þingkona en hún situr á þingi fyrir Sósíalíska þjóðarflokkinn þar í landi. Hún hefur setið á þingi síðan í kosningum 2019 en samhliða þingmennskunni lauk hún námi í hjúkrunarfræði.
Munk hefur gengt stöðu pólitísks talsmanns þingflokkins (d. politisk ordfører) sem er með æðstu stöðum í þingflokkum á danska þinginu. Taki flokkurinn sæti í ríkisstjórn eftir næstu kosningar, sem fara fram í seinasta lagi í september á næsta ári, er ekki ólíklegt að Munk verði ráðherra.

Kristín Þóra og Signe Munk verða að teljast, af myndunum hér að ofan að dæma, töluvert líkar jafnvel svo líkar að það sé hægt að kalla þær tvífara en þó verður hver lesandi að dæma um það fyrir sig.
